Von um mikla vaxtalækkun

Hús­næðismál eiga að vera lyk­i­láhersla rík­is og sveit­ar­fé­laga. Mik­il­væg­asti liður­inn í því að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði er að byggja nóg. Um þetta get­um við öll verið sam­mála. En sá skiln­ing­ur þýðir samt ekki að þá sé nóg að halla sér aft­ur og láta eins og verk­efn­in leys­ist af sjálfu sér.

Þegar vext­ir eru háir er minna byggt og það ger­ir öll­um – sér í lagi ungu fólki – erfiðara fyr­ir að kaupa sínu fyrstu íbúð og koma ár sinni þannig fyr­ir borð. Það er þess vegna gleðiefni að lík­ur séu loks­ins tald­ar á eins pró­sents vaxta­lækk­un síðar í mánuðinum. Þótt fyrr hefði verið og eft­ir hreint út sagt óþolandi langt tíma­bil ok­ur­vaxta.

Þessi viðspyrna mun þó ekki ná neinu flugi nema hér tak­ist að mynda sam­henta rík­is­stjórn. Það gef­ur auga­leið. Sú stjórn sem hér verður mynduð inn­an nokk­urra vikna verður að vinna bet­ur sam­an en sú sem nú hef­ur hrökklast frá völd­um. Þetta er al­gjör lyk­il­breyta í stóra sam­heng­inu. Það þarf rík­is­stjórn sem kem­ur á var­an­leg­um stöðug­leika. Rík­is­stjórn sem bæði skil­ur mik­il­vægi skyn­sam­legr­ar hag­stjórn­ar og ræður við það verk­efni. Við þurf­um líka ráðherra sem skilja að fólk hef­ur eng­an áhuga á að velkj­ast leng­ur um á fast­eigna­markaði sem minn­ir helst á fjár­hættu­spil. Fólk á rétt á fyr­ir­sjá­an­leika varðandi mánaðarleg­ar af­borg­an­ir hús­næðislána og fólk á rétt á því að þau kosti ekki ann­an hand­legg­inn og meira til í formi vaxta sem hafa verið hér marg­falt hærri en hús­næðislána­vext­ir í ná­granna­lönd­um okk­ar.

Skila­boð okk­ar í Viðreisn hafa verið skýr um ára­bil. Það er ekki boðlegt ástand að hús­næðis­vext­ir séu alltaf marg­falt hærri hér en í ná­granna­lönd­un­um. Fólk þráir að vita hver mánaðarleg af­borg­un hús­næðisláns­ins verður, þó ekki væri nema nokkra mánuði fram í tím­ann.

Fái Viðreisn til þess umboð mun­um við taka til óspilltra mál­anna í þess­um verk­efn­um sem varða sam­eig­in­lega hags­muni okk­ar allra. Aðeins þannig mun okk­ur tak­ast að rétta úr kútn­um og kveða niður þráláta ís­lenska vaxta­grýlu. Það er mik­il­væg­asta verk­efnið. Þótt von­ir um 1% vaxta­lækk­un í lok nóv­em­ber gangi eft­ir erum við ekki laus úr hringa­vit­leys­unni nema hér verði mynduð rík­is­stjórn sem vill og get­ur komið á stöðug­leika. Bæði til skemmri og lengri tíma. Þar liggja hinir raun­veru­legu al­manna­hags­mun­ir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember