31 ágú Ertu fjármálasnillingur?
Stærsta fjárfesting hverrar fjölskyldu er oftast kaup á húsnæði. Fæst höfum við ráð á slíkri fjárfestingu án þess að taka há lán til langs tíma. Oftast lán upp á tugi milljóna. Það skiptir því höfuðmáli að vita hver greiðslubyrðin verður í framtíðinni.
Óþolandi óvissa
Því miður eru aðstæður á Íslandi þannig að enginn veit hver greiðslubyrðin verður. Í raun þurfa lántakendur að taka ákvarðanir um marga þætti, bæði í upphafi, en ekki síður á lánstímanum. Á að taka verðtryggt lán eða óverðtryggt, á það vera með föstum eða breytilegum vöxtum? Hvað á að gera þegar gluggi opnast fyrir endurfjármögnun á lánstímanum? Það má með sanni segja að hér séu lántakendur settir í stöðu áhættufjárfestis eða spákaupmanns. Þeir þurfa að velta fyrir sér hver verður verðbólgan, vaxtastig, gengi krónunnar og þróun launa. Er það sanngjarnt að ætlast til þess að við séum fjármálasnillingar og sérfræðingar í áhættumati? Svarið er auðvitað nei.
Vextir og verðbólga
Seðlabankinn hækkaði nýverið meginvexti sína úr 1% í 1,25%. Sú hækkun kann að láta lítið yfir sér. Það er alls ekki svo. Stór hluti landsmanna er með íbúðarlán á óverðtryggðum kjörum. Hækkun vaxtanna mun strax hafa mikil áhrif á útgjöld heimilanna. Vaxtakostnaður af þrjátíu milljóna króna húsnæðisláni með breytilegum vöxtum hækkar um allt að 75 þúsund krónur á ári eða um 6.250 krónur í hverjum einasta mánuði. Þeir sem skulda meira þurfa að greiða enn meira. Frekari vaxtahækkunum er spáð og því mun greiðslubyrðin hækka enn. Þessu til viðbótar er verðbólga mikil, liðlega 4% og ekki útlit fyrir að hún lækki á næstunni.
Ávísun á vandræði
Það er full ástæða til þess að óttast að þessi þróun leiði til þess að margar fjölskyldur lendi í erfiðleikum, ekki síst ungt fólk, sem hefur spennt bogann til hins ýtrasta á fasteignamarkaði þar sem verð hefur hækkað hratt. Staða þessara lántaka verður erfið, jafnvel óbærileg. Fæstir sem skulda há fasteignalán held ég að taki undir fögnuð seðlabankastjóra yfir því að vextir séu að hækka. Það eru þá aðrir en skuldarar sem fagna með seðlabankastjóranum.
Hvað er til ráða – hver eru tækifærin?
Aldrei verður hægt að eyða allri óvissu eða áhættu. Það er hins vegar hægt að draga verulega úr henni. Það verður helst gert með því að auka stöðugleika, draga úr gengissveiflum, minnka verðbólgu og halda vaxtastigi lágu. Leiðin til þess er sú að gjaldmiðillinn okkar verði stöðugur. Það verður best gert með því að tengja krónuna við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu, en til langs tíma með upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu. Það mun skapa nýjar forsendur í fjármálum heimilanna, fyrirtækjanna og þjóðfélagsins í heild. Þess vegna er það stefna Viðreisnar.
Gefðu framtíðinni tækifæri – kjóstu Viðreisn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021