10 maí Löggæsla er grunnþjónusta við fólkið í landinu
Að standa vörð um öryggi fólks er fyrsta skylda stjórnvalda. Þrátt fyrir að þetta sé algjör frumskylda ríkisins blasir alvarleg innviðaskuld við hér.
Verkefni löggæslunnar eru fleiri og flóknari en áður. Þörfin fyrir þjónustu löggæslunnar er alltaf að aukast, kostnaðarhækkanir eru í rekstri embætta og víða um land er húsnæði lögreglu þannig að það háir starfseminni. Hlutfall ófaglærðra lögreglumanna hefur farið hækkandi, sérstaklega í byggðum landsins, og viðbragðstíma lögreglu er ábótavant víða um land. Sú staða er ógn við öryggi fólks.
Í því ljósi er ótrúlegt að aðhaldskrafa upp á 1.500 milljónir er nú sett á löggæslustofnanir landsins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að halda því fram að grunnþjónusta sé undanskilin aðhaldi þegar algjör grunnþjónusta eins og löggæsla sætir aðhaldi. Það er ekki heldur hægt að tala um innviði án þess að tala um löggæslu.
Ríkisstjórninni gengur illa að ná niður verðbólgu. Ný fjármálaáætlun geymir því miður ekki betri tæki til að ná niður verðbólgu en sú síðasta og vinna ríkisstjórnarflokkanna byggist ekki á greiningum um hvernig er hægt að fara betur með fjármagn eða auka framleiðni.
Hin flata aðhaldskrafa í fjármálaáætlun beinist með sama hætti að öllum málaflokkum en ákveðnir grundvallarmálaflokkar eru þó undanskildir. Þar á meðal er heilbrigðisþjónusta, sem breið samstaða ríkir um á Alþingi að verði ekki látin sæta aðhaldi. Sömu lögmál gilda um löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Þar er um algjöra grunnþjónustu að ræða og aðhald í starfsemi sem fer fram á sólarhringsvöktum allan ársins hring leiðir alltaf til þess að fækka þarf starfsfólki og heggur þar með í þjónustu. Nær allur kostnaður lögreglu er launakostnaður. Aðhald getur þess vegna ekki þýtt annað en fækkun í starfsemi sem er fáliðuð fyrir.
Þessi furðulega sýn stjórnvalda á löggæslu og öryggi þjóðarinnar birtist á sama tíma og gríðarleg fólksfjölgun hefur orðið í landinu og mikill fjöldi ferðamanna kemur til landsins allan ársins hring. Verkefni lögreglunnar og þjónusta er fjölbreytt. Allt frá umferðarmálum og umferðarslysum yfir í umfangsmiklar rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi. Sakamálarannsóknir nútímans eru af meiri gæðum sem gerir þær að sama skapi tímafrekari. Það er óraunhæft að ætla að efla varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi til lengri tíma án þess að almenn löggæsla sé samhliða vel mönnuð. Báðar stoðir þarf þess vegna að styrkja og horfa þarf á löggæsluna yfir landið allt.
Vilji dómstóla ekki virtur
Löggæsla og fangelsin hafa lengi dregið aðhaldsvagninn fyrir ríkið. Lögregla hefur enn ekki náð fyrri styrk frá hruni og fangelsin búið við aðhaldskröfu í 20 ár. Áhrifin eru þau að tugir dóma fyrir ofbeldisbrot og nokkrir dómar fyrir kynferðisbrot hafa fyrnst á sl. áratug. Dæmdir menn hafa af þessari ástæðu einfaldlega ekki verið látnir afplána dóma í samræmi við niðurstöðu dóma. Það eru óboðleg skilaboð til brotaþola og samfélagsins alls. Vilji og niðurstaða dómstóla er virt að vettugi þegar fangelsisdómar fyrnast. Þessi staða er ógn við réttarríkið.
Fáliðuð lögregla
Frá því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var stofnað árið 2007 hefur lögreglumönnum á svæðinu fækkað um 40. Á sama tíma hefur orðið sprenging í íbúafjölda og samfélagsgerðin breyst. Staðan er orðin sú að fyrir hverja þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu er rétt rúmlega einn lögreglumaður. Á landsbyggðunum eru umdæmi víðfeðm sem gerir starf lögreglu þyngra. Þar hefur lögreglumönnum fjölgað sums staðar, en ekki í takt við íbúafjölda og ekki í samræmi við verkefnaþunga. Hér þarf að skoða íslenskar aðstæður.
Árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100.000 íbúa næstminnstur á Íslandi af 32 Evrópuríkjum. Stytting vinnuvikunnar hefur leitt af sér kostnaðarhækkanir hjá lögreglu, þar sem unnið er á sólarhringsvöktum allan ársins hring. Þess vegna þyrfti fjölgun í starfsliði bara til að halda starfsemi í horfinu. Í svari við fyrirspurn minni á Alþingi til dómsmálaráðherra kemur fram að til þess að mæta styttingu vinnuvikunnar þurfi að fjölga lögreglumönnum um 50-70. Nýlegar mannaráðningar fela því ekki í sér neina raunfjölgun.
Löggæsla er grunnþjónusta
Viðreisn hefur margsinnis vakið athygli á löngum málsmeðferðartíma í réttarkerfinu og á stöðu fáliðaðrar lögreglu. Þolendur alvarlegra afbrota, eins og kynferðisbrota, eiga ekki að þurfa að bíða árum saman eftir því að fá svör um niðurstöðu í málum sínum. Staða löggæslu á Íslandi og réttarkerfisins er einfaldlega ekki þannig að það sé hægt að réttlæta það að fækka þar starfsfólki.
Viðreisn telur að horfa eigi á löggæslu sem grunnþjónustu við fólkið í landinu og að þessa þjónustu eigi að efla. Ábyrg fjármál snúast um heilbrigða skynsemi og forgangsröðun. Flatt aðhald í löggæslu hefur áhrif á öryggi og öryggistilfinningu fólks. Það er einfaldlega óskynsamleg ráðstöfun fjármuna að vanfjármagna innviði og þjónustu sem hafa það hlutverk að tryggja öryggi fólks. Það verður að setja löggæslu í sama forgang og heilbrigðisþjónustu.