23 mar Pattstaða
Tíu ár eru frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við orkumálunum.
Sex ár eru frá því núverandi ríkisstjórn setti sér fyrst markmið um orkuskipti.
Eitt ár er frá því að nefnd trúnaðarmanna stjórnarflokkanna sagði í grænni skýrslu að ríkisstjórnin yrði að senda um það skýr skilaboð hversu mikið þyrfti að auka raforkuframleiðslu næstu tvo áratugi til að ná markmiðum um orkuskipti og grænan hagvöxt.
Tvær vikur eru síðan forstjóri Landsvirkjunar brýndi ríkisstjórnina til að senda þau skilaboð, sem nefndin í fyrra kallaði eftir.
Pólitískur ómöguleiki
Ríkisstjórnin er enn á byrjunarreit. Sumir tala reyndar um öfug orkuskipti.
Að réttu lagi hefði orkumálaráðherrann átt að kalla til Landsvirkjunar um að hlaupa hraðar eftir markaðri stjórnarstefnu. Það er eitthvað að í pólitíkinni þegar forstjóri Landsvirkjunar þarf að brýna ríkisstjórnina til að hlaupa hraðar við stefnumörkun eftir sex ára samstarf.
Ísland dregst nú hratt aftur úr öðrum þjóðum varðandi þetta lykilatriði stefnumótunar í loftslagsmálum.
Ráðherrar Framsóknar hafa ítrekað talað um nauðsyn aðgerða án þess að ná eyrum samstarfsráðherra.
Á fundi Landsvirkjunar á dögunum sagði fjármálaráðherra að það yrði að virkja. Hann gat þó ekki svarað grundvallarspurningu forstjórans. Þar skilar ríkisstjórnin auðu. Það er þó ekki vegna dáðleysis orkuráðherrans.
Flestir, sem lesa grænu skýrsluna og hlusta á ræður ráðherranna fá á tilfinninguna að vandinn sé fremur pólitískur ómöguleiki og liggi í eðli stjórnarsamstarfsins.
Afsakanir
Bið eftir stórum ákvörðunum má oft afsaka. Flestar ríkisstjórnir eru á eftir áætlun með orkuskiptin. Ríkisstjórn Íslands er þó sú eina sem er enn á byrjunarreit.
Hitt verður að segja ríkisstjórninni til hróss að enginn hefur talað meir um loftslagsmál á leiðtogafundum NATO en forsætisráðherra Íslands.
Hér þarf vitaskuld einnig að hafa í huga að í samsteypustjórnum tekur jafnan nokkurn tíma að semja um skýra stefnumótun á stórum og flóknum málasviðum.
Þegar á hinn bóginn er á það horft að sami flokkur hefur ráðið orkumálunum í áratug og ríkisstjórnin hefur setið í sex ár án niðurstöðu er lögmálið um pólitískan ómöguleika eina sjáanlega skýringin.
Stækkunargler
Á Alþingi hefur allan tímann verið meirihluti til að taka þær ákvarðanir, sem græna skýrslan og forstjóri Landsvirkjunar kalla eftir.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti metið það svo að réttlætanlegt væri að halda ákvörðunum um orkuöflun fyrir orkuskipti og grænan hagvöxt í biðflokki vegna heildarávinnings af samstarfi við VG.
Gagnrýni atvinnulífsins á eyðslu ríkissjóðs umfram efni bendir hins vegar ekki til þess að umtalsverður ávinningur hafi náðst á því sviði þó að meirihluti hafi verið á Alþingi fyrir aðhaldsríkari ríkisfjármálastefnu.
Gagnrýni helstu sérfræðinga í varnarmálum á að uppfærsla forsætisráðherra á þjóðaröryggisstefnu nái aðeins til almannavarna á stríðstímum en ekki til varnar- og öryggismála, þrátt fyrir meirihluta á Alþingi, er heldur ekki vísbending um mikinn ávinning.
Ekki er heldur að sjá að áhrif VG á heilbrigðismálin hafi skilað Sjálfstæðisflokknum miklu.
Margt frjálslynt og borgaralega þenkjandi fólk þarf örugglega stækkunargler til að sjá heildarávinninginn.
Miðjan
Samfylkingin, sem nú mælist stærsti flokkur landsins, fylgir sömu línu og VG í þessum efnum. Hún hefur að auki fært sig lengra til vinstri á öðrum sviðum og staðsett sig málefnalega þar sem VG var í stjórnarandstöðu fyrir sex árum með rífandi fylgi.
Sumar kannanir benda til þess að Samfylkingin geti myndað hreina vinstri stjórn nái Sósíalistaflokkurinn mönnum á þing eftir næstu kosningar. Fari svo heldur biðflokksstefnan áfram.
Næstu kosningar munu því hafa afgerandi áhrif á framvindu orkumálanna, orkuskipti og grænan hagvöxt. Trúverðugleiki þess flokks, sem í tíu ár hefur haldið stefnumörkun um orkuöflun í biðflokki vegna annarra markmiða, verður augljóslega takmarkaður.
Í þessu ljósi má segja að sú skylda hvíli á flokkum eins og Framsókn og Viðreisn að gera miðjuna það áhrifamikla að loknum næstu kosningum að þessu þjóðhagslega mikilvæga viðfangsefni verði með engu móti haldið lengur í biðflokki pólitísks ómöguleika jaðranna. Eins og sakir standa eru miðjuflokkar líklegastir til að opna pattstöðuna.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2023