12 maí Viðreisn vill auka framboð af húsnæði í mörgum skrefum
Húsnæðismál eru eitt af stærstu málum samtímans. Sífellt fleira ungt fólk sér ekki fram á að komast í eigið húsnæði í náinni framtíð. Þetta vandamál á sér fleiri hliðar. Fleira og fleira fólk býr eitt í íbúð. Þetta er andstæða þéttingar byggðar þar sem það búa þá færri íbúar í hverfinu sem minnkar líkurnar á því að hægt sé að starfrækja þjónustu sérstaklega fyrir það hverfi.
Í byrjun árs 2016 gaf sérfræðistarfshópur Hafnarfjarðarbæjar út frábæra skýrslu um tækifæri til þéttingar byggðar innan bæjarins og kosti þess að leggja áherslu á frekari þéttingu á kostnað dreifðari byggðar. Þar eru tilgreindir margir stórir þróunarreitir innan bæjarins.
Þétting þarf samt ekki alltaf að vera á stórum skala. Það eru ótalmörg tækifæri til þess að fjölga íbúum í einbýlis- og raðhúsahverfum út um allan bæ. Mjög spennandi fyrirmynd er frá Norður-Ameríku þar sem svokallaðar „viðbótardvalareiningar“ eða „accessory dwelling units“ hafa verið að ná stöðugt meiri vinsældum.
Árið 2010 ákváðu borgaryfirvöld í Vancouver-borg að heimila íbúum að byggja auka íbúðareiningu á lóðum sínum. Aðgerðin var bæði almenn og átti við um alla borg. Niðurstaða þessa verkefnis er að í dag eru hundruð byggingarleyfa veitt til byggingar á smáhýsum og viðbyggingum með litlum íbúðum (50-100 fermetrar).
Þetta þurfa þó ekki að vera stakstæð hús. Á mörgum lóðum í bænum eru stór einbýlishús sem mætti vel skipta upp í nokkrar smærri einingar. Nýverið voru lögð fram í Reykjavíkurborg drög að nýju hverfisskipulagi í Árbæjarhverfi þar sem gert er ráð fyrir heimild til þess að skipta upp stærri einbýlishúsum í fleiri íbúðir með einföldum hætti.
Þessi hugmynd opnar fjölda tækifæra. Hún skapar möguleika á þéttari byggð og skapar fleiri viðskiptavini fyrir fyrirtæki í nærumhverfinu. Þau bjóða fleira fólki en áður að búa í þéttustu, gangbærustu hlutum bæjarins og þau skapa tækifæri til þess að auka húsnæðisframboð með góðri áhættudreifingu þar sem hér er um að ræða hundruð lítilla verkefna frekar en nokkur risaverkefni.
Með því að opna á byggingu viðbótardvalareininga innan lóðamarka gæti Hafnarfjarðarbær tekið forystuna í skapandi lausnum á húsnæðismarkaði á Íslandi. Þetta væri frábært tæki fyrir ungt fólk að taka fyrsta skrefið út á húsnæðismarkað og jafnvel síðar meir gætu foreldrar fært sig í viðbótareininguna til þess að rýma fyrir börnin og barnabörnin.
Þessi einfalda aðgerð mun ein og sér skapa frábær tækifæri um allan bæ til þess að auka framboð húsnæðis í okkar góða bæ.