20 jún Samkeppni og sanngirni
Í hagfræðináminu mínu forðum daga var lögð mikil áhersla á samkeppni og þýðingu hennar fyrir lífskjör fólks. Þetta eru auðvitað engin geimvísindi og þess vegna hefur það vakið nokkra furðu mína hvernig tilteknir stjórnmálaflokkar hafa haldið hinu gagnstæða á lofti, þ.e. að öflugt eftirlit með samkeppni og viðurlög við samkeppnisbrotum sé frekar eitthvað sem beri að forðast.
Staðreyndin er auðvitað sú að skortur á samkeppni auðveldar fyrirtækjum að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Slíkar markaðsaðstæður hindra líka komu nýrra aðila á markað og vinna þannig gegn nýsköpun og aukinni framleiðni. Því liggja auðvitað bullandi almannahagsmunir í sterku samkeppniseftirliti.
Sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoð íslensks efnahagslífs. Eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað verulega frá hrunsárunum og fjárfestingar þeirra út fyrir greinina hafa aukist í samræmi við það. Í okkar fámenna samfélagi getur það hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum.
Árið 2021 óskaði ég eftir því að þáverandi sjávarútvegsráðherra flytti Alþingi skýrslu með samantekt á raunverulegu eignarhaldi eigenda 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í atvinnurekstri sem ekki tengist kjarnarekstri þeirra. Tilgangurinn var m.a. að upplýsa um raunveruleg áhrif útgerðarfyrirtækja á íslenskt atvinnulíf og samfélag í krafti ótímabundins einkaleyfis til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar. Ekki síst að varpa ljósi á áhrif þeirra á samkeppnismarkað.
Eftir dúk og disk skilaði ráðherrann útþynntri skýrslu sem ekki svaraði mikilvægustu spurningunum. Eftir sat þingheimur og almenningur áfram í myrkrinu varðandi raunveruleg völd og áhrif sjávarútvegsrisanna í íslensku samfélagi.
Núverandi matvælaráðherra hefur tekið málið áfram og gert Samkeppniseftirlitinu að vinna úttekt á því hvaða áhrif eignatengsl innan sjávarútvegs og milli óskyldra greina geta haft á samkeppni og aðra almannahagsmuni. Nú er kannski von á því að raunveruleg svör berist og það virðist aldeilis ekki gleðja alla jafn mikið.
Raddir innan sjávarútvegsins hafa kallað það atlögu gegn fyrirtækjum hvernig Samkeppniseftirlitið elti félög í sjávarútvegi. Sú túlkun er áhugaverð í ljósi þess að umrætt verkefni stofnunarinnar er að taka saman fyrirliggjandi gögn til að kortleggja áhrif eignatengsla á samkeppni og aðra almannahagsmuni. Að kortleggja umsvif tiltekinna sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku samfélagi í krafti þeirra forréttinda að hafa ótímabundnar heimildir til að nýta sjávarauðlindina án þess að greiða markaðsvirði fyrir.
Getum við ekki verið sammála um að það sé eðlilegt og sanngjarnt að gegnsæi ríki um nýtingu náttúruauðlindanna okkar?
Greinin birtist fyrst 20. júní í Morgunblaðinu