28 des Lærdómar ársins 2020 og næstu skref
Þetta ár er og verður um aldur og ævi tengt kórónaveirufaraldrinum, þessum skæðasta faraldri síðustu 100 ára. Lífi flestra jarðarbúa hefur verið umbylt. Margir hafa látið lífið, enn fleiri veikst og fáir sloppið við áhrif sóttvarnaaðgerða á líf og efnahag. Íslendingar eru þar engin undantekning. Alls hafa 28 Íslendingar látist úr faraldrinum þegar þetta er skrifað, þúsundir veikst, margir alvarlega. Enn fleiri hafa misst vinnuna. Áhrif faraldursins gegnsýra samfélagið. Um fátt annað er fjallað og rætt.
Viðbrögð ólíkra þjóða við faraldrinum hafa varpað ljósi á styrkleika samfélaganna en einnig vandamál og bresti. Patentlausnir popúlista hafa reynst gagnlausar. Veiran hefur flett ofan af gagnsleysi slíkra lausna. Nærtækast er ástandið í Bandaríkjunum, þar sem úrræðaleysi stjórnvalda kippti fótunum undan áframhaldandi valdatíð núverandi forseta. Þeim löndum þar sem fagmennska ræður ríkjum hefur vegnað mun betur.
Samstaða innan samfélaga hefur einnig reynst mikilvæg í að takast á við þetta sameiginlega vandamál. Því meiri samstaða, því betri niðurstöður. Stjórnmál sem einkennast af átökum, flokkadráttum og skotgrafahernaði hafa reynst ríkjum illa.
Íslandi hefur vegnað nokkuð vel í baráttunni við faraldurinn, samanborið við aðrar þjóðir. Fer þar saman fagleg stýring aðgerða, með sérfræðinga á sviði faraldsfræði í fararbroddi – okkar frábæra þríeyki, stjórnmál þar sem, þrátt fyrir allt, er samstaða um grundvallaratriði og samheldin þjóð. Íslendingar hafa sýnt samstöðu í að styðja aðgerðir stjórnvalda í að takast á við faraldurinn þó svo skiptar skoðanir geti verið um einstaka útfærsluatriði. Samstaða hefur verið meðal stjórnmálaflokka um að nýta svigrúm ríkissjóðs til að draga úr neikvæðum afleiðingum faraldursins þó svo áherslumunur sé milli flokka um umfang og útfærslur. Þetta hefur reynst gott veganesti.
Einhverjum kann að þykja að ég dragi upp rósrauða mynd af íslensku samfélagi og stjórnmálum. Ein ágæt kunningjakona mín sem er alin upp í Bandaríkjunum en hefur búið á Íslandi sagði mér að hún nennti ekki að fylgjast með íslenskum stjórnmálum. Þau væru svo leiðinleg því allir væru sammála. Hennar viðmið voru bandarísk stjórnmál. Ekki er annað hægt en að vera sammála henni um að íslenskir stjórnmálamenn eru mun meira samstíga en bandarískir kollegar þeirra. Umfang átaka er afstætt. Og leiðinlegt er gott. Aldrei verð ég þakklátari fyrir þá heppni að fæðast á Íslandi en þegar fyrsta fréttin í fréttatíma er af týndum hundi. Ég fæ nánast tár í augun (vonandi finnst samt hundurinn heill á húfi).
En verkefninu er ekki lokið.Enn á eftir að ljúka bólusetningu þjóðarinnar á sama tíma og veiran herjar. Byggja þarf stoðir undir uppgang í efnahagslífinu svo þær þúsundir sem misst hafa vinnuna fái ný tækifæri. Svigrúm ríkissjóðs til að fjármagna aðgerðir er takmarkað. Því lengur sem efnahagslægðin stendur því þrengra verður það svigrúm. Á endanum klárast það. Á endanum kemur að skuldadögum. Stærsta verkefni næstu ára er að stuðla að uppgangi sem skapar störf og nægileg verðmæti til þess að ekki þurfi að skera niður í velferðarkerfinu, þegar svigrúm til aukinnar lántöku klárast.
Stefna Viðreisnar er að grípa til aðgerða sem styðja verðmætasköpun svo ekki þurfi að grípa til niðurskurðar. Halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári og því næsta bendir til þess að verulegt stökk þurfi að verða í verðmætasköpun ef forðast á niðurskurð. Slík stökk koma að jafnaði ekki nema í kjölfar meiriháttar breytinga á kerfum sem hamla vexti. Því er það stefna Viðreisnar að afnema slík kerfi.
Nærtækasta dæmið er krónan. Sá óstöðugleiki sem krónan skapar hefur reynst Íslandi mjög dýr. Íslensk útflutningsfyrirtæki þurfa að geta staðið af sér löng tímabil hás raungengis með háum raunlaunum og erfiðri samkeppnisstöðu. Þetta hefur stuðlað að einhæfni útflutningsatvinnuveganna hér á landi. Fyrirtæki og heimili greiða margfalda vexti samanborið við nágrannalöndin. Fyrir hvern er þessi króna? Hver græðir á henni? Ekki ég!
Annað stórmál er aðgengi að auðlindum í eigu þjóðarinnar og eðlilegt endurgjald fyrir það. Breið sátt er í samfélaginu um að fara slíka leið – en ekkert er gert vegna óeðlilegra ítaka sérhagsmuna.
Þessar ákvarðanir ættum við sem samfélag að taka á sama hátt og við tökumst á við veiruna. Vega og meta kostnað og ábata, hagsmuni samfélagsins alls og komast að niðurstöðu þar sem almannahagsmunir ganga framar sérhagsmunum.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar