15 des Lesskilningur og öryggi ríkisins
Slæm niðurstaða okkar í hinni alþjóðlegu PISA-könnun hefur verið mjög til umræðu undanfarið sem og leitin að leiðum til úrbóta. Ísland virðist sem sagt vera í frjálsu falli í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindum. Ekki síst voru sláandi þær fréttir að 40% nemenda geti ekki lesið sér til gagns eftir að hafa lokið grunnskólanámi á Íslandi.
Þessi staða hefur með réttu verið sett í samhengi við þau tækifæri og þau lífsgæði sem börn í íslenskum skólum fara fyrir vikið á mis við. Það er sannarlega hægt að taka undir þær áhyggjur. Mig langar þó að ræða málið hér í tengslum við annað áhyggjuefni sem varðar fjölþáttaógnir sem steðja að ríkjum heims.
Hugtakið fjölþáttaógnir er skýrt svo af utanríkisráðuneyti Íslands að það vísi til samhæfðra og samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila sem tengjast ríkjum sem beita fjölbreyttum aðferðum á skipulagðan hátt til að nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja og/eða stofnana þeirra. Til þeirra teljist t.d. netárásir, efnahagsþvinganir og fjárfestingar í lykilinnviðum og tæknifyrirtækjum, falsfréttir og íhlutun í lýðræðislega ferla og stofnanir. Tilgangurinn sé að hafa áhrif á ákvarðanatöku yfirvalda með aðgerðum sem grafa undan eða skaða viðkomandi ríki og/eða stofnanir þess.
Ég er nýkomin heim af fundi á vegum Norðurlandaráðs þar sem við fengum meðal annars kynningu frá sérfræðingum sem sérhæfa sig í að auka viðnámsþrótt lýðræðisríkja gegn fjölþáttaógnum. Umræða um þessar ógnir og mikilvægi samstilltrar baráttu gegn þeim fær sífellt meira vægi í norrænni samvinnu. Ekki síst um þátt tækninýjunga í þessum nýju ógnum og að sama skapi hvernig við nýtum tæknina til að berjast gegn þeim. Hér undir liggur auðvitað upplýsingaóreiða, falsfréttir, skipulegar áróðursherferðir þar sem tækninni er beitt til að dulbúa áróður sem fréttir og áfram mætti telja. Í bakgrunni liggur gjarnan valdabarátta stórvelda og togstreita milli tveggja ólíkra samfélagsgerða; lýðræðisríkja og einræðisríkja.
Í miðjum fyrirlestri um fjölþáttaógnir fór ég að hugsa um PISA. Fór að hugsa um að 40% nemenda gætu illa lesið sér til gagns. Hvernig það þýðir að hátt hlutfall íslenskra grunnskólabarna býr ekki yfir hæfni til að tileinka sér upplýsingar með gagnrýnum hætti. Hvernig það getur veikt viðnámsþrótt íslenskra ungmenna gegn fjölþáttaógnum sem eru því miður orðnar veruleiki sem við búum við.
Menntun eykur lífsgæði fólks. Menntun er öryggismál þjóðar. Menntun þarf að vera forgangsatriði stjórnvalda.