30 maí Óbærilegir óþarfa vaxtaverkir
Enn og aftur minntu óblíð náttúruöflin á sig í gær þegar áttunda eldgosið á þremur árum hófst á Reykjanesskaga. Rýming Grindavíkur og Bláa lónsins gekk vel enda eru viðbragðsaðilar okkar orðnir ansi sjóaðir í þessum aðstæðum. Það á líka við um viðbrögð við öðrum áföllum sem reglubundið dynja á þjóðinni vegna veðurofsa og náttúruhamfara af ýmsum toga. Við vitum að við sveigjum ekki náttúrulögmálin og höfum þess vegna þurft að læra að lifa með þeim.
Það sem við höfum hins vegar stjórn á eru mannanna verk. Til dæmis eru ekki náttúrulögmál þeir himinháu vextir sem íslenskur almenningur hefur búið við í lengri tíma. Sturluð vaxtagjöld heimila landsins eru ekki hamfarir frá náttúrunnar hendi. Það sama á við um vaxtagjöld lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa ekki fengið sérstakt leyfi stjórnvalda til að yfirgefa íslenska krónuhagkerfið og nota erlenda gjaldmiðla. Það er sem sagt ekki náttúrulögmál að hér flæði tugir milljarða króna frá íslenskum heimilum og fyrirtækjum í vaxtakostnað umfram það sem heimili og fyrirtæki í nágrannalöndum okkar greiða í vexti af sínum skuldum.
Það er heldur ekki náttúrulögmál að ríkissjóður Íslands, sem er í raun hóflega skuldsettur í samanburði við önnur lönd, greiði miklu hærri vexti af sínum skuldum. Gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sýna að hlutfall vaxtagjalda ríkis og sveitarfélaga nemur um 6% af landsframleiðslu. Þau lönd sem koma næst, Bretland og Ítalía, greiða um 4% af sinni landsframleiðslu á meðan skuldir þeirra sem hlutfall af landsframleiðslu eru mun hærri en okkar. Að meðaltali er vaxtakostnaður þeirra ríflega 30 ríkja sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skoðar um 2% af landsframleiðslu.
Á mannamáli þýðir þetta að við erum heimsmeistarar í því að nota peningana í vitleysu. Því það er auðvitað ekkert annað en vitleysa að halda hér dauðahaldi í gjaldmiðil sem er okkur svona rándýr. Vextir í íslensku krónuhagkerfi eru og verða miklu hærri en vextir í hagkerfum með stærri og stöðugri gjaldmiðil. Við vitum öll hvernig staðan er. Að á sama tíma og ríki og sveitarfélög þurfa að dæla fleiri tugum milljarða króna í séríslenskan vaxtakostnað þá skortir hér tilfinnanlega fjármagn í ýmsa nauðsynlega fjárfestingu í innviðum og aðra þjónustu við almenning.
Af hverju sættum við okkur við þetta? Er það af því það er búið að sannfæra okkur um að þessi staða sé náttúrulögmál sem ekki er hægt að breyta? Að óbærilegir vaxtaverkir íslenskra heimila og fyrirtækja séu afleiðing óblíðra náttúruafla sem við þurfum bara að læra að lifa með?
Við vitum betur. Breytum þessu.