23 des Öll él …
Síðla hausts árið 1904 sigldi ung stúlka, nýorðin 21 árs, síðustu ferð ársins með strandbátnum Hólum inn Seyðisfjörð. Hólar voru helsta samgöngutæki landsmanna á þessum árum og í skipið var stundum hlaðið með mörg hundruð farþega í einu. Sjóferðir gátu verið hættuspil á haustin. Þegar Hólar héldu ferðinni áfram til Reykjavíkur skall brotsjór á skipið út af Fáskrúðsfirði. Við lá að fjölda farþega, sem tjaldað hafði verið yfir á þilfarinu vegna rúmleysis, skolaði í sjóinn.
Unga stúlkan var víðförul á þess tíma mælikvarða, þótt hvorki væri hún gömul né efnuð. Tólf ára gömul missti hún föður sinn. Móðir hennar stóð ein uppi með fimm börn, það yngsta eins árs. Fljótlega var ekkert annað að gera en að bregða búi. Börnin fylgdu flest móður sinni úr Lundareykjadalnum vestur á Barðaströnd þar sem elsti sonurinn var prestur. Um leið og þau höfðu aldur til fóru þau að vinna fyrir sér.
Stúlkan hét Steinunn Símonardóttir og var amma mín. Eftir fermingu réðst hún í vist á bæjum hér og þar um Vestfirði. Henni tókst að safna sér fyrir námi í Kvennaskólanum í Reykjavík og lauk þaðan prófi. Í Reykjavík var þá lítið um störf, en Austfirðir voru land tækifæranna.
Þegar Steinunn frétti að frú Björg Einarsdóttir, prestsfrú á Dvergasteini við Seyðisfjörð, ætti von á barni og væri að leita að stúlku í vist, skrifaði hún hjónunum. Séra Björn Þorláksson sá meðmælin og þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um.
Veturnir voru dimmir og allra veðra var von. Steinunn hafði verið fáar vikur eystra þegar ofsaveður gekk yfir ytri hluta Seyðisfjarðar aðfaranótt 14. nóvember. Þök fuku af hlöðum, svokallað Ólafarhús á Eyrunum skekktist töluvert og bátur sem bundinn var niður á báðum stöfnum fauk, svo ekkert varð eftir nema stafnarnir. En enginn meiddist eða dó.
Frú Björg varð léttari og Steinunn var henni hjálparhella með barnungan son. Nokkrum árum síðar réði amma sig á gistiheimili á Seyðisfirði, sem á þessum tíma var einn aðalkaupstaður landsins. Svo fór að húsið brann og með því allar hennar litlu reytur.
Ekki dugði að leggja árar í bát. Allslaus réðst hún sem verslunarmær til Konráðs Hjálmarssonar á Norðfirði. Þar var fyrir ungur maður, Tómas Zoega. Þau giftu sig 17. janúar 1914. Þremur mánuðum seinna fæddist þeim dóttir, andvana.
Unga konan, rétt rúmlega þrítug, var lífsreynd og hafði lært að lífið er ekki alltaf dans á rósum. En þessi fátæku hjón spiluðu vel úr sínu, eignuðust síðar þrjú börn og af þeim er mikill ættbogi, um 150 afkomendur. Steinunn lifði góðu lífi í rúmlega 60 ár eftir að hún stóð yfir moldum síns fyrsta barns. Lífið heldur áfram og öll él birtir um síðir, jafnvel þau dimmustu.
Ég óska Seyðfirðingum æðruleysis í andstreymi og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2020.