21 nóv Heilnæmt samfélag, betri lífskjör og jöfn tækifæri fyrir öll
Alþingiskosningar eru tækifæri okkar allra til að móta samfélag okkar og framtíð. Í kosningum, tökum við þátt í að móta framtíð okkar og þeirra sem á eftir okkur koma. Við getum haft raunveruleg áhrif á hvernig geðheilbrigðismál, efnahagur og önnur mikilvæg málefni eru meðhöndluð til framtíðar.
Staða geðheilbrigðismála og efnahags í landinu er háð þeim ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi. Ef við viljum sjá raunverulegar breytingar, þá er ekki nóg að kjósa yfir okkur sömu ríkisstjórn og halda áfram að fleyta ofan af kerfi sem ekki virkar. Við þurfum að styrkja innviði og byggja kerfið upp frá grunni.
Vextir og verðbólga, sem nú gera þjóðfélaginu róðurinn óbærilegan, verða að lækka.Tryggja verður að fólk geti búið við viðunandi lífsgæði án óheyrilegs álags. Lengja þarf fæðingarorlof til að tryggja órofna tengslamyndun barns og foreldris, og bæta verður aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla. Við þurfum að búa til samfélag þar sem við byggjum upp grunnkerfi sem skapar jöfn tækifæri og verndar öll, sérstaklega þau sem eru í viðkvæmri stöðu.
Geðheilbrigðismál og fjölskylduvænt samfélag
Við þurfum að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og vinna heildstætt að heilbrigði fólks og þar með samfélagsins alls. Til þess verður að stytta eða útiloka biðlista, en einnig að draga úr þörf fyrir þjónustu með því að styrkja þá innviði sem búa til heilbrigðari og stöðugri samfélag. Með því að lengja fæðingarorlof og tryggja að foreldrar geti verið til staðar fyrir börn sín, minnkum við einnig líkur á geðrænum vanda í framtíðinni. Órofin tengslamyndun barna við foreldra, þar sem foreldrarnir þurfa ekki að sligast undan fjárhagsáhyggjum í fæðingarorlofi, tryggir fjölskylduvænt samfélag. Við viljum samfélag þar sem ungmenni leiðast ekki í ofbeldi eða glæpi vegna félagslegra og efnahagslegra aðstæðna. Við byggjum einnig upp sterkari innviði með því að meta til launa og aðbúnaðar fólk sem sinnir störfum í heilbrigðis-, og menntakerfinu.
Kjósa með framtíðina í huga
Kjósið með það í huga að við eigum öll rétt á að búa í samfélagi sem byggir upp grunnkerfi sem stendur undir ólíkum þörfum okkar allra og ber hag okkar fyrir brjósti. Viðreisn er tilbúin að leggja sig fram við að byggja upp slíkt samfélag.
Ef við viljum raunverulegar breytingar, þá verðum við að kjósa raunverulegar breytingar. Því það er svo sannarlega komin tími á breytingar!
Kjósið Viðreisn!