Nýtum tímann núna

Þorsteinn Pálsson

„Við eigum að nota tímann núna. Við erum með ró núna og eigum að nota tímann, hvernig við getum komið þessu hagkerfi okkar betur fyrir þannig að við séum ekki með þessa háu verðbólgu, þessa háu vexti – það gagnast bæði fyrirtækjum og einstaklingum.“

Þetta eru orð Finnbjörns Hermannsonar forseta ASÍ í viðtali við Markaðinn á Eyjunni 30. mars. Morgunblaðið lýsir alveg öndverðu sjónarmiði í forystugrein viku síðar. Þar er sagt að mikilvægast sé  að ný ríkisstjórn „sleppi við að móta mikla framtíðarsýn.“ Hún fór að því ráði.

Í bráð og lengd velta hagsmunir heimila og fyrirtækja á innlendum samkeppnismarkaði á þessum gjör ólíku viðhorfum.

Framtíðin sem markaðurinn sér

Innherji á Vísi birti athyglisverða grein eftir Örvar Snæ Óskarsson fjármálaverkfræðing um væntingar skuldabréfamarkaðar til stýrivaxta.

Greinin er áhugaverð fyrir alla þá sem velta fyrir sér hvort nú eigi að nota tímann til að horfa inn í framtíðina eða sleppa allri hugsun um framtíðarsýn.

Þó að spár um þróun hagstærða séu ekki nákvæmnivísindi eru þær gagnlegar við mat á því hvort skynsamlegt getur verið að sigla áfram eftir sama striki eða breyta stefnunni.

Tölurnar sem blasa við

Þetta eru tölurnar sem við blasa:

  1. Stýrivextir eru nú 9,25%. Í maí á næsta ári verða þeir líklegast 8,75%.
  2. Annað haust gætu stýrivextirnir verið komnir niður í 8,5%.
  3. Við lok næsta kjörtímabils árið 2029 gætu stýrivextirnir svo verið komnir í 6,5%.
  4. Ætla má að raunstýrivextir hækki og verði 5% á næsta ári gangi spár um verðbólgu eftir.

Óviðunandi framtíðarsýn

Hvað segja þessar tölur okkur. Jú, nafnvextir munu lækka. En jafnvel þótt við horfum fram til ársins 2030 verðum við enn með stýrivexti sem eru tvöfalt til þrefalt hærri en í grannlöndunum í dag.

Horfur eru hins vegar á að raunstýrivextir hækki á næsta ári. Staða skuldugra heimila mun versna enn við það.

Þrátt fyrir afar hófsama kjarasamninga og fullan skilning verkalýðshreyfingarinnar á stöðu efnahagsmála er þetta algjörlega óviðunandi framtíðarsýn fyrir launafólk og þau fyrirtæki sem starfa í krónuhagkerfinu.

Markmiðið næst ekki ef við leggjum ekki af stað

Þessar tölur eru sterkur rökstuðningur fyrir því að nota tímann til að huga að því hvernig unnt er að tryggja launafólki og fyrirtækjum í innlendum samkeppnisrekstri sambærilegt vaxtaumhverfi og við sjáum í helstu viðskiptalöndunum til framtíðar.

Tölurnar sýna að því markmiði verður ekki náð án stefnubreytingar. Hún tekur tíma. En við náum aldrei markmiðinu ef við leggjum ekki af stað og lokum augunum fyrir framtíðinni.

Ríkisstjórn án efnahagsstefnu sleppir því hins vegar að hafa framtíðarsýn. Hún þolir ekki slíka umræðu.

Bara einn flokkur sammála forseta ASÍ

Forseti Alþýðusambandsins segir skýrt og skorinort: „Krónan er stóra vandamálið.“ Hann segir enn fremur að ekki eigi að þurfa að gera kröfur í kjarasamningum um að gjaldmiðillinn verði endurskoðaður.

Kjarni málsins er sá að það er rétt hjá forseta ASÍ að kjarasamningarnir hafa skapað skilyrði til þess að taka þetta stærsta hagsmunamál heimilanna til skoðunar núna.

Það er pólitískt verkefni. Því miður hefur Samfylkingin, sem er langstærsti flokkur landsins í könnunum, ákveðið að leggja þessa framtíðarsýn forystu launafólks á ís til að auðvelda væntanlega stjórnarmyndun.

Fyrir vikið er Viðreisn eini flokkurinn sem í næstu kosningum mun tala fyrir þessari framtíðarsýn forseta ASÍ.

Pólitíkin verður að hlusta

Það sýnir best alvarleika þessa máls þegar Seðlabankinn lýsti því yfir á dögunum að honum væri ofviða að greiða vexti af lánum vegna gjaldeyrisvarasjóðsins.

Með öðrum orðum: Seðlabankinn rís ekki undir kostnaðinum við krónuna. Hann getur hins vegar velt byrðunum að hluta yfir á viðskiptabankana.

Vandinn er að heimilin geta ekki velt kostnaðinum við krónuna yfir á aðra.

Það eru engar skyndi töfralausnir til. Kerfisbreyting er óhjákvæmileg ef við ætlum ekki að sætta okkur við 6% stýrivexti árið 2030. Þess vegna verður pólitíkin að hlusta á forseta ASÍ.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 18. apríl 2024