19 apr Alvöru leikskóli fyrir Landspítala
Hugmynd okkar í Viðreisn um að stofna leikskóla fyrir Landspítala hefur fangað athygli margra og sitt sýnist hverjum. Það er eðlilegt þegar talað er fyrir nýjungum og kerfisbreytingum sem þessum. Í því samhengi er mikilvægt að árétta að við erum að tala um alvöru leikskóla en ekki bara gæslu. Leikskóla þar sem börn munu fá gæðamenntun og dvelja í klukkustundum jafnlengi og á öðrum leikskólum, hvort sem litið er til innan dags eða viku.
Foreldrar myndu aldrei sætta sig við annað og pólitísk forysta á að halda uppi merkjum gæðaleikskóla, með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Kennaraforystan virðist hafa túlkað hugmyndina á þann hátt að um útvatnaðan leikskóla væri að ræða, þar sem fram færi fyrst og fremst gæsla fyrir börn. Við í Viðreisn myndum aldrei svíkja börn um þá gæðamenntun sem þau eiga rétt á. Ég veit, eftir að hafa stýrt leikskólum í gegnum miklar breytingar, þar sem við til að mynda styttum vinnuvikuna verulega í góðu samráði við starfsfólk, að það er mikill kraftur í leikskólakennurum og öðrum starfsmönnum leikskóla.
Þarna fann ég skapandi afl sem getur byggt upp sveigjanlegra leikskólakerfi sem hentar fleirum, án þess að gefa eftir í kröfum, ef þau fá til þess tækifæri.
Sveigjanlegur leikskóli
Leikskóli Landspítalans yrði frábrugðinn öðrum leikskólum að því leyti að sveigjanleiki hans yrði meiri. Þarna væri skóli sem opnar um 7.00 á morgnana og er opinn til 19.00, alla daga. Það að leikskóli opni aðeins fyrr og sé opinn fram að kvöldmat kollvarpar ekki hugmyndinni um hvað leikskóli er. Foreldrar barna sem starfa á sjúkrahúsinu munu líkt og allir foreldrar gera miklar kröfur um gæði leikskólans.
Þeim kröfum verður mætt. Mikilvægt er líka að árétta að dvalartími barna verður sá sami og gengur og gerist annars staðar. Eina sem breytist er hvenær, innan dagsins, börnin eru á leikskólanum.
Hvað er börnum fyrir bestu?
Sveigjanleiki í starfi leikskóla er barni fyrir bestu. Hann er líka fjölskyldum fyrir bestu. Þessi sveigjanleiki hjá leikskólum gefur þessum fjölskyldum festu og stöðugleika. Þessi börn þurfa vistun á þessum tíma, hvort sem leikskólinn bregst við því eða ekki. Með því að fella alla leikskóla í sama formið, án þess að huga að þörfum fjölskyldna og barna, er því í raun verið að lengja vistunartíma barna. Á sama tíma er verið að bjóða þeim upp á dagvist, sem flokkast myndi sem gæsla, í stað þess að leyfa þeim að njóta gæðamenntunar.
Það er ekki börnunum fyrir bestu.
Það kemur því á óvart að kennaraforystan setji sig upp á móti þessari hugmynd sem felur í sér gríðarlega aukin lífsgæði fyrir börn og barnafjölskyldur. Það eru líka hagsmunir kennarastéttarinnar að það sé aukinn fjölbreytileiki þegar kemur að starfsumhverfi kennara. Með auknum fjölbreytileika hafa kennarar meira val og það er gott.
Landspítalaleikskóli er góð hugmynd
Það að opna sérstakan leikskóla fyrir Landspítalann er góð hugmynd. Hún er góð því fólkið sem vinnur á spítalanum segir að hún sé góð. Hún er góð því þannig er hægt að koma betur til móts við börn og fjölskyldur þeirra sem vinna vaktavinnu.
Þetta er góð hugmynd því það eru að langstærstum hluta konur sem vinna þessa vaktavinnu. Þetta er góð hugmynd því fólk sem vinnur vaktavinnu á Landspítala fórnar miklu fyrir okkur hin og við verðum að koma betur til móts við þau. Við viljum að heilbrigðiskerfið sé til staðar hvort sem við veikjumst eða verðum fyrir slysi um helgar, á nóttinni eða á virkum degi.
Það hræðir okkur öll ef ekki er hægt að tryggja öryggi okkar. Á Landspítalanum blasir við mikil mannekla, þar sem fólk gefst upp, hættir og færir sig í önnur störf. Það er fátt eða ekkert sem styður fjölskyldur sem vinna vaktavinnu á Landspítalanum. Því þarf að breyta.
Hugmyndin er góð því slíkur leikskóli styður við stöðugleika í lífi barna. Hún er góð því svona skóli dregur úr álagi fjölskyldna sem er mikið fyrir. Líf fólks sem færir fórnir vegna vaktavinnu þarf að verða einfaldara og betra. Þannig tryggjum við gæði þjónustu á sjúkrahúsinu og drögum úr líkum á manneklu.
Við í Viðreisn viljum að kerfið lagi sig að börnum og fólki en ekki öfugt. Með auknum sveigjanleika kerfisins er hægt að byggja betri borg fyrir börn.