13 feb Vel undirbúin Borgarlína
„Það veit enginn hvað þessi Borgarlína er!“ hefur maður heyrt sagt. „Hvar á hún að liggja? Er þetta strætó eða lest? Enginn virðist geta svarað því!“ Þetta er allt rétt… ef litið er framhjá því að vika er síðan gefin var út 160 blaðsíðna skýrsla, Frumdrög Borgarlínu, sem sýnir nákvæma legu Borgarlínunnar í gegnum borgarlandið, legu stöðva, þversnið gatna og útfærslur einstaka gatnamóta. Fyrir utan þetta er vissulega lítið vitað um Borgarlínuna.
Hvert fer hún?
Áhugasamir geta þannig farið á borgarlinan.is og hlaðið niður nákvæmri og myndrænni lýsingu á því hvernig Borgalínan muni keyra niður Ártúnshöfðann, hvernig hún muni tengjast inn á Suðurlandsbraut og hvaða akreinar og bílastæði muni þurfa að víkja til að hún geti fengið það rými sem þarf. Menn geta séð hvernig Borgarlínan fer í gegnum miðbæinn, hvar stöðvarnar verða staðsettar við Háskólann og Landspítalann, hvernig hún þverar Fossvoginn og hvaða leið verður farin á Kársnesinu.
Hvernig lítur hún út?
En fyrir utan þessa yfir hundrað blaðsíðna löngu, myndrænu lýsingu er lítið vitað. Og sérstaklega af hverju þessi leið hafi verið valin en ekki önnur! Það leiðarval virðist ekki byggjast á neinu… nema 60 blaðsíðna skýrslu COWI-ráðgjafafyrirtækisins frá 2017. Jú, ásamt ítarlegum tillögum Strætó að nýju leiðarneti sem hafa verið í tvö ár í smíðum og lesa má um í skýrslu EFLU-verkfræðistofu og skoða á vefsíðu Strætó. Já, og raunar glænýju umferðarlíkani höfuðborgarsvæðisins sem unnið var af Mannviti og COWI fyrir Vegagerðina. En fyrir utan allar þessar skýrslur, ný líkön og ítarlega vinnu sérfræðinga Vegagerðarinnar og Verkefnastofu Borgarlínu í nokkur ár er enn margt óljóst.
Hvernig er hún fjármögnuð?
Til dæmis fjármögnunin. Ekkert liggur fyrir varðandi fjármögnun verkefnisins. Nema reyndar sögulegur 120 milljarða sáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem útlistar nákvæmlega hve miklu skuli kostað til og hvenær. Þá er reyndar búið að stofna sérstakt félag um verkefnið, setja í það eignir, skipa því stjórn og ráða framkvæmdastjóra og starfsfólk. Einungis nánast allir flokkar á þingi studdu stofnun félagsins. En að öðru leyti er enn margt í lausu lofti varðandi þessi mál.
Hverju skilar hún?
Það er lítið vitað um hvort Borgarlínu-verkefnið muni skila einhverju til samfélagsins. Eina sem við höfum í hendi til að geta rætt um það af einhverju viti er ítarleg 60 blaðsíðna skýrsla um félagshagfræðilega greiningu á Borgarlínunni sem bendir til að Borgarlínan skili samfélaginu 26 milljarða ábata yfir 30 ára tímabil. En ef við lítum fram hjá þessum útreikningum, þá gætum við alveg eins verið að kaupa miða í Lottóinu!
Á hverju keyrir hún?
Loks er það orkugjafinn. Það er enn ekkert vitað um á hverju þessi Borgarlína mun keyra. „Kolum?“ kann einhver að spyrja. Það er von að fólk spyrji! Því það eina sem við höfum í höndunum varðandi orkugjafann er ítarleg margra tuga blaðsíðna Orkugjafaskýrsla, gefin út af Landsvirkjun og unnin af Royal Haskoning DHV og VSÓ ráðgjöf. Niðurstaða hennar er að valið standi á milli vetnis eða „plugin“-rafmagnslausna. En ef þessi skýrsla er sett til hliðar, þá er flest enn á huldu varðandi orkumál Borgarlínunnar.Þar sem kaldhæðni skilst ekki alltaf á prenti er rétt að leggja háðtóninn til hliðar hér í lok pistilsins og segja hlutina eins og þeir eru. Það er ekki hægt að halda fram góðu móti að það sé „gríðarlega margt óljóst með Borgarlínuna“. Auðvitað geta á henni verið ýmsar skoðanir, skárra væri það nú með framkvæmd þar sem fyrst áfanginn einn kostar um 25 milljarða! En fáar samönguframkvæmdir síðustu ára hafa verið jafnvel undirbúnar. Fáar jafnmikið rýndar. Fáar jafnvel kynntar. Allt við Borgarlínuna er að verða eins ljóst og það getur orðið.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021