14 jan Grímulaus vanhæfni eða valdníðsla
Of hröð afgreiðsla þingmála eykur hættu á mistökum – eykur hættu á óvandaðri löggjöf. Það er óhjákvæmilegt að brýn mál komi upp sem þingið þurfi að vinna með hraði. Hitt er öllu verra að ráðherrar hafa ítrekað skapað neyðina sjálfir með því að draga að leggja fram mál þar til of seint er orðið að veita þeim þá þinglegu meðferð sem lög krefjast.
Við slíkar aðstæður er þingið svipt möguleikanum á að rýna framlögð þingmál, sinna eftirlitshlutverki sínu og leggja fram tillögur til bóta. Almenningur og hagsmunasamtök eru líka svipt réttinum til að veita umsagnir um frumvörpin. Í desember 2016 felldi þingið til dæmis brott ákvæði sem skyldaði ráðherra til að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Þau mistök má vafalaust rekja til þess að umræðan um frumvarpið stóð yfir í samtals 6 mínútur, sem dreifðust á 2 daga.
Það er ekki síður alvarlegt þegar sérstaklega umdeild mál verða að lögum án þess að þingið geti rýnt þau og bætt eða þjóðin krafist þess að þau verði ekki að lögum yfir höfuð. Því miður höfum við mörg nýleg dæmi. Málið sem flaug hæst var sennilega skipun dómara í Landsrétt. „Við þurfum fokking tíma til að vinna þetta mál“, voru fræg orð sem Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, lét falla í umræðunum vegna þess að þáverandi dómsmálaráðherra lagði fram lista yfir tilnefningar dómara þegar aðeins tveir dagar voru eftir af þinginu. Þingið þurfti að ákveða í mikilli tímaþröng hvort tilnefningarnar yrðu samþykktar eða ekki, og mistök voru gerð.
Sömu aðferðafræði var beitt við lögfestingu undanþáguheimildar fyrir ráðherra til að gefa út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis. Heimildin var lögð fram og samþykkt 9. október 2018. Nær tveimur vikum áður hafði Matvælastofnun fellt úr gildi rekstrarleyfi tveggja fiskeldisstöðva og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar 5. október. Undanþáguheimildin var þó ekki borin undir þingið fyrr en degi áður en stöðva átti rekstur fyrirtækjanna. Það er alltaf viðbúið að úrskurðarnefndir staðfesti stjórnvaldsákvarðanir og ráðherra hefði því getað veitt þinginu tæpar tvær vikur til að ræða hið gríðarstóra hagsmunamat sem var uppi: Vernd lífríkis og náttúru á Vestfjörðum á móti lífsaf komu tuga fjölskyldna. Fyrir vikið fór engin umræða fram um hvort aðrar lausnir væru tækar, sem mögulega kynnu að fara bil beggja. Í versta falli hefði ráðherra getað haft frumvarpið tilbúið en beðið niðurstöðu úrskurðarnefndar. Þá hefðu þinginu þó gefist 4 dagar til umræðunnar. Hvers vegna ætli frumvarpið hafi þá ekki verið lagt fram fyrr en að morgni þess 9.?
Fyrir rúmum mánuði voru lög sett á verkfallsaðgerðir f lugvirkja hjá Landhelg isgæslunni. Þeir höfðu verið í verkfalli í 3 vikur og allar þyrlur gæslunnar því orðnar ónothæfar. Bregðast þurfti skjótt við, enda öryggi íbúa landsbyggðarinnar og hundraða sjómanna í húfi. Aftur var fyrirsjáanlegt með löngum fyrirvara í hvað stefndi og ráðherra hafði í hendi sér að veita þinginu rýmri tíma en einn dag til að ræða útfærslu lögbundinna takmarkana á verkfallsaðgerðir. Þegar frumvarp um verkfallsbann var lagt fram var það þó þegar orðið of seint og þyrlurnar ekki hæfar til f lugs eða björgunar. Það er í raun ótrúleg mildi að ekki hafi farið illa á meðan.
Þrjú síðustu dæmin eru öll frá þessu kjörtímabili og því síðasta, og voru öll á ábyrgð ráðherra Sjálfstæðisf lokksins. Þegar þetta er tekið saman málast upp tvær mögulegar myndir. Annars vegar mynd af endurtekinni vanhæfni við að leggja þingmál fram tímanlega svo hægt sé að tryggja lýðræðislega umræðu og aðkomu almennings. Hins vegar mynd af aðferðafræði sem byggir á að skapa tímaþröng til að knýja í gegn umdeild mál án verulegrar mótstöðu. Að mæta grímulausir á fjöldasamkomur er nefnilega ekki það versta sem ráðherrar Sjálfstæðisf lokksins hafa stundað. Af þessum tveimur möguleikum veit ég þó ekki hvor er verri: vanhæfni eða valdníðsla.