31 jan Janúar
Mánuðurinn sem byrjar á morgun með nýju ári heitir eftir Janusi , hinum rómverska guði breyt – inga og nýrrar byrjunar. Janus er einnig latneskt orð sem þýðir opnun og hurð. Janus er með tvö andlit, bæði framan og aftan á höfðinu. Hann horfir fram á við auk þess að vera með bakþanka! Skilaboð Rómverjanna sem völdu þetta nafn eru þau að um áramót erum við hvött til að horfa bæði til baka til liðins árs og einnig fram á veg til hins nýja. Við skulum því hlýða Janusi og staldra við um þessi áramót, meta hvernig okkur farnaðist á liðnu ári og horfa til framtíðar með væntingar og vonir sem fylgja nýju ári.
Í þeim anda hvet ég þig, ágæti lesandi þessara síðustu bakþanka ársins í Fréttablaðinu, að gefa þér tíma um áramótin og íhuga hvað þú hefðir getað gert betur á liðnu ári og hugleiða og jafnvel skrifa niður hvaða verkefni, markmið og áherslur ættu að fá forgang á nýju ári hjá þér. Þú gætir til dæmis sett þér það markmið að auka og bæta samskiptin og samveru með þínum nánustu. Þú gætir ákveðið að huga betur að eigin heilsu, ferðast á nýja staði, bætt við þekkingu þína og færni á sviði sem gæti nýst þér í starfi og leik. Þú gætir líka stefnt að því að læra eitthvað nýtt sem væri gaman að kunna eins og að leika á hljóðfæri eða tala nýtt tungumál.
Að mínu mati er mikilvægast um áramótin að strengja þess heit að gefa engan afslátt af grunngildum á komandi ári, því ef þú ert með gildin þín á hreinu þarftu aldrei að sjá eftir neinu!
Gleðilegt nýtt ár!