06 jan Moldvörpurnar koma í ljós
Sá, sem á að vera brjóstvörn lýðræðis í heiminum, ræðst á undirstöður þess í heimalandi sínu. Flestir með sæmilega dómgreind átta sig á að maðurinn er galinn. Hverjum dettur þá í hug að kjósa svona mann? Í skoðanakönnunum var allt útlit fyrir að hann gjörtapaði. Samt fékk forsetinn meira en 74 milljónir atkvæða. Gamall félagi minn sem hefur ferðast þvers og kruss um Bandaríkin á liðnum árum segist aldrei, aldrei, hafa hitt neinn sem sagðist hafa kosið Trump. Hverjir gera það þá?
Í Tímanum birtist frétt fyrir um 25 árum: „Um það bil 5.000 manns hafast við í dimmum rangölum undir New York-borg. Þau kallast „moldvörpufólkið“ og sumir fara aldrei út í sólarljósið, heldur hafast við allan sólarhringinn í neðanjarðarhíbýlum sínum.“ Eru þetta þeir sem styðja forsetann valdasjúka? Hann er einmitt frá New York sem sannar tilgátuna. Moldvörpufólkið hefur fjölgað sér (hvað annað á það að gera?) og teygt anga sína vítt og breitt um Bandaríkin.
Eins víðáttuvitlaus og þessi kenning er, þá er hún engu fráleitari en þær meinlokur sem forsetinn og fylgifiskar hans halda fram. Djúpríkið er „ósýnilegt og leynilegt bandalag hagsmunaafla innan og utan stjórnkerfisins til að koma í veg fyrir að kjörnir fulltrúar þjóðar hverju sinni geti ráðið gangi mála“, svo vitnað sé í fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Kjölturakkar Trumps innan Bandaríkjaþings, sem vilja núna hunsa vilja kjósenda, gætu vitnað í ritstjórann. Þeir eigi að ráða, ekki kjósendur.
Ekki hafa allir Repúblikanar tapað vitglórunni. Ben Sasse, öldungadeildarþingmaður flokksins frá Nebraska, sagði kollegum sínum að þeir væru að leika sér að eldinum. Fulltrúar lýðræðisins beini nú byssu að hjarta þess.
Sumir tala um „andlitslausa embættismenn“ sem hafi rænt völdum frá stjórnmálamönnum og standi vörð um reglurnar. En reglur eru einmitt vörn samfélagsins gegn hættulegum stjórnmálamönnum og fylgismönnum þeirra. Í Bandaríkjunum stóðu regluverðirnir, dómstólar og embættismenn fylkjanna, sig meðan annars flokks stjórnmálamenn vísa til samsæriskenningasmiða. Sá hópur þingmanna, sem nú er á valdi óttans við forsetann, getur aldrei svarið af sér að hafa snúist gegn lýðræðinu og stjórnarskránni. Sasse bætti við að „ekki einn einasti þingmaður tryði því í raun að svindlað hefði verið í kosningunum, enginn. Aftur á móti heyri ég þá tala um áhyggjur af því hvernig þeir muni líta út í augum áköfustu stuðningamanna Trumps.“
Flestir eru tregir til að viðkenna stuðning við rugludalla, því líkur sækir líkan heim. Skoðanakönnun á Íslandi sýndi þó að tæplega helmingur stuðningsmanna Miðflokksins viðurkenndi að vilja kjósa Trump og nær einn af hverjum fimm í Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki. Það glittir í moldvörpufólkið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. janúar 20201.