08 jan Yfirvofandi gjaldþrot
Síðustu andartökin í lífi fyrirtækja sem eru á leið í þrot geta verið dýrkeypt. Stjórnendur sem róa lífróður við að bjarga rekstrinum eiga þá til að taka ákvarðanir um mjög áhættusöm verkefni sem annaðhvort fela í sér mikinn ávinning eða rústa rekstrinum endanlega. Fari allt á versta veg getur staða allra hlutaðeigandi orðið verri en hefði þurft að vera. Það er svo vel þekkt að þessi áhættusömu verkefni sem farið er í á lokasprettinum geta ekki síður verið til þess fallin að þjóna eigin hagsmunum stjórnenda, að jafnvel séu engar líkur á neinum ávinningi fyrir aðra en þá.
Rekstur samfélaga er auðvitað á margan hátt ólíkur rekstri fyrirtækja. Ákveðin grundvallarlögmál eru þó hin sömu. Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sennilega sjaldan verið nær því að liðast í sundur og það er orðinn hálfgerður samkvæmisleikur að veðja á hvenær það gerist. Mikilvægari spurning að mínu mati er hins vegar hversu dýrkeypt síðustu andartökin í lífi ríkisstjórnarinnar verða.
Það eru mörg brýn mál sem bíða úrlausnar. Mál sem varða mikla þjóðarhagsmuni. Erfið staða í efnahagsmálum, menntamál, kjarasamningar, útlendingamál, orkuskipti og uppbygging atvinnugreina sem kalla á frekari orkuvinnslu svo dæmi séu tekin. Þetta eru sannarlega ekki einföld mál en ríkisstjórnin hefur í besta falli skilað auðu. Úrræðaleysið í baráttunni við verðbólguna er vel þekkt og í tenglum við kjarasamninga virðist í kortunum ný tegund af þjóðarsátt sem felur í sér gríðarlega aukningu á útgjöldum ríkissjóðs. Einhverjir myndu segja að það væri ekki á þau útgjöld bætandi en sennilega telur ríkisstjórnin þetta léttvægan kostnað í samanburði við upphaflegar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um stöðugan gjaldmiðil til hagsbóta fyrir allan almenning. Aðgerðaleysið varðandi mikilvæg orkuskipti er dapurlegt, svo ekki sé meira sagt. Framtaksleysið þegar kemur að því að tryggja óumdeilanlegt eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins og eðlilegan afrakstur af nýtingu þeirra er fyrir neðan allar hellur.
Andlegt þrot ríkisstjórnarinnar blasir við öllum. Það er hætt við því að síðustu andartökin verði þjóðinni dýrkeypt. Og er nú nóg samt þegar kemur að umgengni stjórnvalda við ríkissjóð. Því til viðbótar má búast við að brýnar aðgerðir í einstaka málaflokkum sem varða almannahagsmuni nái ekki í gegn því stjórnarflokkar beiti neitunarvaldi hver gegn öðrum og að einstaka ráðherrar nýti jafnvel tímann frekar í athafnir sem þjóna sértækum hagsmunum frekar en almannahag.
Vonandi er þetta óþarfa svartsýni í mér. Vonandi rifjar ríkisstjórnin upp gott og mikilvægt leiðarljós Viðreisnar um almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Því yrði hægt að fagna.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar