11 sep Gjaldmiðill Bakkabræðra
Þjóðsagan um þá Bakkabræður Gísla, Eirík og Helga er mörgum kunn. Þeir vildu svo óskaplega vel en skilningur á aðstæðum hverju sinni var takmarkaður og verksvitið vantaði alveg. Heimskupör þeirra bræðra eru mörg bráðfyndin þótt afleiðingarnar væru stundum alvarlegar.
Undanfarið hefur mér oft orðið hugsað til þess þegar þeir Gísli, Eiríkur og Helgi reyndu að bera sólskin inn í gluggalaust hús. Húsið höfðu þeir byggt þannig til að halda kuldanum úti en þeir áttuðu sig fljótlega á því að myrkrið gerði dvölina þar óbærilega. Bræðurnir dóu ekki ráðalausir heldur tóku sig til einn góðan veðurdag þegar sólin skein glatt og fóru að bera út myrkrið úr húsinu í húfum sínum, hvolfdu úr þeim og báru aftur inn í þeim sólskin. Þetta bisuðu þeir við daglangt og hugsuðu sér svo gott til glóðarinnar um kvöldið þegar þeir hættu að setjast inn í bjart húsið. En þar mætti þeim auðvitað sama myrkrið og áður.
Þessi saga minnir á tilraunir með íslensku krónuna. Rándýrt tilraunaverkefni sem engu skilar. Smæð gjaldmiðilsins okkar verður vandamál þar til við skiptum honum út fyrir stærri og stöðugri gjaldmiðil. Smæð íslensku krónunnar kallar á margfalt hærri vaxtakostnað íslenskra heimila og íslensks atvinnulífs en þekkist í löndunum í kringum okkur. Þessar miklu sveiflur sem fylgja íslensku krónunni hafa valdið stökkbreytingu lána hjá heimilum og fyrirtækjum og þannig dregið úr efnahagslegu sjálfstæði. Það getur engin þjóð staðið undir svona viðbótarkostnaði án þess að það hafi veruleg neikvæð áhrif á lífskjörin.
Efnahagslegur ávinningur evrunnar er sérstaklega mikilvægur nú á tímum þar sem íslenskt hagkerfi má engan veginn við því að sitja uppi með um 500 milljarða króna árlegan kostnað krónunnar af skuldum bara vegna hærri vaxta en innan evrunnar. Þessi upphæð er einfaldlega fengin með því að margfalda langtímavaxtamun á íslensku krónunni og evru með heildarskuldum ríkis, sveitarfélaga, annarra opinberra aðila, fyrirtækja og heimila.
Þessi kostnaður, annars vegar í formi vaxta og verðbólgu og hins vegar í formi óstöðugs gjaldmiðils, er að setja fjölda heimila og fyrirtækja á hliðina. Það er stærsta viðfangsefni stjórnmálanna að opna á faglega og yfirvegaða umræðu um þessi mál með það að markmiði að koma böndum á þennan kostnað sem á mannamáli er auðvitað ekkert annað en aukaskattur á íslenskt samfélag. 500 milljarða króna aukaskattur.
Við þurfum að létta róðurinn hjá heimilum og hjá atvinnulífinu. Bæta lífskjörin. Við gerum það ekki með því að beita aðferð Bakkabræðra. Fer það ekki að verða fullreynt?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2024