Málamiðlun fyrir stjórnarflokkana

Á út­hallandi vetri árið 1939 þóttu horf­ur í dýrtíðar­mál­um ískyggi­leg­ar og hætta á nýrri styrj­öld blasti við. Þetta varð til þess að þrír stærstu flokk­ar Alþing­is mynduðu svo­kallaða Þjóðstjórn.

Stjórn­in fékk þetta ris­mikla nafn þótt nýj­um sam­einuðum flokki lengst til vinstri á Alþingi væri haldið utan við hana.

Þegar Steinn Stein­arr orti sig frá spá­dóm­um um hrun „vissra þjóða og landa“ í Nýju kvæði um stríðið lét hann þessa at­huga­semd fylgja með í lok­in:

„En samt er ég viss um eitt, það er það,

að Þjóðstjórn­in okk­ar tap­ar sínu stríði.“

Sami grund­völl­ur

Mörg rök mæltu með sam­stöðu þjóðar­inn­ar á hættu­tím­um. Vandi Þjóðstjórn­ar­inn­ar var aft­ur á móti sá að þrír stærstu flokk­ar þings­ins voru of ólík­ir til að koma sér sam­an um stefnu. Í reynd áorkaði Þjóðstjórn­in fáu öðru en því að ýta erfiðum ákvörðunum á und­an sér.

Eft­ir rúm tvö ár sömdu flokk­arn­ir þrír um að end­ur­reisa stjórn­ina. For­sæt­is­ráðherr­ann var fáorður en kjarnyrt­ur þegar hann lýsti nýj­um mál­efna­grund­velli:

„Alþingi ákveði ekki ágrein­ings­mál­in nú… Stjórn­in reyni að ná sam­komu­lagi um ágrein­ings­mál­in fyr­ir næsta þing…“

Þrem­ur mánuðum seinna var nýtt þing komið sam­an og Þjóðstjórn­in heyrði sög­unni til.

Ástæðan fyr­ir því að ég rifja upp sög­una um end­ur­reisn Þjóðstjórn­ar­inn­ar er sú að mál­efna­grund­völl­ur­inn er efn­is­lega sá sami og nú­ver­andi rík­is­stjórn kynnti fyr­ir skömmu.

Þjóðstjórn­in sagði að vísu það sem hún gat sagt í sex máls­grein­um en nú­ver­andi rík­is­stjórn teyg­ir sama lopa yfir á sex­tíu blaðsíður.

Skaðleg­asti mun­ur­inn

Þess­ar tvær stjórn­ir eiga það líka sam­eig­in­legt að hafa náð sam­an um þá einu kerf­is­breyt­ingu að fjölga ráðherr­um og ráðuneyt­um.

Nú­ver­andi rík­is­stjórn þriggja stærstu flokka Alþing­is er hins veg­ar ólík Þjóðstjórn­inni. Hún vann sitt stríð í kosn­ing­um á liðnu hausti.

Hún er líka ólík henni um annað: Þjóðstjórn­ar­flokk­arn­ir slitu sam­starf­inu af því að þeir vildu ekki bera ábyrgð á að ýta mál­um, sem ekki var samstaða um, á und­an sér.

Nú­ver­andi stjórn­ar­flokk­ar hafa hins veg­ar ákveðið að sitja út annað kjör­tíma­bil. Al­veg óháð því hvort þeir ná sam­an um þau ágrein­ings­efni sem þeir sjálf­ir frestuðu á síðasta kjör­tíma­bili. Og náðu held­ur ekki sam­an um þrátt fyr­ir löng sam­töl um nýj­an stjórn­arsátt­mála.

Þessi frest­un­ar­árátta get­ur orðið skaðleg­asti mun­ur­inn á þess­um tveim­ur stjórn­um.

Meiri­hluti á þingi

Þegar far­ald­ur­inn skall á myndaðist raun­veru­legt þjóðstjórn­ar­and­rúms­loft á Alþingi um hvort tveggja; sótt­varn­ir og lán­tök­ur rík­is­sjóðs. All­ir flokk­ar vildu brúa bilið fyr­ir fyr­ir­tæki og heim­ili.

Varðandi önn­ur stærstu mál á síðasta kjör­tíma­bili kom kyrrstaðan ekki svo mikið að sök. Rík­is­sjóður var þá ný­bú­inn að fá nokk­ur hundruð millj­arða króna frá er­lend­um kröfu­höf­um og ferðaþjón­ust­an sá fyr­ir blúss­andi hag­vöxt.

Nú eru aðstæður aðrar. Það er ekki unnt að ýta ákvörðunum um öll stóru mál­in á und­an sér í heilt kjör­tíma­bil til viðbót­ar. Þá rek­ur okk­ur af leið.

Ein­hverj­ir kunna að spyrja: En var það ekki ein­mitt þetta sem þjóðin kaus? Mál­efna­lega er ég því ósam­mála.

Eft­ir síðustu kosn­ing­ar er að minni hyggju meiri­hluti fyr­ir flest­um þeim stóru mál­um sem mik­il­væg­ast er að taka ákv­arðanir um. Vand­inn er að jaðrarn­ir lengst til hægri og vinstri hafa hvor um sig neit­un­ar­vald við rík­is­stjórn­ar­borðið. Á meðan hreyf­ist ekk­ert. Hinn svo­nefndi miðju­flokk­ur beit­ir sér síðan lítið, svo lengi sem hann fær sína ráðherra­stóla.

Raun­veru­leg­ar mála­miðlan­ir

Að ýta öll­um ágrein­ings­mál­um á und­an sér geng­ur ekki upp leng­ur.

Stjórn­ar­flokk­arn­ir verða því að gera raun­veru­leg­ar mála­miðlan­ir sín á milli til þess að Ísland hafi skýra stefnu og viti eft­ir hvaða striki á að sigla. Einn flokk­ur gef­ur þá eft­ir prinsipp­mál á einu sviði gegn því að fá fram­gengt prinsipp­máli á öðru sviði.

Það er í þessu ljósi sem ég set hér fram til­lögu til mála­miðlun­ar fyr­ir rík­is­stjórn­ina á tveim­ur sviðum þar sem jaðarflokk­ar henn­ar hafa ekki komið sér sam­an. En meiri­hluti á Alþingi er ótví­ræður.

Ork­u­nýt­ing

Fyrra málið snýr að aðgerðum í lofts­lags­mál­um. Þau eru stærsta viðfangs­efni næstu ára. Lít­ill ágrein­ing­ur er um þau mark­mið sem fram koma í stjórn­arsátt­mál­an­um þótt metnaður mætti vera meiri. En það er ef­ast um ár­ang­ur­inn því ekk­ert sam­komu­lag er á milli stjórn­ar­flokk­anna um leiðir. Þar er eng­in sann­fær­andi aðgerðaáætl­un.

Um­hverf­is-, lofts­lags- og orkuráðherra sagði í frétt­um Rík­is­út­varps­ins fyr­ir hátíðar að lausn­in byggðist á sam­tali okk­ar allra. Kosn­ing­arn­ar á liðnu hausti voru ein­mitt lýðræðis­leg­ur vett­vang­ur fyr­ir það sam­tal. Sum­ir gleymdu því. En mitt fram­lag í það sam­tal er áfram þetta:

Til þess að vera for­ystu­ríki í orku­skipt­um þurf­um við að flytja og fram­leiða meira raf­magn. Tryggja innviðina. Það þurf­um við líka að gera til þess að auka verðmæta­sköp­un í marg­vís­leg­um hug­verkaiðnaði sem bygg­ist á orku­notk­un.

Þetta vilja all­ir. En það er ágrein­ing­ur um leiðir. Það er meiri­hluti á Alþingi fyr­ir nauðsyn­leg­um virkj­un­um til þess að ná þessu tvíþætta mark­miði. Í sam­ræmi við ramm­a­áætl­un. En til þess að hann geti orðið virk­ur þarf VG að falla frá stífri and­stöðu við öll ný skref.

Ákvarðanir um þetta þarf að taka á fyrri hluta næsta árs þannig að unnt verði að áfanga­skipta fram­kvæmd­um til árs­ins 2030. Málþóf milli stjórn­ar­flokk­anna fram yfir mitt kjör­tíma­bil er of dýru verði keypt.

Nýt­ing fiski­stofna

Síðara málið lýt­ur að breyt­ing­um til að ná friði um stjórn­kerfi fisk­veiða. Þar er komið að Sjálf­stæðis­flokkn­um að láta af and­stöðu við all­ar breyt­ing­ar í staðinn fyr­ir fram­gang í orku­mál­um.

Það er ríf­leg­ur þing­meiri­hluti fyr­ir tíma­bind­ingu veiðirétt­ar­ins, eðli­legu gjaldi fyr­ir einka­rétt og nýj­um regl­um til þess að auka gegn­sæi, hindra of mikla samþjöpp­un og tryggja dreifðari eign­araðild. Það má líka ætla drjúg­an stuðning á þingi við markaðsgjald fyr­ir veiðiheim­ild­ir en hátt í 90 pró­sent þjóðar­inn­ar styðja þá leið.

Ákvarðanir um þess­ar mik­il­vægu breyt­ing­ar er unnt að taka á vorþing­inu sam­hliða ákvörðunum um nauðsyn­lega orku­öfl­un. Frum­vörp­in eru til.

Viðreisn hef­ur flutt frum­vörp um öll þessi efni. Svipað má segja um Sam­fylk­ingu. Fram­sókn hef­ur kynnt frum­varp um tíma­bind­ingu veiðiheim­ilda. Og Jón Gunn­ars­son inn­an­rík­is­ráðherra hef­ur talað fyr­ir út­færðum til­lög­um um að setja ákveðinn hluta veiðiheim­ilda á markað. Þorgils Óttar Mat­hiesen, fyrr­ver­andi bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í Hafnar­f­irði, mælti svo á dög­un­um fyr­ir svipaðri lausn og Viðreisn hef­ur kynnt.

Mála­miðlun af þessu tagi er eina leiðin fyr­ir nýj­an sjáv­ar­út­vegs­ráðherra til að kom­ast hjá því að skila sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­inu í sömu spor­um og hún tók við því.

Málþóf

Við verðum að hafa hug­fast að við stönd­um ekki á byrj­un­ar­reit. Allt síðasta kjör­tíma­bil var einn lang­ur biðleik­ur á báðum þess­um sviðum.

Vita­skuld þarf að taka með sams kon­ar hætti á miklu fleiri mál­um. Ég nefni þessi tvö viðfangs­efni vegna þess að mik­il­vægi þeirra verður ekki dregið í efa og af­drátt­ar­laus meiri­hluti er fyr­ir lausn­um af þessu tagi. Ef jaðarflokk­arn­ir falla frá neit­un­ar­valdi sínu sem þeir hafa beitt óspart.

Stund­um fer stjórn­ar­andstaða í málþóf þegar rík­is­stjórn býr sjálfri sér tímaþröng með því að stefna öll­um mál­um til af­greiðslu á sama tíma. Það er ekki gott verklag. Hitt er þó enn verra þegar rík­is­stjórn­ar­flokk­ar eru í málþófi við rík­is­stjórn­ar­borðið kjör­tíma­bil eft­ir kjör­tíma­bil. Það reyn­ist þjóðinni dýr­keypt.

Ára­móta­heit

Á síðasta kjör­tíma­bili losnaði ekki um and­stöðu við þriðja orkupakk­ann í þing­flokki sjálf­stæðismanna fyrr en for­menn Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar skrifuðu for­sæt­is­ráðherra bréf og buðust til að tryggja fram­gang máls­ins. Það dæmi sýn­ir að óvenju­leg­ar en mál­efna­leg­ar leiðir stjórn­ar­and­stöðu geta virkað vel.

Til­laga mín um mála­miðlun fyr­ir rík­is­stjórn­ar­flokk­ana miðar að því að leysa tvo mik­il­væga hnúta á vorþing­inu. Það yrði al­vöru­skref fram á við. Sam­mæli um það væri gott ára­móta­heit.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2021