Lygin er lævís og lipur

Benedikt Jóhannesson

Munum að orð hafa áhrif og að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Ekki bara þeirrar sálar sem orði er hallað á, heldur líka hinna sem heyra stóryrðin og túlka á versta veg fyrir þann sem logið er upp á. Þetta höfum við verið minnt á að undanförnu.

Einhverjir ganga svo langt að aldrei skuli hallmæla neinum manni. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Þá yrðum við að tala um heiðursmennina Hitler og Stalín, tvo af verstu fjöldamorðingjum sögunnar. Okkur ber að vekja athygli á óhæfuverkum þeirra, þó svo að einhver gæti móðgast fyrir hönd þessara valinkunnu góðmenna.

Eigum við þá alltaf að segja satt? Prestur nokkur ákvað að fræða börn í sunnudagaskóla um að jólasveinninn væri ekki til. Honum fannst óhugsandi „að ljúga að börnunum.“ Þjóðfélagið fór nánast á annan endann yfir grimmd þessa sannsögla manns.

Umræðan nú varð til þess að ég rifjaði upp bók sem ég las einu sinni, Liar‘s Paradise eftir Graham Edmonds. Hann bendir á að lygarnar eru misillskeyttar.

Siglt undir fölsku flaggi. Stjórnmálamenn lofa einhverju hátíðlega fyrir kosningar, en svíkja svo loforðin vegna „breyttra aðstæðna“ eða „ómöguleika“.

Eitthvað gefið í skyn. Viðmælandinn játar hvorki né neitar þegar spurt er hvort hann ætli að styðja réttarbót. Áheyrendur gefa sér að hann geri það, þó að það hafi aldrei komið til greina.

Bætt við smáatriðum. Lagnir stjórnmálamenn skreyta frásögu sína með atvikum sem eru óháð meginefninu, en gera söguna trúverðuga.

Að koma sinni útgáfu af sögunni út. Sá sem fyrstur segir frá einhverju hefur forskot. Þá verða aðrir að leiðrétta sögu eða myndband sem komin eru í dreifingu. „Látum helvítið neita því“, sagði Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti, þegar hann laug óeðli upp á andstæðing sinn.

Að segja ekki söguna alla. Ég segist hafa eytt tvöfalt lengri tíma með merkum stjórnmálamanni en að var stefnt. Auðvitað sleppi ég því að fundur okkar átti upprunalega aðeins að vera fimm mínútur.

Skjall. Flestir vilja að aðrir séu hrifnir af þeim. Já-menn eru vinsælli hjá hégómlegum valdhöfum en þeir sem segja satt, þótt lítið gagn sé að þeim fyrrnefndu.

Spila á tilfinningar. Hvers vegna ætti ég að ljúga að þér?

Að svara öðru en spurt er um. Nánast regla hjá sumum stjórnmálamönnum. Þeir varpa líka fram smjörklípum sem beina athyglinni frá kjarna málsins.

Virðuleiki. Segja að það sé fyrir neðan virðingu sína að svara spurningum sem efast um sannsögli viðmælandans.

Margir halda að tölur séu góðar til blekkinga. Winston Churchill bætti um betur og sagði að eina tölfræðin sem menn gætu treyst væri sú sem þeir byggju til sjálfir.

Edwards mælti þó ekki með eintómri sannsögli: „Lífið yrði leiðinlegt, því að við myndum öll þegja. Andrúmsloftið sem fylgir endalausum heiðarleika væri að fara með okkur.“

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2021