Komum á skilvirku og sjálfbæru hringrásarhagkerfi

Auðlindir eru takmarkaðar og Viðreisn telur það frumskyldu stjórnvalda að tryggja sjálfbærni við nýtingu þeirra. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf markvisst úr myndun úrgangs jafnframt því að líta á hann sem verðmætt hráefni fyrir nýja vöru. Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýsköpunar og grænna starfa þar sem stjórnvöld styðja framleiðsluferla sem halda efni og orku inn í hringrásarhagkerfinu t.a.m. með bættum skilakerfum og úrvinnslugjöldum. Til þess að draga úr úrgangsmyndun verði stefnt að því að draga úr matarsóun um 60% árið 2030 miðað við 2021 með aukinni fræðslu og skilvirkari söfnun úrgangs. Það er hlutverk stjórnvalda að bæta eftirfylgni með endurvinnslu við innleiðingu á árangursríku flokkunarkerfi sem er samræmt yfir allt landið.

 

Leggja þarf áherslu á að flokkaður úrgangur verði að nýjum vörum og styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu. Samhliða því þarf efnahagslega hvata sem styðja við deilihagkerfið. Stefnt verði að því að vinna aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum til þess að tryggja framgang hugmyndafræðinnar. Stefnt verði að því að meta árangurinn og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæa miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum.  Stórefla þarf fræðslu um hugmyndafræði hringrásarsamfélagsins, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika.

 

Með rekjanlegu kolefnisspori vöru geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir um val á vöru m.t.t. loftslagsáhrifa hennar. Þar með verði hægt að draga úr neysludrifinni losun. Mengunarbótareglan er grunnstefið, þ.e. að þeir sem menga axli ábyrgð og greiði gjald í samræmi við umfang og eðli losunar sem þeir valda. Styrkja þarf ábyrgð framleiðenda með því að setja fleiri efnisflokka þar undir, svo að tryggja megi að greitt sé fyrir endanlegan frágang úrgangs og þar sé miðað við hringrásarhugsunina, með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér