19 ágú Viðreisn staðreyndanna
Mig langar að þakka þingframbjóðanda í Norðausturkjördæmi, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, fyrir athyglisverða grein sem birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst síðastliðinn. Þar greinir hún landslag stjórnmálanna á Íslandi fyrir komandi kosningar og veitir stjórnmálaflokknum Viðreisn sérstaka athygli, sem vill svo til að sá sem þetta skrifar er í framboði fyrir. Í Morgunblaðsgreininni er reynt að skilgreina Viðreisn út frá því sjónarhorni sem viðkomandi hentar en lítið fer fyrir raunverulegum staðreyndum. Þar segir höfundur meðal annars: „flokksfólki líður best í umræðum um aðild að Evrópusambandinu og álíka dægurmál, en fátt er um svör þegar kemur að raunverulegum stefnumálum“.
Mér þykir sorglegt að heyra að frambjóðanda til Alþingis þyki vaxtakostnaður heimilanna, rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja, réttindi og val neytenda og auknir útflutningsmöguleikar í sjávarútvegi, svo fátt eitt sé nefnt, einungis dægurmál en ekki raunveruleg stefnumál, en látum það liggja á milli hluta.
Fyrst Berglind hefur svona áhuga á Viðreisn og telur að flokkurinn hafi fá svör þegar kemur að raunverulegum stefnumálum er mér það ljúft og skylt að segja frá því af hverju ég ákvað að ganga til liðs við Viðreisn og býð mig stoltur fram til Alþingis fyrir flokkinn.
Viðreisn
– beitir sér fyrir kerfisbreytingum í sjávarútvegi til að skapa raunverulegan stöðugleika og sátt um kvótakerfið sem tryggir sanngjarna hlutdeild þjóðarinnar og sjómanna af verðmætunum sem verða til í greininni. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki boðað neitt annað en að standa vörð um óbreytt fyrirkomulag.
– mun beita sér fyrir því að íslenska krónan verði bundin við evru að danskri fyrirmynd með tvíhliða samningi við Seðlabanka Evrópu. Slíkt fyrirkomulag mun gjörbylta lánaumhverfi og verðlagi á Íslandi með sambærilegum vöxtum og fást í nágrannalöndum okkar. Það minnkar greiðslubyrði íslenskra heimila til muna.
– boðar raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum þar sem kerfið sem skapaði vandann verður nýtt til að bregðast við honum. Hlutverk stjórnvalda á að vera að leiðrétta fyrir markaðsbresti og skal meginreglan því vera sú að sá sem mengar borgi fyrir þá mengun og þær tekjur á móti notaðar til að binda kolefni og greiða fyrir umhverfisvænni framleiðsluháttum.
– setur sálfræðiþjónustu í sama flokk og aðra heilbrigðisþjónustu og vill að hún verði niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.
– talar fyrir því að Ísland axli sína ábyrgð sem rík þjóð og taki vel á móti fólki á flótta. Telur flokkurinn það til að mynda ótækt að hælisleitendur séu sendir til baka í ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi og lögðu þingmenn Viðreisnar fram tillögu á Alþingi til að stöðva þær brottvísanir. Það studdi ríkisstjórnin ekki.
– lögfesti jafnlaunavottun og hefur lagt fram þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.
– lagði til við endurskoðun LÍN að grunnframfærsla námslána yrði bundin við neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins til að tryggja að námsmenn geti raunverulega lifað af lánunum sínum. Sú tillaga var felld af ríkisstjórninni.
– krefst þess að hætt verði að koma fram við vímuefnaneytendur sem glæpamenn og styður afglæpavæðingu neysluskammta. Þrátt fyrir frelsistal Sjálfstæðisflokksins þá vildu þau ekki hleypa því frelsi í gegnum þingið.
– fékk í gegn á Alþingi að nauðgun yrði skilgreind út frá skorti á samþykki.
– styður fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu til að stytta biðlista og skapa meira valfrelsi fyrir bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga. Sjálfstæðisflokkur hins vegar hefur rekið stefnu Vinstri grænna í ríkisstjórn gegn sjálfstæðum rekstri. Ég bið því Berglindi um að líta í eigin barm næst áður en hún slengir fram órökstuddum fullyrðingum um að Viðreisn muni við fyrsta tækifæri stökkva í meirihlutasamstarf sem hún kallar „vinstribræðing“.
Stefna Viðreisnar er alveg skýr og í raun kemur það mér ekki á óvart að reynt sé að halda öðru fram núna þegar stutt er í kosningar. Getur verið að ákveðnir aðilar óttist gott gengi flokksins? Ég leyfi lesendum að gera það upp við sig.
Við sem erum í framboði fyrir Viðreisn viljum að íbúar þessa lands hafi frelsi til athafna og að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum við ákvarðanatöku. Við trúum á efnahagslegt jafnvægi, hófleg ríkisafskipti og sterkt atvinnulíf. Við viljum jöfnuð meðal íbúa þannig að allir fái notið sambærilegrar grunnþjónustu hvar á landinu sem þeir eru búsettir. Við trúum á alþjóðasamstarf og horfum til aukinna áhrifa Íslands innan alþjóðastofnana og þá helst Evrópusambandsins vegna þeirra tækifæra sem slíkt samstarf skapar fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Viðreisn er frjálslyndur og framsýnn flokkur sem horfir til tækifæranna með ábyrgum og skynsamlegum hætti en lætur ekki stýrast af ótta eða íhaldssemi.
Við munum vinna okkar málefnum brautargengi og gefum ekki neitt eftir af okkar grunngildum að kosningunum yfirstöðnum, sama hvort það kann að vera í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu. Fáránlegt er að gera til annarra flokka kröfur um samstarfsyfirlýsingar sem manns eigin flokkur uppfyllir engan veginn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2021