17 nóv Sporin hræða
Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum. Að fjölskyldur þurfi að yfirgefa heimili sitt og byggðarlag með sáralítið nema brýnustu nauðsynjar er auðvitað ótrúleg og sár lífsreynsla. Við það bætist óvissa um framtíðina, eigur, húsnæði, fjármál, atvinnu og skólagöngu barnanna. Fólki í þessari stöðu á að hjálpa.
Íslendingar kunna mjög vel að bregðast skjótt við og koma fólki í skjól undan ógn, enda eru snjóflóð, jarðskjálftar og eldgos hluti af raunveruleikanum. Ógnir sem reglulega þarf að bregðast við. Eitt af því er að verja mannvirki og mikilvæga innviði. Það er mjög góð samstaða á Alþingi um að gera það hratt og vel. Fyrr í vikunni voru afgreidd með hraði lög sem heimila gerð varnargarða vegna yfirvofandi eldgoss. Allir þingmenn voru þessu samþykkir. Að sjálfsögðu.
Varnargarðarnir kosta sitt og til að hægt sé að reisa þá hratt þarf að víkja til hliðar öðrum lögum, til að mynda stjórnsýslulögum, lögum um umhverfismat og lögum um náttúruvernd. Til að fjármagna varnirnar var lagður nýr skattur á allar fasteignir í landinu. Þann skatt þurfa einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög að greiða. Þótt allir séu hlynntir því að varnirnar séu reistar verður að gera athugasemd við að fyrsta hugdetta sé alltaf að hækka skatta. Sér í lagi í þessu tilviki því það eru til fjármunir í varasjóði ríkisins. Þeim sjóði er beinlínis markað það hlutverk meðal annars að mæta „meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, svo sem vegna náttúruhamfara“. Skattgreiðendur hafa því þegar greitt af sínum fasteignum til að mæta ófyrirséðum útgjöldum vegna náttúruhamfara. Og það eru tugir milljarða í sjóðnum.
Einnig er varhugavert að leggja á skatt, sem að öllum líkindum verður til frambúðar að sögn forsætisráðherra, án þess að rýna það nægjanlega vel og fá fram öll sjónarmið í umsögnum. Það var ekki gert vegna þess að afgreiða þurfti lögin með hraði. Þess þá heldur að nýta varasjóðinn og gefa sér tíma til að fara betur yfir fjármögnunina. Það hefði ekki tafið gerð varnargarðanna sem þingmenn voru sammála um að reisa.
Því miður er það svo að sporin hræða. Ríkið innheimti af skattgreiðendum í fyrra rúma 3,8 milljarða í ofanflóðasjóð, sem nýttur er í varnir gegn ofanflóðum. Sjóðurinn fékk hins vegar bara 2,7 milljarða í sinn hlut til að sinna sínum vörnum. Ríkið notaði rúman milljarð af gjaldinu í annað. Á síðustu árum hefur ríkið tekið 15 milljarða af þessu gjaldi og sett í önnur verkefni en að verja byggðir fyrir snjó og aurflóðum. Sagan segir okkur því skýrt að ríkið hikar ekki við að skattleggja fólk og fyrirtæki í því skyni að verja byggðir fyrir náttúruhamförum, en nýtir svo stóran hluta peningsins í annað. Það er ekki sanngjarnt gagnvart fólkinu sem á að verja.