02 sep Hvert er planið?
Enn og aftur erum við í þeirri stöðu að stjórn efnahagsmála hefur skilið fjölda fólks eftir á köldum klaka og hávært ákall berst frá heimilum landsins um aðstoð. Enn og aftur eru sértækar lausnir ræddar við ríkisstjórnarborðið. Innviðaskuld er það svo kallað þegar brestir koma í ljós í grunninnviðunum; í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í samgöngumálum. Þetta er innviðaskuld stjórnvalda við almenning. Enn og aftur klikkar kerfið.
Er nema von að spurt sé um planið? Þó virðist svarið liggja í augum uppi. Erum við ekki annars öll sammála um að planið hlýtur að vera að vinna saman að almannahagsmunum? Að vinna saman að því að hér ríki stöðugleiki sem heimili og fyrirtæki landsins geti reitt sig á? Og sjáum við ekki öll að planið verður að felast í hugsun og lausnum til lengri tíma frekar en misgóðum átaksverkefnum sem helst virðist ætlað að tóra fram yfir næstu kosningar? Eða hvað?
Viðreisn kom fram á sjónarsviðið fyrir kosningarnar haustið 2016 og lagði meðal annars áherslu á að þjóðin fengi að ákveða hvort gengið yrði til samninga við Evrópusambandið um inngöngu Íslands í þetta stóra hagsmunabandalag Evrópuþjóða. Þá hlógu ýmsir forystumenn gömlu stjórnmálaflokkanna að okkur. Þótti kjánalegt að við værum svona með augun á framtíðinni en ekki núinu, eða jafnvel helst fortíðinni. Það gerðu þeir og það gengi bara svona glimrandi vel. Ég veit ekki hvort þeir hlæja núna en ég veit að það gerir almenningur ekki.
Viðreisn lítur á Evrópusambandsaðild Íslands sem skýra leið að ofangreindum markmiðum. Telur að markmiðið um almannahagsmuni umfram sérhagsmuni nái helst fram að ganga í sterku samfélagi Evrópuþjóða. Fyrir því liggja margar ástæður þó að viðvarandi verðbólga og óðavextir hér á landi hafi með réttu beint athyglinni að mikilvægi þess að Ísland taki upp nothæfan gjaldmiðil fyrir heimili landsins og þorra atvinnulífsins, þ.e. þau fyrirtæki sem enn nota krónuna.
Í ríflega eina öld, allt frá því að tengsl íslensku krónunnar við þá dönsku voru rofin, hefur aftur og aftur verið staðfest að krónan okkar ýkir náttúrulegar hagsveiflur og vinnur þannig gegn markmiðum um efnahagslegan stöðugleika. Loforð stjórnvalda um stöðugleika og viðvarandi lága (eðlilega) vexti hafa ítrekað reynst óraunhæf. Það eina sem hefur reynst viðvarandi hefur verið rándýr vaxtamunur milli Íslands og annarra þjóða með stærri og stöðugri gjaldmiðil. Þetta getur ekki gengið svona lengur.
Léttum heimilum og fyrirtækjum landsins róðurinn. Látum planið vera í þeirra þágu.