29 nóv Þetta þarf ekki að vera svona
Umræðan við eldhúsborðið á flestum heimilum þessa daga snýst um hækkandi verðlag og vexti. Það er gömul saga og ný.
Við borðið hjá sáttasemjara sitja svo fulltrúar launafólks og fyrirtækja og reyna að finna lausn á kjarasamningum við afar snúnar aðstæður. Skammtímasamningar er lausnarorðið.
Eins og svo oft áður verður ekki hjá því komist að leysa mál til bráðabirgða. Þó að við viðurkennum nauðsyn slíkra aðgerða megum við samt ekki gleyma þeim grundvallarviðfangsefnum, sem við blasa. Þótt lausn þeirra taki lengri tíma og kalli á framtíðarsýn.
Ég heyri til að mynda æ fleira forystufólk innan launþegahreyfingarinnar spyrja hvers vegna vaxtahækkanir þurfi að vera miklu meiri hér en erlendis til þess að hemja sama verðbólgustig.
Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði síðastliðinn laugardag athyglisverða grein í Kjarnann með þungum rökum fyrir kerfisbreytingu til að treysta félagslega og efnahagslega velgengni. Þar segir hann:
„Nú stendur þjóðin frammi fyrir miklum kerfisvanda. Við erum orðin samofin hagkerfum landa Evrópusambandsins eftir þrjátíu ára þátttöku og aðlögun að innri markaði þess. Við höfum yfirtekið einstakar tilskipanir, jafnvel heilu lagabálkana og gert að íslenskum lögum. Íslensku atvinnulífi er því lífsnauðsynlegt að vera samkeppnishæft við erlenda keppinauta á þessum stóra markaði.“
Síðan segir hann: „Við verðum að lækka framfærslukostnað heimila. Þar er gjaldmiðillinn orðinn miðlægur. Hann skiptir orðið höfuðmáli sem sterkur rammi utan um efnahagsstarfsemina. Meðan gjaldmiðillinn leikur á reiðiskjálfi mun kaupmáttur kjarasamninga verða tilgátan ein.“ Niðurstaða Þrastar er þessi: „Aðild að ESB og þátttaka í sameiginlegum gjaldmiðli er því forsenda vaxandi velmegunar og félagslegrar velgengni. Þetta er ekki lengur einskær pólitískur ásetningur.“
Sagan kennir okkur að mikilvægar kerfisbreytingar í þágu launafólks og atvinnulífs hafa aldrei náð fram að ganga nema þegar fólk úr ólíkum flokkum hefur tekið höndum saman. Einmitt þess vegna finnst mér þessi vel rökstuddu skilaboð Þrastar Ólafssonar eigi erindi inn í umræðu dagsins við eldhúsborðin.
Við þurfum samstöðu um framtíðarsýn. Og kjark til þess að tala fyrir henni. Því þetta þarf ekki að vera svona.