10 maí Skýr sýn fyrir Reykjavík
Viðreisn hefur frá stofnun flokksins talað fyrir því að almannahagsmunir séu leiðarstef í allri hugmyndafræði og vinnubrögðum. Við nálgumst málin frá miðjunni og erum rödd frjálslyndis, jafnréttis og ábyrgðar í fjármálum. Það þarf fólk í borgarstjórn Reykjavíkur sem setur almannahagsmuni í fyrsta sæti.
Skýr sýn um þjónustu borgarbúa
Það er ábyrgð okkar sem kjörinna fulltrúa að fara vel með almannafé og sýna ábyrgð í rekstri. Þannig höfum við nálgast fjármál Reykjavíkurborgar. Árangurinn er sá að skuldahlutfall borgarsjóðs er það lægsta af öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að geta boðið borgarbúum góða þjónustu þarf að sýna ábyrgð í fjármálum. Aðeins þannig getum við byggt upp og veitt fyrirtaks velferðarþjónustu til borgarbúa og styrkt innviði í þágu borgarbúa.
Það er okkar trú að borgin eigi að hvetja til heilbrigðrar samkeppni þar sem hún getur en halda að sér höndum varðandi verkefni sem einkaframtakið getur sinnt. Við viljum ekki fjölga starfsfólki borgarinnar nema í grunnþjónustu í þágu borgarbúa. Til dæmis til að fjölga leikskólum, auka við heimaþjónustu eldra fólks og til að styðja fatlað fólk við athafnir daglegs lífs. Við viljum hallalausan rekstur borgarsjóðs og við höfum sett okkur skýr og raunhæf markmið þar um. Borgin bæði getur og þarf að vera góður kaupandi til að ná þessu markmiði. Borgin þarf þess vegna að gera kröfur sem kaupandi, bæði um gæði og um verð. Það getur Reykjavík í krafti stærðar sinnar. Liður í því er að beita samræmdum innkaupum borgarinnar til að tryggja hagstæðasta verð.
Skýr sýn um rekstur borgar
Við viljum sérstaklega styðja við nýsköpun og þróun með því að Reykjavík kaupi þjónustu af fyrirtækjum sem sérhæfa sig í stafrænum lausnum. Við erum á því að það eigi að grípa þau tækifæri sem felast í auknu samstarfi við sjálfstætt starfandi aðila sem starfa að velferðarmálum, t.d. nýsköpunarfyrirtæki í velferðartækni, hjúkrunarheimili og vinnustaði fatlaðs fólks. Og við ætlum að halda áfram að einfalda kerfið með því að taka stór skref í stafrænni þjónustu.
Við lofuðum því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og stóðum við það á því kjörtímabili sem er að líða. Á því næsta ætlum við að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði enn meira. Við viljum halda áfram að styðja við fyrirtækin í borginni og viljum ekki að Reykjavíkurborg sé í samkeppnisrekstri og keppi þannig við fyrirtækin í borginni.
Skýr sýn um hagsmuni barna
Foreldrar eiga að hafa raunverulegt valfrelsi um skóla barna þeirra. Þess vegna teljum við að það eigi að vera frítt í alla grunnskóla óháð því hvort þeir eru reknir á vegum borgarinnar eða eru sjálfstætt starfandi. Við viljum auka faglegt frelsi kennara og skóla. Þannig getum við bæði stuðlað að einstaklingsbundnu námi og fært þjónustu við börn nær þeim. Við viljum að fimm ára börn fái frítt í leikskóla vegna þess að við vitum að hluti þeirra er ekki á leikskóla, að stærstum hluta frá tekjulægri heimilum. Börn koma betur undirbúin í skóla, þegar þau koma úr leikskóla og það er því jafnréttismál fyrir börnin að fá þetta ár í leikskóla. Við teljum að sjálfstætt starfandi leikskólar séu lykillinn að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu.
Reykjavík sem dafnar
Undanfarin þrjú ár hefur átt sér stað metuppbygging íbúða í Reykjavík. Tölurnar tala þar sínu máli. Við vitum hins vegar að það þarf að gera meira og halda áfram. Við viljum skipuleggja lóðir fyrir 2.000 íbúðir á ári. Við viljum jafnframt að Reykjavík stuðli að því að það verði bæði fljótlegra og ódýrara að byggja í Reykjavík. Þess vegna viljum við að farið sé að ráðleggingum OECD til að einfalda umgjörð byggingamála. Við viljum halda áfram að þétta byggð. Við viljum líka reisa ný hverfi í Skerjafirði, Ártúnshöfða, á Keldum. Síðast en ekki síst: Við viljum að í Vatnsmýri komi blönduð byggð í stað flugvallar.
Þess vegna á að kjósa Viðreisn
Í kosningum er ekki síst kosið um traust. Traust og ábyrgð helst í hendur þegar kjörnir fulltrúar fara með sameiginlega hagsmuni borgarbúa og fjármuni þeirra. Fólk sem vinnur í þágu allra borgarbúa á að bera virðingu fyrir því að það er að vinna í umboði fólks og bera virðingu fyrir fjármunum sem þeim er treyst fyrir. Í Reykjavík skiptir þess vegna máli að kjósa fólk sem stendur fyrir skýra hugmyndafræði og ákveðin vinnubrögð. Fólk sem getur sagt skýrum orðum fyrir hvað það stendur. Undanfarið kjörtímabil höfum við starfað í meirihluta nokkurra flokka. Þar höfum við talað fyrir okkar stefnumálum og náð mörgum þeirra fram en vitaskuld ekki öllum. Ég er stolt af því að borgarfulltrúar Viðreisnar hafa verið rödd skynsamrar meðferðar á fjármunum borgarbúa, skýrrar hugmyndafræði í skipulagsmálum í þágu borgarbúa, verið rödd nýsköpunar, fyrirtækja og atvinnulífsins. Talað fyrir jafnrétti og frjálslyndi. Það skiptir máli að kjósa fólk sem hefur skýra sýn fyrir Reykjavík. Það er af þessari ástæðu sem kjósa á Viðreisn í Reykjavík.