27 jún V og D á svissneskum vogarskálum
Félagshyggja er ímynd VG og markaðsbúskapur er ímynd Sjálfstæðisflokks. Nú tala þingmenn beggja á þann veg að langt samstarfi við hinn flokkinn hafi veikt málefnalegan trúverðugleika þeirra.
Í síðustu viku birti Viðskiptaráð árlega skýrslu um samkeppnishæfni þjóða, sem unnin er af svissneska viðskiptaháskólanum IMD. Háskólinn byggir mat sitt bæði á efnahagslegum og félagslegum mælikvörðum.
Þetta fjölþætta mat varpar þar af leiðandi nokkru ljósi á hvor þingflokkurinn hefur í reynd verið áhrifaríkari við ríkisstjórnarborðið.
Viðamikil rannsókn
Rannsókn IMD nær til 67 ríkja. Viðskiptaráð hefur til margra ára haldið utan um þetta verkefni hér á landi af miklum metnaði og kynnt niðurstöðurnar með áberandi hætti.
Kannanir af þessu tagi eru afar mikilvægar. Augljóst er að þær ættu að nýtast stjórnvöldum við stefnumótun. Ekkert væri því eðlilegra en að þessi könnun tæki mikið rými í pólitískri umræðu. Því er þó ekki að heilsa.
Í heildarniðurstöðunni fellur Ísland niður um eitt sæti og situr nú í því 17. Í sjálfu sér er það ekki slæmt. En Ísland stendur langt að baki öðrum Norðurlöndum. Það er óviðunandi staða af því að við miðum lífskjör okkar við þau.
Fall um eitt sæti er líka athyglisvert í því ljósi að núverandi forystuflokkur ríkisstjórnarinnar telur sjálfur að Ísland hafi einmitt á sama tíma skákað öllum öðrum þjóðum í efnahagslegri velgengni.
12. sæti og 53. sæti
En það er ólík sætaskipun efnahagslegu mælikvarðanna og þeirra félagslegu, sem sýnir hvor flokkurinn hefur lagt þyngri lóð á vogarskálar stjórnarstefnunnar.
Þegar kemur að samfélagslegum innviðum lendir Ísland í 12. sæti. Þótt þetta svið skili Íslandi bestum árangri föllum við eigi að síður um fimm sæti frá fyrra ári.
Allt annað er uppi á teningnum þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu. Þar situr Ísland í 53. sæti. Efnahagsleg frammistaða landsins þegar kemur að samkeppnishæfni er sem sagt fyrir neðan allar hellur.
Þótt bæta þurfi félagslegu innviðina til þess að standast norrænan samanburð er augljóst að um all mörg ár hefur verið lagður meiri metnaður í félagslegu pólitíkina en þá efnahagslegu.
Þessi mælikvarði er ágæt vísbending um að málefnalega hafi ekki verið jafnræði með stjórnarflokkunum. VG sýnist hafa haft ríkari áhrif en þingmenn sjálfstæðismanna.
Léleg efnahagsleg samkeppnishæfni
Við nánara niðurbrot á lélegri efnahagslegri frammistöðu í þessum samanburði kemur í ljós að samkeppnishæfni í alþjóðaviðskiptum skipar Íslandi í 59. sæti. Mælikvarðar um alþjóðlega fjárfestingu og verðlag setja Ísland síðan í 60. sæti.
Á þessum mikilvægu sviðum vermir Ísland botnsætin.
Opinber fjármál lenda í 28. sæti og skattastefnan í því 41. Það er veruleg afturför frá fyrra ári.
Í kynningu Viðskiptaráðs er tekið dæmi sem varpar ljósi á varhugaverða brotalöm í hagstjórninni. Verðmætasköpun á mann kemur okkur í 3. sæti. En á sama tíma versnar viðskiptahallamælikvarðinn. Þar erum við í 32. sæti. Þetta bendir til að undirstaðan sé ekki nægjanlega sterk.
Atvinnustigið er eini jákvæði efnahagslegi mælikvarðinn. Þar er Ísland í 8. sæti. Sú þensla er aftur orsök mikillar verðbólgu og ofurvaxta, sem helst þekkjast í stríðshrjáðum ríkjum.
Þetta er staðan þegar þingmenn sjálfstæðismanna hafa borið ábyrgð á efnahagsmálum og ríkisfjármálum nær óslitið frá 2013.
Útilokar samstarf við alla stjórnarandstöðuflokka
Óli Björn Kárason sagði á Alþingi fyrir viku að þrátt fyrir óánægju með ráðherra VG myndi hann aldrei vera í liði með þeim flokkum, sem nú eru í stjórnarandstöðu.
Þessi ummæli benda til þess að þingmenn sjálfstæðismanna sjái enga hugmyndafræðilega framtíð nema í ástar- og haturssambandi við VG.
Þingflokkar sjálfstæðismanna og VG hafa báðir misst trúverðugleika þegar kemur að samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðaviðskiptum, erlendri fjárfestingu og ríkisfjármálum eftir jafn langan andvaraleysistíma og raun ber vitni. Þeir lögðu umbætur og kerfisbreytingar á hilluna.
Flokkar í stjórnarandstöðu geta opnað stjórnarmyndunarmöguleika við þá með því að gera það sama eða tekið samtalið við kjósendur um nauðsynlegar umbætur og kerfisbreytingar. Reynslan sýnir að það breytist ekkert sjálfkrafa.