25 mar Viltu finna milljarð?
Þegar fólk og fyrirtæki eru skuldsett er vaxtakostnaður stór hluti útgjalda, sama má segja um ríki og sveitarfélög. Vaxtabyrðin af íslensku krónunni er nær þreföld á við evru. Meðalvextir til húsnæðislána á evrusvæðinu eru 3,5% en á Íslandi eru meðalvextir 10,5%. Hér munar 7% og því eru vextir og verðbætur þrefalt hærri á Íslandi en innan evrunnar. Vaxtamunurinn hjá hinu opinbera er aðeins minni, síðustu 20 ár hefur vaxtamunurinn á milli krónu og evru verið tæp 5% á langtíma ríkisskuldabréfum. Ef tekinn er varkár samanburður og miðað við 4,5% má með einföldum hætti nota þá tölu og margfalda skuldir í íslenskum krónum til að átta sig á þeim gríðarlega kostnaði sem krónan veldur.
Áhrifin eru þeim mun meiri eftir því sem skuldastaðan er verri. Skuldir ríkis og sveitarfélaga eru miklar, vextir og verðbætur eru því risastór liður í rekstri hins opinbera.
Heildarskuldir sveitarfélaga árið 2022 voru 527 milljarðar króna. Krónuálagið er að jafnaði 4,5% eða 24 milljarðar króna. Fjórum milljörðum hærri en árlegur kostnaður ríkisins vegna nýgerðra kjarasamninga.
Bæjarsjóður Hafnarfjarðar skuldaði samtals 36 milljarða skv. síðasta ársreikningi. Miðað við 4,5% vaxtamun hefði Hafnarfjörður sparað sér 1,6 milljarð króna. Það er hægt að gera ansi margt fyrir þessa peninga.
Heildarskuldir Reykjavíkurborgar voru 137 milljarðar, með sama hætti má sjá að krónuskatturinn á höfuðborgina er um 6 milljarðar króna.
Heildarskuldir A hluta ríkissjóða voru 1700 milljarðar króna. Krónuskatturinn þar eru tæpir 80 milljarðar króna. Veitir nokkuð af þessu fé í heilbrigðiskerfið okkar? Við gætum fjármagnað nýjan Landspítala á innan við fjórum árum án þess að taka lán. Gætum fjármagnað útgjaldapakka ríkissjóðs vegna kjarasamninga næstu fjögurra ára á aðeins einu ári.
Fyrir mig persónulega myndi ég spara mér árlega 2,3 milljónir króna þegar kemur að fasteignalánunum mínum. Vaxtamunur fasteignalána er 7%. Ég skora á ykkur að margfalda skuldir ykkar með 0,07 til að átta ykkur á árlegum krónuskatti ykkar. Síðasta ár greiddi ég 2,3 milljónir á ári í krónuskatt. Það eru þriggja mánaða meðallaun, fyrir skatt, pælið í því.
Það er eflaust hægt að finna eitthvað jákvætt við krónuna en beinn kostnaður er að lágmarki 4,5% af skuldum hins opinbera og 7% af fasteignalánum okkar. Tala nú ekki um allan óbeina kostnaðinn sem kemur fram í of háu verðlagi vegna fákeppni.
Eruð þið sátt við þennan skatt?
Ég er það ekki.