Evrópuþráhyggja Moggans

Leiftrandi ræða Sig­mars Guðmunds­son­ar í eld­hús­dagsum­ræðunum ýtti við rit­stjór­um Morg­un­blaðsins til þess að skrifa rit­stjórn­ar­grein und­ir fyr­ir­sögn­inni: Evr­ópuþrá­hyggja.

Þar færa rit­stjór­arn­ir fram rök­semd­ir í sex liðum gegn fullri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og evr­ópska mynt­banda­lag­inu. At­hygl­is­vert er að þeir telja nú nauðsyn­legt að rök­styðja af­stöðu sína. Fram til þessa hafa þeir reynt að af­greiða málið með þögg­un og staðhæf­ing­um að það sé ekki á dag­skrá.

Við lest­ur­inn kem­ur líka í ljós að rök­semd­irn­ar eru veik­b­urða.

Fyrsta rök­semd

Fyrsta rök­semd­in er sú að hér hafi kaup­mátt­ur verið meiri en ann­ars staðar. Að sönnu er það rétt að stund­um eykst kaup­mátt­ur meira hér en í sam­keppn­islönd­un­um. Svo hryn­ur hann til að jafna sam­keppn­is­stöðuna. Þess­ar sveifl­ur eru vanda­málið.

Við erum ein­mitt stödd þar núna að Morg­un­blaðið ger­ir hvort tveggja í senn að halda því fram að kaup­mátt­ur sé hár vegna góðrar efna­hags­stjórn­ar en launa­hækk­an­ir hafi þó verið allt of mikl­ar. Þess vegna verði nú að rýra kjör­in með meiri vaxta­hækk­un­um en í sam­keppn­islönd­un­um til þess að jafna met­in.

Er ekki vandi Morg­un­blaðsins sá að það fer í hringi í þess­um rök­semd­um?

Önnur rök­semd

Önnur rök­semd er sú að verðbólga sé mis­há evru­svæðinu. Það er rétt. Rit­stjór­arn­ir gefa sér hins veg­ar að verðbólga hér verði jöfn eða meiri en í þeim ríkj­um sem verst er stjórnað.

Veru­leik­inn er hins veg­ar sá að verðbólga hér hef­ur verið ná­lægt meðaltal­inu á evru­svæðinu en nú­ver­andi verðbólgu­hrina hef­ur þó staðið yfir í lengri tíma hjá okk­ur og ætl­ar að verða þrálát­ari. Þetta er þrátt fyr­ir miklu óstöðugri gjald­miðil.

Með stöðugri gjald­miðli eru því frem­ur lík­ur á lægri verðbólgu en hærri, jafn­vel að óbreyttri efna­hags­stjórn að öðru leyti.

Þriðja rök­semd

Þriðja rök­semd­in er að hag­vöxt­ur sé meiri hér en á evru­svæðinu. Rit­stjór­ar Morg­un­blaðsins vita bet­ur en flest­ir aðrir að rétti mæli­kv­arðinn á ár­ang­ur efna­hags­starf­sem­inn­ar er hag­vöxt­ur á mann.

Ný­lega birti Morg­un­blaðið meira að segja eitt fjöl­miðla grein­ingu efna­hags­rann­sókna­fyr­ir­tæk­is­ins Ana­lytica. Þar kom fram að hag­vöxt­ur á mann dróst sam­an hér á fyrsta árs­fjórðungi. Um mörg und­an­far­in ár hef­ur hann verið lægri en á evru­svæðinu. Þetta rím­ar við skýrsl­ur OECD þar sem seg­ir að hag­vöxt­ur á mann hafi verið minni á Íslandi en í nokkru öðru aðild­ar­ríki.

Þessi rök­semd hitt­ir því rit­stjór­ana eins og bjúg­verpill.

Fjórða rök­semd

Fjórða rök­semd­in bygg­ist á þeirri staðhæf­ingu að at­vinnu­leysi á Íslandi yrði sjálf­krafa jafn mikið og í þeim ríkj­um sem verst er stjórnað á evru­svæðinu eins og Grikklandi og Spáni.

Ef við aft­ur á móti lít­um okk­ur nær og skoðum lönd eins og Fær­eyj­ar og Dan­mörku, sem tengd eru evru, þá búa þau við sama vanda og við að það er skort­ur á vinnu­afli.

Jafn­vel þótt al­menn stjórn efna­hags­mála myndi ekki batna eru eng­in rök fyr­ir því að við mynd­um standa okk­ur verr en þess­ir frænd­ur okk­ar. En við get­um gert meiri mis­tök en aðrar þjóðir al­veg óháð því hver gjald­miðill­inn er. Það er und­ir okk­ur sjálf­um komið.

Fimmta rök­semd

Fimmta rök­semd­in er sú að vaxta­ákv­arðanir Seðlabanka Evr­ópu myndu ekki taka mið af sér­ís­lensk­um aðstæðum.

Hér þarf að hafa í huga að Seðlabanki Evr­ópu ræður vaxta­kjör­um allra helstu fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, stóriðju, há­tækni og ferðaþjón­ustu.

Veru­leik­inn er sá að þessi fyr­ir­tæki eru í betri sam­keppn­is­stöðu en lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki sem lúta al­farið vaxta­ákvörðunum Seðlabanka Íslands. Þau fyr­ir­tæki sem þess eiga kost kjósa því að vera á áhrifa­svæði Seðlabanka Evr­ópu eða Seðlabanka Banda­ríkj­anna.

Bænd­ur hafa ekki þetta val. En fáir myndu hafa meiri ábata en þeir af því að njóta evr­ópskra vaxta­kjara.

Kjarni máls­ins er sá að fyr­ir­tæk­in hafa greitt at­kvæði með fót­un­um og fellt rök­semda­færslu Morg­un­blaðsins.

Sjötta rök­semd

Sjötta rök­semd­in er sú að efna­hags­sveifl­ur séu öðru­vísi hér en í Evr­ópu. Þetta var þannig þegar sjáv­ar­út­veg­ur var eina út­flutn­ings­grein­in og áður en við inn­leidd­um mark­vissa stöðug­leika­stjórn­un í fisk­veiðum.

Á þess­ari öld hafa hagsveifl­ur hér farið að mestu sam­an við hagsveifl­ur í helstu viðskipta­lönd­um. Helsti mun­ur­inn er sá að sveifl­urn­ar 2008 og 2019 urðu dýpri hér vegna gjald­miðils­ins.

Rit­stjór­arn­ir eru ein­fald­lega fast­ir í ára­tuga gam­alli rök­ræðu. Þessi fortíðar­hyggja er und­ar­legri fyr­ir þær sak­ir að ann­ar rit­stjór­anna átti á sín­um tíma nokk­urn þátt í að færa Ísland fram á veg­inn að þessu leyti.

Fagnaðarefni

Það er hins veg­ar fagnaðarefni að mark­viss umræða Viðreisn­ar um þessi efni skuli hafa knúið rit­stjór­ana til þess að reyna við rök­semda­færslu í stað þögg­un­ar.

Og það er líka fagnaðarefni að veik­leik­inn í rök­semda­færsl­unni á eft­ir að hjálpa til við að opna umræðuna frek­ar.

Ég hef margoft sagt að full aðild að Evr­ópu­sam­band­inu er ekki sjálf­stætt mark­mið. Hún er fyrst og fremst leið til þess að ná mark­miðum um aukið at­vinnu­frelsi, meiri stöðug­leika og traust­ari vel­ferð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júní 2023