01 júl Partur af prógrammet, frú Stella?
Í fyrra yfirgáfu flestir erlendir fjárfestar íslenska fjármálamarkaðinn vegna vantrúar á krónunni. Mörgum þótti því ánægjulegt að sjá erlenda fjárfestingasjóði taka þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu að þetta sýndi traust útlendinga á efnahagsstjórninni. Í f lestum vestrænum ríkjum eru erlendar fjárfestingar einmitt vísbending um að hlutirnir séu í góðu lagi. Það er þó ekki algild regla.
Líta þarf undir yfirborðið
Í sumum tilvikum er nauðsynlegt að skyggnast aðeins undir yfirborðið áður en ályktanir eru dregnar um það mat, sem að baki slíkum fjárfestingum býr.
Erlendir fjárfestar hafa keypt hér verðbréf fyrirtækja og ríkissjóðs í gegnum tíðina. Þeir hafa svo komið og farið eins og vindurinn.
Meirihluti Alþingis heldur því fram að það sé órjúfanlegur hluti af fullveldi landsins að Íslendingar, neytendur og skattborgarar, greiði erlendum áhættusjóðum margfalt hærri vexti en þeir fá í heimalöndum sínum.
Útlendingar hafa því lengi getað stundað hér mjög ábatasöm vaxtamunarviðskipti og líka átt áhættuviðskipti með krónuna.
Fullveldið notað sem afsökun
Hér er fullveldið vitaskuld notað sem afsökun. Raunveruleg ástæða fyrir þessum viðskiptaháttum er allt önnur.
Nokkrir íslenskir einstaklingar og fáein íslensk fyrirtæki hagnast vel á sams konar áhættuviðskiptum. Meirihluti Alþingis er að verja slíka sérhagsmuni gegn hagsmunum almennings og þorra fyrirtækja í landinu. Það er fullveldinu alveg óviðkomandi.
Reyndar mætti fremur segja að það græfi undan fjárhagslegu fullveldi landsins.
Ísland flokkað með Nígeríu
Í þessu ljósi var áhugavert að lesa fréttaskýringu í Kjarnanum nýlega um erlendu fjárfestingasjóðina, sem keyptu í Íslandsbanka. Þar kemur fram mat þeirra á Íslandi og stöðugleika krónunnar.
Samkvæmt Kjarnanum flokkar fjárfestingasjóðurinn RWC Asset Management Ísland sem verðandi nýmarkaðsríki í glærukynningu. Í þeim flokki eru ríki eins og Króatía og Nígería.
Sjóðurinn telur að verðandi nýmarkaðsríki standi að baki löndum eins og Mexíkó og Rússlandi, en margt sé þó líkt með Íslandi og löndum eins og Chile og Argentínu.
Ætla verður að ráðherrarnir hafi lesið þetta mat áður en þeir lýstu ánægju sinni með álit sjóðsins á íslensku efnahagslífi.
Spá um gengishástökk
Reyndar voru aðrir hlutir í mati RWC Asset Management miklu athyglisverðari en þessi f lokkun. Í matinu kemur nefnilega fram að sjóðurinn gerir ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar í ár en 7% hækkun á næsta ári.
Ein af forsendunum fyrir hlutabréfakaupunum er sem sagt gengishástökk krónunnar.
Í flestum öðrum vestrænum ríkjum hefði slík frétt hleypt öllu í bál og brand. Fjölmiðlar hefðu varið ómældu plássi og tíma í umfjöllun um málið. Ríkisstjórn og Seðlabanki hefðu stigið fram og gefið sannfærandi yfirlýsingar um að slíkt myndi ekki gerast.
En hér er ekki sagt eitt aukatekið orð. Gerningar af þessu tagi virðast bara vera „partur af prógrammet“ svo ekki sé vitnað í minni mann en Salomon Gustavson í Stellu í orlofi.
Froðuhagkerfi eða verðmætasköpun
Ljóst er að rætist þessi hagnaðarforsenda RWC Asset Management, þýðir það ómælt tap venjulegra, íslenskra útf lutningsfyrirtækja. Alveg sérstaklega yrði þetta skellur fyrir viðreisn ferðaþjónustunnar og nýsköpun þekkingariðnaðar.
Ríkissjóður yrði hins vegar í góðu vari með gengisáhættu af miklum erlendum lántökum frá síðasta ári.
Þetta lýsir vel þeirri innri spennu, sem ónothæfur gjaldmiðill veldur í íslensku efnahagslífi. Mat RWC Asset Management er dæmi um spennu milli froðuhagkerfis og verðmætasköpunar.
Nú hefur Seðlabankinn fengið heimildir til þess að beita gjaldeyrishöftum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sveiflur af þessu tagi. Væntanlega verður öllum verkfærum bankans beitt og snúningur tekinn á þeirri guðsgjöf sem ráðherrarnir sáu í komu sjóðanna.
Varla verður ferðaþjónustan látin borga þeim 7% gengishagnað ofan á veglega forgjöf ríkissjóðs. Sumir sjóðanna óttast höftin og eru þegar farnir með forgjöfina.
Pottlok á umræðuna
Fyrir sex árum voru Samtök atvinnulífsins virk í umræðu um stöðugan gjaldmiðil fyrir hagkerfi verðmætasköpunar. Nú virka þau eins og pottlok á þá umræðu. Þessi umskipti eru ekki hjálpleg, nema fyrir þá fáu sem hagnast á froðuhagkerfinu.