23 feb Í hvað eiga skattarnir að fara?
Þau eru mörg og margvísleg málin sem brenna á fólki þessa dagana en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þar taki tvennt mest rými: fjárhagsstaða heimilanna og staða heilbrigðisþjónustunnar.
Það þarf ekkert að fjölyrða um erfiðleika margra fjölskyldna við að ná endum saman í því hávaxtaumhverfi sem hér hefur ríkt síðan stjórnvöld lofuðu lágvaxtaumhverfi til frambúðar – og þökkuðu eigin snilld – sumarið 2021. Þetta vitum við óþægilega vel. Það þarf heldur ekkert að hafa mörg orð um erfiða stöðu í heilbrigðiskerfinu okkar þar sem starfsfólk býr margt við óásættanlegt álag á sama tíma og biðlistum eftir ýmiss konar nauðsynlegri þjónustu fjölgar og þeir lengjast. Þetta þekkja allir.
Það er hins vegar full ástæða til að ræða forgangsröðun, ábyrgð og aðhald í ríkisrekstri. Væri þessi þrenning í hávegum höfð á stjórnarheimilinu væri staða bæði heimila og heilbrigðiskerfisins önnur og betri. Við núverandi aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að sýna ábyrgð og aðhald og leggja áherslu á bætta forgangsröðun.
Í samfélaginu okkar ríkir sátt um að við leggjum okkar af mörkum í gegnum skattkerfið til að tryggja mikilvæga grunnþjónustu, ekki síst heilbrigðisþjónustu. Þess vegna borgum við háa skatta. Sú spurning verður hins vegar sífellt áleitnari hvort stjórnvöld geti ekki nýtt skattpeningana frá heimilum og fyrirtækjum landsins mun betur. Viðreisn hefur lengi kallað eftir skýrari sýn, meira gegnsæi og samstilltu átaki í því skyni, meðal annars í þágu bættrar heilbrigðisþjónustu.
Í síðustu viku átti ég samtal í þingsal við Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um slæma stöðu heilsugæslunnar. Eftir sex ára árangurslaus mótmæli hefur Félag íslenskra heimilislækna nú skorað á læknana að hætta að gefa út tilvísanir vegna barna þegar þeir ættu ekki beina aðkomu að málum. Þetta verklag eitt kostar þrjú ársverk heimilislækna sem við sjáum öll að er sturlað. Listinn um tilvísunarkröfur er svo mun lengri. Ég spurði heilbrigðisráðherra hvort þessi krafa stjórnvalda hefði raunverulega leitt til betri þjónustu og betri nýtingar skattpeninga. Svar ráðherrans var að málið hefði verið í skoðun í nokkra mánuði og að málið yrði leyst.
Ég er með hugmynd. Í stað þess að taka nokkra mánuði í að skoða mál þegar þau eru komin í óefni, hvað með að hafa skýra sýn á það hvað á að ávinnast með breyttu verklagi og mæla svo reglulega hvernig til tekst? Skattpeningarnir okkar eiga nefnilega ekki að vera endalaus uppspretta tilraunaverkefna sem engu skila.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar