14 jún Evrópuþráhyggja Moggans
Leiftrandi ræða Sigmars Guðmundssonar í eldhúsdagsumræðunum ýtti við ritstjórum Morgunblaðsins til þess að skrifa ritstjórnargrein undir fyrirsögninni: Evrópuþráhyggja.
Þar færa ritstjórarnir fram röksemdir í sex liðum gegn fullri aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntbandalaginu. Athyglisvert er að þeir telja nú nauðsynlegt að rökstyðja afstöðu sína. Fram til þessa hafa þeir reynt að afgreiða málið með þöggun og staðhæfingum að það sé ekki á dagskrá.
Við lesturinn kemur líka í ljós að röksemdirnar eru veikburða.
Fyrsta röksemd
Fyrsta röksemdin er sú að hér hafi kaupmáttur verið meiri en annars staðar. Að sönnu er það rétt að stundum eykst kaupmáttur meira hér en í samkeppnislöndunum. Svo hrynur hann til að jafna samkeppnisstöðuna. Þessar sveiflur eru vandamálið.
Við erum einmitt stödd þar núna að Morgunblaðið gerir hvort tveggja í senn að halda því fram að kaupmáttur sé hár vegna góðrar efnahagsstjórnar en launahækkanir hafi þó verið allt of miklar. Þess vegna verði nú að rýra kjörin með meiri vaxtahækkunum en í samkeppnislöndunum til þess að jafna metin.
Er ekki vandi Morgunblaðsins sá að það fer í hringi í þessum röksemdum?
Önnur röksemd
Önnur röksemd er sú að verðbólga sé mishá evrusvæðinu. Það er rétt. Ritstjórarnir gefa sér hins vegar að verðbólga hér verði jöfn eða meiri en í þeim ríkjum sem verst er stjórnað.
Veruleikinn er hins vegar sá að verðbólga hér hefur verið nálægt meðaltalinu á evrusvæðinu en núverandi verðbólguhrina hefur þó staðið yfir í lengri tíma hjá okkur og ætlar að verða þrálátari. Þetta er þrátt fyrir miklu óstöðugri gjaldmiðil.
Með stöðugri gjaldmiðli eru því fremur líkur á lægri verðbólgu en hærri, jafnvel að óbreyttri efnahagsstjórn að öðru leyti.
Þriðja röksemd
Þriðja röksemdin er að hagvöxtur sé meiri hér en á evrusvæðinu. Ritstjórar Morgunblaðsins vita betur en flestir aðrir að rétti mælikvarðinn á árangur efnahagsstarfseminnar er hagvöxtur á mann.
Nýlega birti Morgunblaðið meira að segja eitt fjölmiðla greiningu efnahagsrannsóknafyrirtækisins Analytica. Þar kom fram að hagvöxtur á mann dróst saman hér á fyrsta ársfjórðungi. Um mörg undanfarin ár hefur hann verið lægri en á evrusvæðinu. Þetta rímar við skýrslur OECD þar sem segir að hagvöxtur á mann hafi verið minni á Íslandi en í nokkru öðru aðildarríki.
Þessi röksemd hittir því ritstjórana eins og bjúgverpill.
Fjórða röksemd
Fjórða röksemdin byggist á þeirri staðhæfingu að atvinnuleysi á Íslandi yrði sjálfkrafa jafn mikið og í þeim ríkjum sem verst er stjórnað á evrusvæðinu eins og Grikklandi og Spáni.
Ef við aftur á móti lítum okkur nær og skoðum lönd eins og Færeyjar og Danmörku, sem tengd eru evru, þá búa þau við sama vanda og við að það er skortur á vinnuafli.
Jafnvel þótt almenn stjórn efnahagsmála myndi ekki batna eru engin rök fyrir því að við myndum standa okkur verr en þessir frændur okkar. En við getum gert meiri mistök en aðrar þjóðir alveg óháð því hver gjaldmiðillinn er. Það er undir okkur sjálfum komið.
Fimmta röksemd
Fimmta röksemdin er sú að vaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópu myndu ekki taka mið af séríslenskum aðstæðum.
Hér þarf að hafa í huga að Seðlabanki Evrópu ræður vaxtakjörum allra helstu fyrirtækja í sjávarútvegi, stóriðju, hátækni og ferðaþjónustu.
Veruleikinn er sá að þessi fyrirtæki eru í betri samkeppnisstöðu en lítil og meðalstór fyrirtæki sem lúta alfarið vaxtaákvörðunum Seðlabanka Íslands. Þau fyrirtæki sem þess eiga kost kjósa því að vera á áhrifasvæði Seðlabanka Evrópu eða Seðlabanka Bandaríkjanna.
Bændur hafa ekki þetta val. En fáir myndu hafa meiri ábata en þeir af því að njóta evrópskra vaxtakjara.
Kjarni málsins er sá að fyrirtækin hafa greitt atkvæði með fótunum og fellt röksemdafærslu Morgunblaðsins.
Sjötta röksemd
Sjötta röksemdin er sú að efnahagssveiflur séu öðruvísi hér en í Evrópu. Þetta var þannig þegar sjávarútvegur var eina útflutningsgreinin og áður en við innleiddum markvissa stöðugleikastjórnun í fiskveiðum.
Á þessari öld hafa hagsveiflur hér farið að mestu saman við hagsveiflur í helstu viðskiptalöndum. Helsti munurinn er sá að sveiflurnar 2008 og 2019 urðu dýpri hér vegna gjaldmiðilsins.
Ritstjórarnir eru einfaldlega fastir í áratuga gamalli rökræðu. Þessi fortíðarhyggja er undarlegri fyrir þær sakir að annar ritstjóranna átti á sínum tíma nokkurn þátt í að færa Ísland fram á veginn að þessu leyti.
Fagnaðarefni
Það er hins vegar fagnaðarefni að markviss umræða Viðreisnar um þessi efni skuli hafa knúið ritstjórana til þess að reyna við röksemdafærslu í stað þöggunar.
Og það er líka fagnaðarefni að veikleikinn í röksemdafærslunni á eftir að hjálpa til við að opna umræðuna frekar.
Ég hef margoft sagt að full aðild að Evrópusambandinu er ekki sjálfstætt markmið. Hún er fyrst og fremst leið til þess að ná markmiðum um aukið atvinnufrelsi, meiri stöðugleika og traustari velferð.