21 apr Viltu verðbólgu eða heilbrigðiskerfi – já eða nei!
Höfuðóvinur fólksins í landinu er verðbólgan segir ríkisstjórnin. Matvara hækkar á milli búðaferða, húsnæðislánin bólgna og fólk hefur áhyggjur af heimilisbókhaldinu. Um 4500 heimili munu ekki lengur njóta góðs af föstum vöxtum óverðtryggða lána á þessu ári og verða ekki lengur varin fyrir vaxtasirkusnum lengur. Spár gera ráð fyrir hárri verðbólgu allt þetta ár og lengur raunar. Og þess vegna vill fólk að ríkisstjórnin geri það sem hún getur til að forða okkur frá þessum óvini. Hvernig sem á það er litið er skýrt samhengi milli þess að draga úr hallarekstri ríkisins og að verðbólga og vextir lækki. Og þess vegna er ótrúlegt að fjármálaáætlun sé alveg laus við að birta raunverulegar aðgerðir eða plan um að reka höfuðóvininn burt. Þessi gagnrýni um fullkomið afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar er ekki bara eitthvert raus í mér eða raus í Viðreisn.
Allir benda á Bjarna, Bjarni bendir út í loftið
Umsögn Fjármálaráðs talar um lausung í ríkisfjármálum og að skynsamlegri ráðstöfun hefði verið nýta tekjuauka ríkissjóðs til að bæta afkomu ríkissjóðs í stað þess að auka bara útgjöld. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur segir að það sé einfaldlega ekki verið að bregðast við stöðunni heldur verið að tala um mögulegar breytingar í framtíðinni. Félag atvinnurekenda segir að það hefði átt að ganga lengra í hagræðingarskyni. Samtök atvinnulífsins segja að engar aðgerðir séu í fjármálaáætlun til að draga úr útgjöldum og vinna bug á verðbólgu. ASÍ segir ekki nægilegar aðgerðir til að verja heimilin fyrir verðhækkunum. Og nú í vikunni sagði Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri að of lítið aðhald í ríkisfjármálunum hafi leitt til þess að Seðlabankinn beri þyngri byrði en æskilegt er. Hún sagði jafnframt að ef það væri í forgangi hjá ríkissjóði að auka aðhald væri baráttan við verðbólgu auðveldari.
Allir þessir aðilar og fleiri til lýsa eftir aðgerðum fjármálaráðherra gegn verðbólgu. En í vikunni hlustaði þingheimur aftur á fjármálaráðherra tala eins og allir nema hann misskilji inntak fjármálaáætlunar. Þegar forsætisráðherra er svo spurð hvers vegna ekki á að liðsinna heimilum með því að flæma burt þennan höfuðóvin sem verðbólgan er þá talar hún um að hún vilji sterkt heilbrigðiskerfi. Stillir málinu upp þannig að fólkið í landinu geti bara valið á milli verðbólgu og heilbrigðisþjónustu. Þessir valkostir sýna okkur auðvitað hvers vegna staðan er sú sem hún er, ef þetta er sýn ríkisstjórnarinnar á því hvaða kostir eru í stöðunni. Verðbólga eða heilbrigðisþjónusta? Já eða nei! Hvaða heimili myndi byrja á því að hætta að kaupa lyf fyrir börnin þegar draga þarf úr útgjöldum í heimilisbókhaldinu? Hallarekstur ríkissjóðs verður áfram staðreynd að minnsta kosti út árið 2027 og hefur þá varað í tæp 10 ár. Á vakt fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur orðið ævintýraleg útgjaldaaukning sem skilað hefur mörg hundruð milljarða króna halla. Og sú staða er ekki tilkomin vegna þess að fjármunum hafi verið ausið í heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið í landinu.
Unga fólkið fast og markaður í frosti
Setjum þessa stóru mynd ríkisfjármála og verðbólgu í samhengi við daglegt líf fólks. Það er erfiðara en áður fyrir ungt fólk að kaupa íbúð. Húsnæðislán eru mjög dýr og greiðslumat þyngra. Fólk á leigumarkaði býr við fáránlega erfiðar aðstæður eins og við sjáum birtast í ömurlegum sögum fólks. Á meðan talar ríkisstjórnin um meðaltöl og horfurnar einhvern tímann seinna. Það er hins vegar staðreynd að 27 prósent lántakenda hafa tekið á sig ævintýralegar vaxtahækkanir og að fólk flýr í verðtryggð lán. Ungt fólk og barnafjölskyldur eru að taka þetta högg á sig af fullum þunga. Afleiðingarnar eru að næstu árgangar komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn. Fasteignamarkaðurinn og byggingamarkaðurinn eru á leið í frost.
Í síðasta fjárlagafrumvarpi blasti við að fjármálaráðherra ætlaði ekki að berjast gegn verðbólgunni. Þvert á móti var farið í hækka gjöld sem ýtti undir meiri verðbólgu og jók útgjöld fólks. Viðreisn lagði þá mikla áherslu á mikilvægi þess að berjast með Seðlabankanum gegn verðbólgunni. Við lögðum fram breytingartillögur, m.a. að skuldir ríkisins yrðu lækkaðar um 20 milljarða á árinu. Tillögur um fækkun ráðuneyta, hækkun veiðigjalda og hækkun kolefnisgjalds. Allar voru þessar tillögur felldar og fjárlög fjármálaráðherra enduðu í 120 milljarða mínus. Í nýrri fjármálaáætlun segir að vaxandi verðbólga kalli á aðhald í opinberum fjármálum. Engin augljós merki eru aftur á móti um aðhald eða um að ráðast eigi í tekjuöflun, svo sem með því að sækja tekjur í sjávarútveginn eða með gjaldtöku á ferðaþjónustu. Fjármálaáætlun talar um að veiðigjöld verði mögulega hækkuð 2025 og að sala á Íslandsbanka muni leiða til að hægt sé að lækka skuldir og vaxtakostnað. Vandamálið er að mikilvæg sala er nú í uppnámi vegna fjármálaráðherra sjálfs.
Ákvörðunarfælni á hæsta stigi
Þegar efnahagsaðstæður breytast og draga þarf úr útgjöldum er miklu auðveldara fyrir stjórnvöld að slá einstaka fjárfestingarverkefnum á frest en að fara í pólitískt erfiðar umbætur á rekstri. Nú er verið að fara auðveldu leiðina. Kannski er það þess vegna sem ríkisstjórnin talar núna um að ætla að standa sérstakan vörð um heilbrigðiskerfið. En það er bara nákvæmlega ekkert ákall uppi um aðhald í heilbrigðiskerfinu. Svona rant á kannski að fela getuleysið til að taka til í öðrum rekstri ríkisins. Tækifærin til hagræðingar í rekstri eru til staðar en krefjast vinnu af hálfu ráðherra. Næg er yfirbyggingin. Óbreytt ástand í ríkisfjármálum eru vondar fréttir fyrir þjóðina en er afleiðing þess að vera með ríkisstjórn sem er með ákvörðunarfælni á hæsta stigi. Þjóðin á þess vegna áfram að taka á sig háa verðbólgu og vexti. Og þetta ástand skilar núna fyrirtækjum landsins skattahækkun. Það þarf pólitíska hugmyndafræði um útgjöld, tekjur og heildarafkomu. Planið hjá ríkisstjórninni er hins vegar á að reka ríkið með halla í áratug algjörlega óháð efnahagsaðstæðum og fólkið í landinu situr uppi með reikninginn. Aftur erum við í sömu stöðu og þegar fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp sitt síðastliðið haust. Varnaðarorðin heyrðust sannarlega þá líka. Skyldi hann hlusta í þetta sinn?
Greinin birtist fyrst á Heimildinni 21. apríl