01 sep Pólitísk straumhvörf
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður forystuflokks ríkisstjórnarinnar, sendi kjósendum þau skýru skilaboð frá fundi VG á Ísafirði um síðustu helgi að flokkurinn vildi annars konar ríkisstjórn eftir kosningar.
Erfitt er að draga aðra ályktun af þessum skilaboðum en þá að ríkisstjórnarsamstarfið þjóni hvorki málstað kjósenda flokksins né hagsmunum þjóðarinnar.
Eplið er að hans mati orðið súrt. En samt telur hann rétt að það standi í þjóðinni þrjú ár til viðbótar.
Stjórninni slitið með þriggja ára fyrirvara
Með öðrum orðum: Valdahagsmunir víkja hugsjónum og þjóðarhagsmunum til hliðar næstu þrjú ár. En stjórnarsamstarfinu er slitið með þriggja ára fyrirvara.
Þessi yfirlýsing markar óneitanlega pólitísk straumhvörf.
Þegar VG gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn fyrir fimm árum fólst í því skrefi það mat að Samfylkingin væri óþörf í samstarfi til að ná fram hugsjónum félagshyggju. Fyrir ári voru þau skilaboð endurtekin.
Nú er þetta mat gjörbreytt. Næst ætlar VG ekki í ríkisstjórn nema Samfylkingin verði þar.
Þetta gerist í beinu framhaldi af því að breið samstaða myndaðist í Samfylkingunni um að velja Kristrúnu Frostadóttur sem leiðtoga á landsfundi í næsta mánuði. Hún ætlar að sigla Samfylkingunni eftir nýju striki.
Sama uppskrift og VG notaði
Samkvæmt þessari nýju línu ætlar Samfylkingin að tala um færri mál en áður. Fyrst og fremst stóraukin útgjöld til heilbrigðismála og svo víðtækari og hærri vaxtabætur og barnabætur. Um leið á að hvíla mál eins og réttlæti í sjávarútvegi, Evrópusamstarf og nýja stjórnarskrá.
Í viðtali í Dagmálum sagði nýi formaðurinn að tekna ætti að afla með samtali um jafnaðarstefnuna þannig að hátekjufólk og eignafólk öðlaðist skilning á gildi þess að leggja meira til samfélagsins. Ef rétt er skilið koma hærri eignaskattar og tekjuskattar til framkvæmda þegar þeir sem borga eiga brúsann hafa náð þeim skilningi.
Athyglisvert er að þetta er nánast sama málefnalega uppskriftin og VG notaði þegar stofnað var til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs. Helsti munurinn er sá að Samfylkingin virðist ekki ætla að hafa loftslagsmál á lista yfir forgangsverkefni.
Hún breytir ekki um stefnu í loftslagsmálum, en öðrum verður látið eftir að tala fyrir þeim eins og Evrópumálum og réttlæti í sjávarútvegi.
Opnar læst hlið
Þetta þýðir að málefnalegt samstarf VG og Samfylkingar verður nánast vandamálalaust. Þó að Sósíalistaflokkurinn nái inn á þing þurfa þessir flokkar að stækka verulega til að geta myndað vinstri stjórn.
Fækkun stórra kjarnamála á forgangslista Samfylkingar opnar líka annað hlið, sem nú er læst: Þegar VG fer út úr núverandi samstarfi eftir þrjú ár getur Samfylkingin nánast gengið inn í það óbreytt.
Sjálfstæðisflokkurinn yrði þó væntanlega að gefa meira eftir í útgjöldum til heilbrigðismála. Á móti þyrfti hann ekki að hafa áhyggjur af sjávarútvegsmálum, Evrópumálum og stjórnarskrá.
Krefjist Samfylkingin ekki skattahækkana fyrr en síðar ætti þetta að ganga upp pólitískt þó að það standist ekki efnahagslega.
Miðjustjórn sýnist vera fjarlægari en áður, en kannski ekki útilokuð. Þó að slík stjórn tæki velferðarmálin föstum tökum er ólíklegt að í því pólitíska mengi yrði samstaða um að skjóta öðrum kjarnamálum samfélagsins á frest.
Kyndugt stöðumat
Það er hyggilegt hjá Samfylkingunni að setja „nýju stjórnarskrána“ upp á hillu.
Hitt eru mikil tíðindi þegar jafnaðarmannaflokkur endurskilgreinir sig með því að setja Evrópumálin á hilluna einmitt þegar skoðanakannanir sýna á ný að meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðild.
Evrópusamstarfið hefur fært aðildarþjóðunum aukinn jöfnuð um leið og það hefur styrkt samkeppnishæfni og frjáls viðskipti. Ísland þarf nú á hvoru tveggja að halda.
Á sama hátt er athyglisvert að aukin áhersla á jöfnuð kalli á að krafan um réttlæti í sjávarútvegi verði lögð til hliðar einmitt þegar VG og Framsókn eru að reyna að brjóta rammann, sem stjórnarsamstarfið hefur sett þeim á því sviði.
Málefnalega er þetta kyndugt stöðumat. En það er klókt að því leyti að Samfylkingin opnar með þessu hliðið í hina áttina að staðgengilshlutverkinu þegar VG yfirgefur stjórnarsamstarfið.