20 sep Varaþingmaður tekur sæti
Elva Dögg Sigurðardóttir hefur tekið sæti sem varaþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.
Elva hefur mikla trú á því að við getum gert betur í því nútíma samfélagi sem við búum í. Á sama tíma og við eigum að takast á við þær áskoranir sem blasa við okkur núna, þá verðum við að búa í haginn, fyrirbyggja og koma til móts við þær félagslegu áskoranir sem gætu orðið ennþá erfiðari í framtíðinni ef við bregðumst ekki við í tíma. Ef við viljum búa í heilbrigðu og kærleiksríku samfélagi þá er það okkar að stíga upp og skapa það saman! Við getum öll gert það með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er að taka þátt í stjórnmálum eða úti í samfélaginu.
Jómfrúræða Elvu Daggar fjallaði um muninn fyrir ungt fólk á því að safna sér fyrir fasteign á Íslandi og í evruumhverfi. Horfðu á ræðuna hér:
Elva Dögg er 28 ára Keflvíkingur. Hún hefur verið búsett í Danmörku ásamt kærasta sínum síðastliðið ár en þar stundar hún nám í Samfélagslegri nýsköpun og stjórnun. Elva er líka lærður tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfaði í nokkur ár hjá KVAN við fræðslu og ráðgjöf. Þar stýrði hún félagsfærninámskeiðum fyrir börn og unglinga, ásamt því að halda fyrirlestra í skólum og fyrirtækjum. Hún hefur unnið með börnum og unglingum síðan hún var unglingur sjálf m.a. við íþróttaþjálfun, í grunnskólum og í félagsmiðstöð. Elva er líka lærður yogakennari og hefur starfað við það. Hún hefur alltaf stundað íþróttir af kappi og um þessar mundir er CrossFit hennar íþrótt.
Síðustu ár hefur Elva einnig ferðast mikið erlendis, stundað þar nám og störf. Það hefur gefið henni innsýn inn í fjölbreytt kerfi og menningarheima. Hún hefur alltaf verið mjög ævintýragjörn og segir afar sjaldan nei við þeim fjölmörgu og krefjandi tækifærum sem bjóðast. Hennar helsta mottó er að “maður sér mest eftir því sem maður gerir ekki”. Hún nýtur þess að læra af fólki og þeim aðstæðum sem hún kemur sér í, og hún telur að svo lengi sem maður hafi vilja til þess að læra muni lífið alltaf hafa fyllingu og tilgang.
Elva hefur fjölmörg áhugamál og hafa alls kyns fjölbreytt handavinnuverkefni verið í gangi hjá henni. Fjallgöngur eru líka eitthvað sem Elva hefur stundað að kappi þó eitthvað sem minna um það í Danaveldi. Undanfarið hefur grænmetisræktun verið helsta mál á dagská.