Treystum þjóðinni

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Í 80 ár hef­ur Ísland verið frjálst og full­valda ríki. Þrátt fyr­ir smæð okk­ar hef­ur þessi staðreynd end­ur­spegl­ast í stöðu okk­ar á alþjóðavett­vangi. Örfá­um árum eft­ir stofn­un lýðveld­is­ins urðum við aðilar að Sam­einuðu þjóðunum og eitt af stofn­ríkj­um NATO. Við erum í nor­rænu sam­starfi, aðilar að Alþjóðaviðskipta­stofn­un­inni, Schengen-sam­starf­inu og EES-samn­ingn­um, svo dæmi séu tek­in.

Við stönd­um ekki utan við þessi alþjóðlegu sam­tök sem við þó hæg­lega gæt­um. Við vilj­um vera full­gild­ir þátt­tak­end­ur á vett­vangi þessa sam­starfs og bræðralags sem hef­ur mik­il áhrif á hags­muni okk­ar og framtíð. Af sömu ástæðu ætt­um við að vera hluti af Evr­ópu­sam­band­inu og standa þar jafn­fæt­is þeim sjálf­stæðu og full­valda þjóðum sem sjá hags­mun­um sín­um best borgið þar.

Með EES-samn­ingn­um erum við þegar kom­in með ann­an fót­inn inn í Evr­ópu­sam­bandið. Það sem eft­ir stend­ur eru raun­veru­lega fyrst og fremst þau lýðræðis­legu áhrif sem við mynd­um njóta með inn­göngu. Þeir sem eru mót­falln­ir því að ís­lensk­ur al­menn­ing­ur fái að kjósa um aðild­ina hafa reynt að leggja áherslu á áhrifa­leysi smærri þjóða í alþjóðasam­starfi. Mér finnst þetta stór­merki­legt. Evr­ópu­sam­bandið stend­ur nefni­lega flest­um öðrum alþjóðasam­tök­um fram­ar í því að tryggja áhrif lít­illa þjóða.

Á Evr­ópuþing­inu eru starf­andi flokka­banda­lög svipaðra flokka. Við í Viðreisn erum t.d. í sam­starfi frjáls­lyndra flokka. Sósí­al­demó­krat­ar hafa sitt flokka­banda­lag, hægri flokk­ar líka sem og vinstri flokk­ar og þannig mætti áfram telja. Í þess­um flokka­hóp­um ligg­ur hið eig­in­lega sam­starf, hin eig­in­lega póli­tík og hin eig­in­legu áhrif inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins. Í ákveðnum mál­um hafa ein­staka þjóðir líka skipað sér í fylk­ing­ar rétt eins og í öðrum alþjóðasam­tök­um.

Svarið við spurn­ing­unni um hver hagn­ist mest á inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið er aug­ljóst. Það er ís­lensk þjóð. Íslensk heim­ili munu njóta góðs af geng­is­stöðug­leik­an­um og langþráðri vaxta­lækk­un sem fylg­ir upp­töku evr­unn­ar. Það sama á við um þau fyr­ir­tæki sem eru föst í krónu­hag­kerf­inu; flest lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki lands­ins, hryggj­ar­stykkið í at­vinnu­líf­inu okk­ar. Að auki mun­um við öll njóta góðs af lýðræðis­leg­um áhrif­um okk­ar á lög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins sem við inn­leiðum þegar að mestu leyti í gegn­um EES-samn­ing­inn.

Við höf­um sýnt og sannað með fram­göngu okk­ar í öðru alþjóðasam­starfi að við höf­um áhrif. Bæði okk­ur sjálf­um til heilla og þeim sam­tök­um sem við erum þátt­tak­end­ur í. Það er löngu kom­inn tími til þess að ís­lensk þjóð fái að greiða at­kvæði um það hvort gengið verði til aðild­ar­viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið. Viðreisn treyst­ir þjóðinni til þess að taka þá ákvörðun.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní 2024