16 sep Grípum tækifærin í menntun og nýsköpun
Eftir þungt efnahagslegt högg sem fylgdi heimsfaraldri hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að fjölga stoðum atvinnulífsins og styrkja þannig landshag. Flestir átta sig á því að það felast hættur í því að treysta eingöngu á fáar atvinnugreinar. Það gerir okkur sem þjóð berskjaldaða, því þegar þessar greinar verða fyrir höggi verður höggið svo þungt fyrir samfélagið allt.
Ferðaþjónustan reyndist okkur mikil lyftistöng eftir hrunið. Sú atvinnugrein reyndist landinu öllu og ekki síst byggðunum gríðarlega jákvæð og mikilvæg. Það leynir sér ekki þegar við ferðumst um landið og njótum nýrra veitingastaða og afþreyingar sem orðið hafa til á rúmum áratug. Ferðaþjónustan er og verður okkur áfram mikilvæg stoð. Leiðin til að fjölga stoðunum er ekki sú að tala niður þær greinar sem eru fyrir á fleti. Við eigum að vera stolt af ferðaþjónustunni. En við þurfum hins vegar að sækja markvisst fram á fleiri sviðum.
Fjárfestum í háskólum og rannsóknum
Grundvallarþáttur þess að fjölga stoðum atvinnulífs og veðja á nýsköpun er að fjárfesta markvisst í menntun og menntakerfinu. Menntun og nýsköpun verða nefnilega ekki í sundur slitin. Á þetta hefur Viðreisn lagt mikla áherslu í umræðu um viðbrögð við efnahagslega högginu sem fylgdi heimsfaraldri. Mér hefur hins vegar fundist sem undirtektir hefðu mátt vera sterkari hjá fulltrúum annarra flokka og mér hefur raunar fundist áberandi hversu lítið vægi menntamál fá í þessari kosningabaráttu.
Menntun leiðir til nýsköpunar og almennrar velferðar í samfélaginu. Þetta er einfaldlega staðreynd. Og það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að byggja skapandi atvinnulíf með hugviti og þekkingu. Með því móti sköpum við eftirsóknarverð störf, aukum framleiðni og mótum samfélag sem laðar að sér hæfileikaríka einstaklinga. Með þessu tryggjum við að ungt fólk sem sækir sér framhaldsmenntun erlendis velji að snúa aftur heim.
Liður í því að tryggja næstu kynslóð samkeppnishæf lífskjör er að störf á Íslandi standist samkeppni að utan. Sú samkeppni snýst vissulega um kjör en ekki síður um hvernig störf við bjóðum, hvernig starfsumhverfi við bjóðum, hversu auðvelt er að eignast heimili á Íslandi og hver daglegur kostnaður fjölskyldna er. Menntakerfið geymir lausnina við þeirri áskorun sem lýtur að því að hér verði til fjölbreytt og spennandi störf. Þess vegna er óviðunandi að Ísland skuli standa hinum Norðurlandaþjóðunum að baki þegar litið er til fjármögnunar háskóla, til rannsókna og þróunar. Ísland er eftirbátur Norðurlandaþjóðanna. Það er spegill á skammsýni stjórnvalda.
Viðreisn menntunar
Viðreisn hefur á fimm ára sögu sinni talað fyrir þeirri hugmyndafræði að nálgast beri útgjöld til háskólanna sem langtímafjárfestingu. Viðreisn hefur frá upphafi lagt áherslu á að stjórnvöld eigi að standa með og standa vörð um háskólamenntun með því að gera háskólum kleift að sækja fram á sviði rannsókna. Vilji okkar stendur til þess að Íslendingar standi jafnfætis frændum sínum annars staðar á Norðurlöndunum hvað varðar framlög til háskólamenntunar. Þegar Viðreisn var stofnuð árið 2016 settum við okkur þetta markmið fyrir árið 2022. Núverandi ríkisstjórn hefur þó fengið því áorkað að Ísland hefur nú náð OECD-meðaltalinu en töluvert er hins vegar í land til að komast í flokk með nágrannaþjóðunum.
Liður í því að sækja fram í menntamálum er að stjórnvöld setji sér metnaðarfull markmið og sjái tækifærin sem felast í menntakerfinu. Þau blasa við okkur. Liður í því að sækja fram sem samfélag er jafnframt að stjórnvöld séu meðvituð um og markviss í því að sjá og styrkja tengslin milli menntunar og nýsköpunar. Þá sýn hefur vantað hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr.
Tækifærin í menntakerfinu
Háskólar verða að vera framsýnir og það eru þeir. En það verða stjórnvöld líka að vera, því stjórnvöld eru bakhjarl skólanna. Það er þörf á stjórnmálaafli sem vill efla háskólana. Það er þörf á viðreisn háskólanna. Menntun og nýsköpun eru systur sem eiga að fá að ganga hönd í hönd. Það er ekki hægt að veðja á nýsköpun ef fókus á menntakerfið fylgir ekki með. Tækifærin í háskólamenntun, rannsóknum og nýsköpun blasa við. Þau þarf að grípa. Það verður best gert með því að veita háskólunum sterkari stuðning. Þannig gefum við framtíðinni tækifæri.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2021