18 júl Fjárans feluleikirnir
Við þekkjum það líklega mörg að hamast eins og hamstur á hjóli við hin ýmsu verkefni sem dúkka upp og ljúka svo vinnudeginum án þess að hafa komist í að sinna þessu eina máli sem var á dagskránni þann daginn. Þó við getum flest verið sammála um hver hin stóru verkefni stjórnvalda séu þá vegast daglega á mismunandi hagsmunir ólíkra hópa og viðleitni til að leysa úr slíkum árekstrum getur auðveldlega orðið til þess að kjarnamálin lendi undir.
Þá reynir á stefnufestu stjórnvalda og hversu samstiga þau eru. Ekki síður er mikilvægt að muna fyrir hverja er unnið. Það verður að segjast eins og er að það síðarnefnda virðist stundum falla milli skips og bryggju, að minnsta kosti ef litið er til þess hvernig mikilvægum upplýsingum er kerfisbundið haldið frá almenningi, ekki síst þegar um er að ræða mál þar sem stjórnvöldum virðist hafa orðið hált á svellinu.
Tvö slík mál hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið. Annars vegar illa heppnuð sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka þar sem stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir skipan rannsóknarnefndar svo við komumst til botns í því hvað fór úrskeiðis. Hitt málið er auðvitað langavitleysan um Lindarhvol. Þar hefur stjórnvöldum á næstum því aðdáunarverðan hátt tekist að láta umræðuna snúast um form frekar en efni.
Þessi tvö mál eiga það sameiginlegt að um er að ræða gríðarlega fjárhagslega hagsmuni almennings. Það er því erfitt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að málsmeðferðin í heild sinni komi þessum sama almenningi ekki við. Eða að um tiltekna hluta hennar, helst þá sem varða aðkomu stjórnvalda, þurfi að ríkja sérstök leynd.
Sennilega er það þessi sama stjórnmálamenning sem kemur í veg fyrir að við ræðum í alvöru þann samfélagslega kostnað sem íslenska krónan hefur í för með sér. Bara vaxtamunur krónu og evru hleypur á hundruðum milljarða króna þegar litið er til skulda heimila, atvinnulífs, ríkis og sveitarfélaga.
Mun hærri vextir vegna krónunnar umfram það sem er innan evrunnar hefur margföldunaráhrif á kostnað og veldur þar með hærra verðlagi á vöru og þjónustu hér á landi. Hin neikvæðu áhrif krónunnar koma mun víðar fram; í fákeppnisumhverfi á fjármála- og tryggingamarkaði, í veikum hlutabréfamarkaði með tilheyrandi verri ávöxtunartækifærum hér á landi og svona mætti áfram telja.
Sjálfsagt eru einhverjir kostir við íslensku krónuna. En á vettvangi stjórnmálanna er staðan sú að ríkisstjórnin telur hagsmunum Íslands best borgið með krónu. Punktur. Af hverju og hvernig er ekki til umræðu af hennar hálfu. Það er mjög miður.