Útgjaldablætið

Ríkis­stjórnin hefur misst tökin á verð­bólgunni sem er komin yfir 10%. Matar­inn­kaup eru dýrari, af­borganir á hús­næðis­lánunum rjúka upp og það þrengir að heimilum. Greiðslu­geta heimilanna er á­hyggju­efni og það á auð­vitað ekki síst við um barna­fjöl­skyldur og þau sem festu kaup á fyrstu íbúð á lág­vaxta­skeiðinu svo­kallaða – sem stóð síðan ekki yfir nema í fimm mánuði.

Tæki­færið var ekki nýtt

Fjár­mála­ráð­herra talar núna um nauð­syn þess að fara í hag­ræðingar­að­gerðir til að draga úr þenslu. Hag­ræðingar­að­gerðirnar munu að sögn birtast í næstu fjár­mála­á­ætlun. Fjár­mála­ráð­herra bendir líka á opin­berar stofnanir sem fara fram úr fjár­heimildum. Það er í sjálfu sér eðli­leg gagn­rýni – en fjár­mála­ráð­herra hefði auð­vitað vel getað nýtt það verk­færi sem hann var með í höndunum síðast­liðið haust þegar hann lagði fram fjár­laga­frum­varp fyrir árið 2023. Þetta frum­varp hafði meiri þýðingu en oft áður ein­mitt í ljósi verð­bólgunnar, hárra vaxta og kjara­samninga. Á þetta var marg­sinnis bent. Við flögguðum strax þegar fjár­mála­ráð­herra lagði upp með 90 milljarða halla. Niður­staðan varð svo reyndar 120 milljarða halli. Þegar ríkis­stjórnin talar nú um að allur þessi mikli halla­rekstur stafi ein­göngu af út­gjöldum til heil­brigðis­mála þá er það auð­vitað rangt. Þær full­yrðingar standast enga skoðun.

Stað­reyndin er að fjár­lögin gerðu allt­of lítið til að draga úr þenslu. Seðla­banka­stjóri gengur raunar svo langt að segja ríkis­stjórnina gera viður­eign Seðla­bankans við verð­bólguna bein­línis erfiðari. Þegar Seðla­bankinn er skilinn einn eftir í glímunni við verð­bólgu getur niður­staðan aldrei verið önnur en vaxta­hækkanir. Fjöl­margir hags­muna­aðilar vöruðu sömu­leiðis við; BHM, Sam­tök at­vinnu­lífsins og ASÍ. En á þessi varnaðar­orð var ein­fald­lega ekki hlustað.

Við­reisn lagði til hag­ræðingar­­að­gerðir til að greiða niður skuldir á þessu ári. Stefnt yrði að því hag­ræða í ríkis­rekstri m.a. með því að draga til baka fjölgun ráðu­neyta og ráð­herra­stóla frá upp­hafi kjör­tíma­bils. Sú á­kvörðun að fjölga ráðu­neytum var maka­laus, á sama tíma og biðlað var til al­mennings um að sýna á­byrgð í fjár­málum. Það felast tæki­færi í hag­ræðingu í ríkis­rekstri og fjár­mála­ráð­herra hefur talað um þessi tæki­færi. Hann hefur hins vegar ekki nýtt þau. Við­reisn lagði sömu­leiðis til að á árinu væru skuldir ríkisins lækkaðar um 20 milljarða. Þessar til­lögur voru felldar við af­greiðslu fjár­laga.

Út­gjalda­hlið síðustu fjár­laga var á­byrgðar­laus en það var tekju­hliðin líka. Við­reisn lagði fram til­lögur um tekju­öflun, t.d. um að hækkun veiði­gjalda um sex milljarða. Flokkurinn hefur í­trekað lagt fram til­lögur um að veiði­gjöld endur­spegli markaðs­virði veiði­réttinda. Met­hagnaður hefur verið í sjávar­út­vegi og 2021 var hann um 65 milljarðar eftir skatta og gjöld. Við höfum jafn­framt lagt á­herslu á mikil­vægi þess að halda á­fram með sölu­ferli Ís­lands­banka í opnu og gagn­sæju ferli. Sölu­and­virðið á að fara í að greiða niður skuldir.

Ríkið er risa­stórt

Núna heyrir fólkið í landinu að eyðsla þess hafi á­hrif á verð­bólgu. Það er í sjálfu sér rétt. En ríkið er í því sam­bandi risa­stór aðili í sam­fé­laginu. Ríkið er ekki undan­skilið þeirri kröfu að eyða ekki of miklu eða undan­skilið kröfunni um að eyða ekki um efni fram. Þegar fjár­mála­ráð­herra eyðir peningum er það ekkert öðru­vísi en þegar öðrum peningum er eytt. Og út­gjalda­vandinn blasir við öllum sem vilja sjá.

Halla­rekstur í ára­tug

Engu virðist skipta hvort að­stæður eru góðar eða erfiðar: þessi ríkis­stjórn skilar halla. Halla­rekstur ríkis­stjórnarinnar hófst árið 2019 – áður en heims­far­aldur varð að vanda­máli fyrir ríkis­fjár­málin. Það sýnir að litlu skiptir hverju að­stæður eru, hallinn virðist alltaf niður­staða á vakt þessarar ríkis­stjórnar. Ríkis­stjórnin stefnir raunar að því að ríkis­sjóður verði rekinn með halla alveg út árið 2027. Fjár­mála­ráð­herra skilar fjár­lögum í halla al­gjör­lega óháð því hverjar að­stæðurnar eru. Að reka eigi ríkis­sjóð með halla sam­fleytt í næstum ára­tug er ó­verjandi og speglar ekki þá á­byrgð sem talað er um af hálfu ríkis­stjórnarinnar. Það hefur þvert á móti skilað því að vaxta­kostnaður er nú þriðji stærsti fjár­laga­liður ríkisins.

Sam­setning ríkis­stjórnarinnar kemur í veg fyrir að stjórn ríkis­fjár­mála geti verið á­byrg og sterk. Breiddin vinnur gegn því að sýnin sé skýr og ráð­herrar gangi í takt við þetta stærsta verk­efni stjórn­málanna núna – að vinna bug á verð­bólgunni. Og sem fyrr eru það heimilin og fyrir­tækin í landinu sem taka reikninginn fyrir ríkis­stjórnina, nú í formi verð­bólgu og vaxta­hækkana.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars