13 ágú Íslendingar eiga skilið stöðugleikastjórn
Það er ekki fyrr en að hausti 2026 sem gert er ráð fyrir að verðbólga geti fallið að 2,5% markmiði Seðlabankans. Það verður þá eftir tæplega 80 mánaða samfellt verðbólgutímabil sem er með því lengsta í sögunni. Níu ára hallarekstur á ríkissjóði hefur kynt undir verðbólgubálinu. Nú er svo komið að íslenskt vaxtastig og vaxtabyrði þekkist helst annars í stríðshrjáðum ríkjum.
Afleiðingar óstjórnarinnar blasa við. Samgönguáætlun er ófjármögnuð á meðan vegakerfið liggur undir skemmdum. Heilbrigðis- og menntakerfið er í ólestri. Meira að segja löggæslan, sem er algjör frumskylda stjórnvalda, hefur verið vanfjármögnuð um árabil. Pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar birtast ekki síst í harðri andstöðu hennar við heilbrigðar leikreglur í samfélaginu. Einokun í landbúnaði hefur verið færð á silfurfati til Kaupfélags Skagfirðinga. Frumvörp hafa verið kynnt um að færa Norðmönnum ótímabundinn nýtingarrétt á auðlindum í fjörðum landsins. Skipt hefur verið um fjármálaráðherra þrisvar sinnum á sex mánuðum í óstarfhæfri ríkisstjórn sem snýst þegar allt kemur til alls fyrst og fremst um hver situr í hvaða ráðherrastól.
Þetta er veruleikinn sem blasir við þingmönnum í vetur og auðvitað almenningi öllum. Íslendingar eiga svo miklu betra skilið; stöðugleika og stjórn sem vinnur með almannahagsmunum, en ekki gegn þeim.
42% sagt skilið við hagkerfið – hin búa við óstöðugleika
Vaxtakostnaður heimila í fyrra jókst um heila 39 milljarða. Staðlað svar ríkisstjórnarinnar við þessu galna ástandi er að hávaxtastig sé bara í eðli íslenska kerfisins. Það sé lítið og sveiflukennt. Aldrei er talað um óreiðuhagstjórn eða þá staðreynd að tvær þjóðir búa á Íslandi. Annars vegar fólkið sem lifir í krónuhagkerfinu og hins vegar fyrirtækin sem gera upp í evrum og dollurum. Um 250 íslensk fyrirtæki hafa yfirgefið krónuna og um 42% þjóðarframleiðslunnar eins og fram kom í nýlegu svari viðskiptaráðherra við fyrirspurnum mínum á Alþingi. Vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa þess vegna ekki áhrif á lán þessara fyrirtækja. Þessum fyrirtækjum bjóðast betri lánskjör en heimilum og litlum fyrirtækjum. Viðreisn hafnar þessum veruleika til frambúðar. Stöðugleiki á að vera lúxus allra en ekki sumra. Og stöðugleikinn fæst ekki fyrr en almenningur nýtur stöðugs gjaldmiðils rétt eins og stórfyrirtækin gera.
Stöðugleiki fyrir unga fólkið
Þótt kaupmáttur launa sé almennt góður á Íslandi í alþjóðlegum samanburði hefur hann hins vegar sveiflast fjórum sinnum meira á Íslandi en í hinum OECD-löndunum bara frá aldamótum. Niðursveiflurnar hafa bitnað harðast á ungu fólki sem færir fjármagn til eldri kynslóðanna og helst gegnum fasteignamarkaðinn. Þetta er ungt fólk sem býr við þunga útgjaldabyrði og er að koma undir sig fótum í lífinu. Það þarf þess vegna ekki að koma á óvart að ungu fólki, og þá sérstaklega menntuðu fólki, finnist Ísland ekki aðlaðandi kostur sem framtíðarheimili. Staðreyndin er nefnilega að færri íslenskir háskólanemar sem fara út í nám skila sér heim en annars staðar á Norðurlöndunum. Við erum Norðurlandameistarar í útflutningi eigin borgara og þar skipta þættir eins og verðbólga, íslenskir vextir á húsnæðislánum og verð á matvöru miklu, sem og stuðningur við barnafjölskyldur. Þegar talað er um að vera samkeppnishæf sem þjóð þarf að horfa til þess hvaða veruleiki bíður ungs fólks. Við verðum að taka það verkefni alvarlega að vera samkeppnishæf sem framtíðarland ungs fólks.
Leyfum fólkinu að kjósa um stöðugleikann
Um áratugur er síðan stjórnvöld meinuðu þjóðinni að taka afstöðu til framtíðar í Evrópusambandinu. Frá þeim tíma hefur óstöðugleikinn verið áframhaldandi veruleiki almennings. Fólkið í landinu á að fá að kjósa um stöðugleikann og áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Þessi ákvörðun verður alltaf að vera þjóðarinnar. Við eigum að geta tekið afstöðu til kostanna og gallanna í sameiningu. Stjórnvöld í samtali við fólkið í landinu.
Um það snýst heilbrigt lýðræði og það er skylda ríkisstjórnar sem vinnur í þágu almannahagsmuna og stöðugleika – en ekki gegn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024