26 júl Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að stöðva hlýnun jarðar en samkvæmt vísindamönnum heims blasir mjög alvarleg staða við okkur jarðarbúum ef ekki tekst að halda hlýnuninni undir 1.5°C. Við erum nú þegar komin upp fyrir 1°C og að óbreyttu mun hitinn fara yfir 1.5° innan 10 ára. Þetta þýðir að hnattrænt verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) um helming á næstu 10 árum og það er risavaxið verkefni stjórnmálamanna í dag.
Við Íslendingar erum ekki undanskildir þeirri áskorun enda erum við með langmestu losun GHL í Evrópu á ári eða um 44 tonn á mann á meðan Lúxemborg vermir annað sætið með 18 tonn. Meðallosun á mann í heiminum er rúm 4 tonn. Á heimsvísu erum við í flokki mestu umhverfissóða heims og einungis Qatar með meiri losun, miðað við höfðatölu.
Heildarlosun Íslands er tæp 14 milljónir tonna. Ef illa farið land er talið með er losunin tæp 18 milljónir tonna en til samanburðar er losun GHL í Noregi 55 milljónir tonna.
Núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda miðar að samdrætti upp á 1,5-2 milljónir tonna árið 2030 (af 18 milljónum) sem er besta falli ágæt byrjun til að uppfylla skilyrði Parísarsamningsins, en minnsti hluti losunar GHL Íslands fellur þar undir. Aðgerðaáætlunin er því engan veginn fullnægjandi, taka verður miklu stærri skref.
Það styttist í kosningar og stefnur stjórnmálaflokkanna eru að líta dagsins ljós. Ekki munu allar aðgerðir skila árangri í loftslagsmálum en til að ná stórum skrefum strax þarf að einblína á nokkur atriði. Gagnlegt væri því að kjósendur myndu krefja stjórnmálamenn svara við nokkrum mikilvægum spurningum þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum.
Fyrsta spurningin til stjórnmálamanna er: Hvernig á að fá landeigendur framræsts votlendis til að endurheimta það?
Líkt og sjá má á myndinni frá Umhverfisstofnun er heildarlosunin (án illa farins lands sem nemur 4 milljónum tonna) tæp 14 milljónir tonna. Sjá má að flokkurinn Landnotkun og skógrækt er langstærsti losunarþátturinn en hann samanstendur af framræstu votlendi upp á 9,5 milljónir tonna og bindingu frá skógrækt upp á 446 þúsund tonn.
Líkt og sjá má eru landeigendur framræsts votlendis almennt ekki að taka ábyrgð á losun GHL frá sínu landi, meira þarf til.
Raunhæft er að stöðva losun frá framræstu landi eða um 6,6 milljónum tonna og án þess að ganga á landbúnaðarland í ræktun en vel innan við 15% af framræstu votlendi er í ræktun.
Önnur spurning til stjórnmálamanna er: Hvernig á að stöðva losun frá illa förnu landi þ.e. stöðva landeyðingu?
Næstmesta losunin er frá illa förnu landi sem að stórum hluta má rekja til langvarandi ofbeitar sauðfjár á viðkvæmum gróðursvæðum. Svæðið sem um ræðir er stórt og krefst samstarfs margra aðila.
Þriðja spurningin til stjórnmálamanna er: Hvernig á að stórauka bindingu GHL?
Magn GHL í andrúmsloftinu er allt of mikið og ljóst að það verður að reyna að ná því eins mikið niður og hægt er sem fyrst. Við höfum tvær leiðir til þess, annars vegar með gróðri og hins vegar með tækni eins og að binda í berg líkt og CarbFix er að gera og lofar mjög góðu. Binding GHL í skógrækt er 446 þúsund tonn á ári og með lítilli fyrirhöfn mætti margfalda hana.
Fjórða spurningin til stjórnmálamanna er: Hvernig innleiðum við hringrásarhagkerfi hratt og örugglega?
Dagur auðlinda jarðarinnar (Earth Overshoot Day) er í ár 29. júlí en það er sá dagur ársins sem auðlindir jarðarinnar duga í sjálfbærri nýtingu. Restina af árinu, þ.e. ágúst, september, október, nóvember og desember, erum við að ganga á auðlindir jarðarinnar. Miðað við vistspor okkar jarðarbúa þyrftum við 1,7 jarðir til að standa undir núverandi nýtingu auðlinda. Vistspor Íslands er langt yfir heimsmeðaltalinu og ekki hollt fyrir nokkur mann að reikna út hvað við þyrftum margar jarðir ef allir væru eins og við.
Við eigum bara eina jörð og því verðum því að aðlaga og breyta okkar hegðun. Þetta snýst um hvað við veljum að kaupa, hvernig við ferðumst, hvaða mat við veljum að borða, hvaða vörur við framleiðum og hvaða efni við notum. Við verðum að hætta að sóa og henda hlutum og nýta þá aftur og aftur. Breyta þarf kerfinu og viðhorfum almennings.
Fleiri spurningar ættu heima hér en mikilvægt er að kjósa stjórnmálaflokk sem hefur sannfærandi stefnu um hvernig eigi að takast á við þetta stærsta mál samtímans. Það er mikið í húfi.