12 apr Klofinn Sjálfstæðisflokkur
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra brást við tveimur tillögum okkar í Viðreisn um nýja nálgun Evrópumálanna með grein í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag. Fyrirsögnina um „snemmbúið aprílgabb“ tekur hann úr leiðara Morgunblaðsins, sem skrifaður var af sama tilefni 1. apríl.
Leiðaraopna Morgunblaðsins þennan dag, sem grein ráðherrans birtist, er lýsandi fyrir það hvernig komið er fyrir Sjálfstæðisflokknum, sem áður var kjölfestan í utanríkismálum landsins. Nú birtist flokkurinn í þessu gamalgróna blaði þverklofinn á einu helsta málasviði stjórnmálanna.
Með og móti EES
Utanríkisráðherrann er í frjálslyndari armi flokksins. Í greininni ver hann EES-samninginn og aðildina að innri markaði Evrópusambandsins með skynsamlegum rökum. Við erum sammála honum um þau.
En ritstjórar Morgunblaðsins, sem eru í hugmyndafræðilegri forystu fyrir íhaldsarmi flokksins, birta leiðara við hliðina á grein ráðherrans til að tæta jafnharðan niður rök hans fyrir EES.
Þar er tekið undir þau sjónarmið að Ísland hafi tapað fullveldinu með framkvæmd samningsins. Forherðingin er svo mikil að blaðið gengur í lið með þeim sem halda því fram að aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu stríði gegn fullveldi landsins.
Það eru þessi öfgaviðhorf í íhaldsarmi Sjálfstæðisflokksins, sem binda hendur þeirra sem frjálslyndari eru. Þegar þeir verja EES-samninginn er jafnvel sett ofan í við þá samdægurs á sömu opnu Morgunblaðsins.
Kyrrstaðan heldur flokknum saman
Veruleikinn er sá að það eru þrjátíu og þrjú ár síðan umræður hófust um þátttöku Íslands í EES. Það var fyrir fall múrsins. Þetta þýðir að allar ákvarðanir um stöðu landsins í fjölþjóðasamvinnu voru teknar á tímum kalda stríðsins.
Heimurinn hefur bara gjörbreyst á þessum tíma. En klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum kemur í veg fyrir að ræða megi hvort unnt sé að taka ný skref í fjölþjóðasamvinnu til þess að styrkja samkeppnishæfni Íslands í nýrri heimsmynd.
Kyrrstaðan ein getur haldið flokknum saman. Hún er tekin fram yfir umræðu, sem leitt getur til öflugri hagsmunagæslu fyrir Ísland. Varðstaða um fortíðina verður mikilvægari en sókn fyrir framtíðina.
Sammála um hindranir
Full aðild að Evrópusambandinu er ekki markmið í sjálfu sér. Hún er aðeins leið fyrir Ísland eins og flest önnur Evrópuríki til þess að ná þeim markmiðum, sem við horfum til.
Tökum dæmi: Verðbólga er áttföld miðað við Danmörku. Vextir hér eru umtalsvert hærri en þar. Gengissveiflur eru að mati forstöðumanna nýsköpunarfyrirtækja helsta hindrun fyrir þróun þekkingariðnaðar. Ísland er eina vestræna ríkið sem tekur nú erlend lán í stórum stíl með gengisáhættu til að fjármagna ráðstafanir vegna kórónuveirunnar.
Utanríkisráðherra veit jafn vel og ég að þetta er stórar hindranir. Fyrir heimili sem fyrirtæki. Þær gera atvinnulífinu erfiðara um vik að hlaupa hraðar. Um þetta deilum við ekki.
Ósammála um leiðir
Hvernig á þá að bregðast við? Þar skilur leiðir.
Utanríkisráðherra hefur ásamt samráðherrum sínum lagt fyrir þingið að framselja vald til Seðlabankans til þess að beita jafn víðtækum fjármagnshöftum og gera þurfti eftir hrun. Með öðrum orðum: Það á að setja upp nýjar viðskiptahindranir því krónunni er ekki treyst.
Fyrsti áfanginn í tillögum okkar í Viðreisn um ný skref í alþjóðasamvinnu miðar að því að taka upp stöðugleikasamstarf í gjaldeyrismálum við Evrópusambandið. Markmiðið er að tryggja íslensku atvinnulífi sambærilega samkeppnisstöðu og nágrannar okkar njóta.
Með slíku samstarfi getum við rutt hindrunum úr vegi án þess að taka upp nýjar viðskiptahindranir. Það eru ríkir hagsmunir.
Að þóknast ritstjórum
Utanríkisráðherra reynir að þóknast ritstjórum Morgunblaðsins með því að halda því fram að Ísland sé ekki nú þegar aðili að stærstum hluta Evrópusamstarfsins. Því að við innleiðum ekki nema 13,4% af reglum þess. Annar af ritstjórum blaðsins var á sinni tíð fyrstur til að nota þessa talnaleikfimi.
Auðvitað veit utanríkisráðherra að fjöldi lagareglna er ekki góður mælikvarði á þau umsvif sem að baki búa. Með sömu rökum væri unnt að halda því fram að ferðaþjónusta hefði óverulegt vægi í þjóðarbúskapnum af því að ríkisstjórnin hefur bara flutt eitt frumvarp sem snertir þá atvinnugrein sérstaklega.
Til frekari skýringar má benda á að flestar reglur Evrópusambandsins eru á sviði landbúnaðar. Margar þeirra gilda í stuttan tíma og eru því settar aftur og aftur. Á innri markaðnum eru reglurnar í miklu ríkari mæli til lengri tíma. Af sjálfu leiðir að fjöldi reglna er ekki mælikvarði á umfangið.
Kyrrstaðan er versti óvinur atvinnulífsins
Kjarni málsins er sá að við lifum í öðrum heimi en í kalda stríðinu þótt sumir vilji halda dauðahaldi í þá tíma. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum til þess að tryggja íslenskum fyrirtækjum sömu stöðu og keppinautarnir njóta. Ný skref í alþjóðasamvinnu geta einfaldlega hjálpað okkur til þess að ná settum markmiðum.
Kyrrstaðan er versti óvinur atvinnulífsins um þessar mundir. Það er því hættulegt að láta klofninginn í Sjálfstæðisflokknum ráða því hvaða mál komast á dagskrá stjórnmálanna.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2021