30 okt Réttlæti, velferð og kvennakjör
Ég man vel hvað ég var stolt daginn sem ég fékk að fara með mömmu í strætó úr Breiðholtinu ofan í bæ til að taka þátt í byltingunni. Þetta var 24. október 1975. Á leiðinni útskýrði mamma, kennari til áratuga, fyrir mér að með samstöðunni væru konur að ryðja brautina fyrir okkur sem yngri værum. Við myndum njóta þess síðar. Það var rétt hjá henni. Ég hef alla ævi notið góðs af baráttu mömmu minnar og hennar kynslóðar.
Undanfarin ár og áratugi hefur margt áunnist í jafnréttislandinu Íslandi. Við stöndum framarlega í málefnum sem varða jafnrétti kynjanna, höfum reynst góð fyrirmynd og hvatt aðra til góðra verka. En það er líka margt óunnið. Til dæmis höfum við ekki náð því sjálfsagða markmiði að uppræta kynbundinn launamun og kynbundið ofbeldi er því miður enn ljótur blettur á samfélaginu okkar.
Jafnrétti hefur frá upphafi verið einn af hornsteinum Viðreisnar. Við höfum komið í gegn málum sem hafa mikil og góð áhrif til jafnréttis og erum hvergi nærri hætt. Við fengum lögum um skilnað breytt á hátt sem gerir þolendum ofbeldis auðveldara að losna úr hjónabandi. Við fengum skilgreiningu á nauðgun breytt þannig að hún nær nú yfir skort á samþykki. Við komum í gegn lögfestingu á jafnlaunavottun. Við komum í gegn banni við bælingu, þar sem gert var refsivert að neyða einstakling til að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu. Og við fengum í gegn samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt launakjör kvennastétta. Fjármála- og efnahagsráðherra var falið að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera. Þetta var vorið 2018 en síðan hefur því miður lítið gerst.
En nú er vonandi lag. Í tengslum við kvennaverkfallið í liðinni viku sagðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vilja endurmeta virði svokallaðra kvennastétta og að mið verði tekið af því við næstu kjaraviðræður.
Þjóðarsátt um leiðrétt kjör kvennastétta innan opinbera geirans er ekki bara réttlætismál, heldur mikilvægt framlag til velferðarmála. Við höfum látið það viðgangast of lengi að fjölmennar kvennastéttir beri uppi velferðarkerfið okkar á launum sem byggjast á skökku verðmætamati. Forsætisráðherra hefur gefið boltann upp og nú þarf að spila honum áfram. Verkefnið er annars vegar að leiðrétta kjörin og hins vegar að koma í veg fyrir mögulegt höfrungahlaup sem slík leiðrétting gæti haft í för með sér. Til þess þarf sameiginlegan skilning á verkefninu, réttmæti þess og mikilvægi.