11 jún Opið bréf til Framsóknarflokksins
Ég var að hlusta á ágætar umræður í Vikulokunum þar sem fulltrúi Framsóknar talaði um nauðsyn þess að koma á fót nýju fyrirkomulagi þar sem bændur fái lán á „sanngjörnum kjörum“ til langs tíma. Þau nýju lán yrðu notuð til að greiða niður þau lán sem bændur eru með núna því vextirnir eru að sliga búskapinn.
Samúð mín með bændum vegna vaxta og verðbólgu er mjög mikil. En samúð mín vegna hárrar verðbólgu og séríslensku okurvaxtanna nær líka til fjölskyldna og smærri og stærri fyrirtækja sem glíma við nákvæmlega sama vanda. Venjulegar fjölskyldur sem þurfa að taka 40 til 70 milljóna króna lán á 10 prósenta vöxtum til að eignast heimili gætu vafalítið líka hugsað sér nýtt fyrirkomulag þar sem heimilin fái lán á „sanngjörnum kjörum“ til að greiða niður okurlánin sem þau eru með í dag.
Fulltrúi Framsóknar horfir algerlega fram hjá því að það er til aðferð sem tryggir bændum en líka fjölskyldum og smærri og stærri fyrirtækjum betri vaxtakjör til lengri tíma. Það fyrirkomulag felst í nýjum gjaldmiðli sem nýtur trúverðugleika í alþjóðlegum samanburði. Þeir sem loka augunum fyrir þessari einföldu og augljósu staðreynd, og vilja fara þessa tilteknu framsóknarleið, eru í raun talsmenn þess að vaxtapínd heimili landsins greiði niður með beinum hætti vaxtaánauð einnar stéttar umfram aðrar.
Mun skynsamlegra væri að útrýma í eitt skipti fyrir öll kerfisvanda krónunnar og koma varanlega á stöðugra umhverfi fyrir okkur öll. Bændur og heimilin.