02 mar Útgjaldablætið
Ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni sem er komin yfir 10%. Matarinnkaup eru dýrari, afborganir á húsnæðislánunum rjúka upp og það þrengir að heimilum. Greiðslugeta heimilanna er áhyggjuefni og það á auðvitað ekki síst við um barnafjölskyldur og þau sem festu kaup á fyrstu íbúð á lágvaxtaskeiðinu svokallaða – sem stóð síðan ekki yfir nema í fimm mánuði.
Tækifærið var ekki nýtt
Fjármálaráðherra talar núna um nauðsyn þess að fara í hagræðingaraðgerðir til að draga úr þenslu. Hagræðingaraðgerðirnar munu að sögn birtast í næstu fjármálaáætlun. Fjármálaráðherra bendir líka á opinberar stofnanir sem fara fram úr fjárheimildum. Það er í sjálfu sér eðlileg gagnrýni – en fjármálaráðherra hefði auðvitað vel getað nýtt það verkfæri sem hann var með í höndunum síðastliðið haust þegar hann lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Þetta frumvarp hafði meiri þýðingu en oft áður einmitt í ljósi verðbólgunnar, hárra vaxta og kjarasamninga. Á þetta var margsinnis bent. Við flögguðum strax þegar fjármálaráðherra lagði upp með 90 milljarða halla. Niðurstaðan varð svo reyndar 120 milljarða halli. Þegar ríkisstjórnin talar nú um að allur þessi mikli hallarekstur stafi eingöngu af útgjöldum til heilbrigðismála þá er það auðvitað rangt. Þær fullyrðingar standast enga skoðun.
Staðreyndin er að fjárlögin gerðu alltof lítið til að draga úr þenslu. Seðlabankastjóri gengur raunar svo langt að segja ríkisstjórnina gera viðureign Seðlabankans við verðbólguna beinlínis erfiðari. Þegar Seðlabankinn er skilinn einn eftir í glímunni við verðbólgu getur niðurstaðan aldrei verið önnur en vaxtahækkanir. Fjölmargir hagsmunaaðilar vöruðu sömuleiðis við; BHM, Samtök atvinnulífsins og ASÍ. En á þessi varnaðarorð var einfaldlega ekki hlustað.
Viðreisn lagði til hagræðingaraðgerðir til að greiða niður skuldir á þessu ári. Stefnt yrði að því hagræða í ríkisrekstri m.a. með því að draga til baka fjölgun ráðuneyta og ráðherrastóla frá upphafi kjörtímabils. Sú ákvörðun að fjölga ráðuneytum var makalaus, á sama tíma og biðlað var til almennings um að sýna ábyrgð í fjármálum. Það felast tækifæri í hagræðingu í ríkisrekstri og fjármálaráðherra hefur talað um þessi tækifæri. Hann hefur hins vegar ekki nýtt þau. Viðreisn lagði sömuleiðis til að á árinu væru skuldir ríkisins lækkaðar um 20 milljarða. Þessar tillögur voru felldar við afgreiðslu fjárlaga.
Útgjaldahlið síðustu fjárlaga var ábyrgðarlaus en það var tekjuhliðin líka. Viðreisn lagði fram tillögur um tekjuöflun, t.d. um að hækkun veiðigjalda um sex milljarða. Flokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að veiðigjöld endurspegli markaðsvirði veiðiréttinda. Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi og 2021 var hann um 65 milljarðar eftir skatta og gjöld. Við höfum jafnframt lagt áherslu á mikilvægi þess að halda áfram með söluferli Íslandsbanka í opnu og gagnsæju ferli. Söluandvirðið á að fara í að greiða niður skuldir.
Ríkið er risastórt
Núna heyrir fólkið í landinu að eyðsla þess hafi áhrif á verðbólgu. Það er í sjálfu sér rétt. En ríkið er í því sambandi risastór aðili í samfélaginu. Ríkið er ekki undanskilið þeirri kröfu að eyða ekki of miklu eða undanskilið kröfunni um að eyða ekki um efni fram. Þegar fjármálaráðherra eyðir peningum er það ekkert öðruvísi en þegar öðrum peningum er eytt. Og útgjaldavandinn blasir við öllum sem vilja sjá.
Hallarekstur í áratug
Engu virðist skipta hvort aðstæður eru góðar eða erfiðar: þessi ríkisstjórn skilar halla. Hallarekstur ríkisstjórnarinnar hófst árið 2019 – áður en heimsfaraldur varð að vandamáli fyrir ríkisfjármálin. Það sýnir að litlu skiptir hverju aðstæður eru, hallinn virðist alltaf niðurstaða á vakt þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin stefnir raunar að því að ríkissjóður verði rekinn með halla alveg út árið 2027. Fjármálaráðherra skilar fjárlögum í halla algjörlega óháð því hverjar aðstæðurnar eru. Að reka eigi ríkissjóð með halla samfleytt í næstum áratug er óverjandi og speglar ekki þá ábyrgð sem talað er um af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefur þvert á móti skilað því að vaxtakostnaður er nú þriðji stærsti fjárlagaliður ríkisins.
Samsetning ríkisstjórnarinnar kemur í veg fyrir að stjórn ríkisfjármála geti verið ábyrg og sterk. Breiddin vinnur gegn því að sýnin sé skýr og ráðherrar gangi í takt við þetta stærsta verkefni stjórnmálanna núna – að vinna bug á verðbólgunni. Og sem fyrr eru það heimilin og fyrirtækin í landinu sem taka reikninginn fyrir ríkisstjórnina, nú í formi verðbólgu og vaxtahækkana.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars