Frábært samtal við þjóðina

Þorgerður Katrín kynnir stefnu Viðreisnar

Viðreisn kynnti í dag helstu áherslur kosningabaráttu sinnar. Viðburðurinn var haldinn í anddyri Húsgagnahallarinnar, Bíldshöfða 20.

 

Kosningabaráttan með langan aðdraganda

Fyrir rúmu ári síðan hóf Viðreisn fundaherferð með yfirskriftinni “Hvað liggur þér á hjarta?”. Tilgangur þessa funda var að hlusta á kjósendur um allt land. Þessu samtali höfum við haldið áfram og kjarninn í kosningabaráttunni hafa verið frambjóðendur Viðreisnar að hlusta á þjóðina og heyra hvaða mál kjósendur telja mikilvægust.

 

Þúsundir kjósenda hafa sagt okkur sömu skilaboðin, vextir og verðbólga og því tengt húsnæðismál eru þau málefni sem helst liggja á kjósendum og það málefni sem ný ríkisstjórn þarf strax að bregðast við. Það eru fjöldamörg önnur málefni sem fólkið í landinu hefur sagt okkur að séu brýn, biðlistar og geðheilbrigðismál, menntamál, samgöngumál, stöðugur gjaldmiðill og málefni lífeyrisþega. Öll þessi samtöl munum við taka inn í nýtt kjörtímabil þar sem Viðreisn er reiðubúin að bretta upp ermar og hefjast handa við að breyta því sem þjóðin kallar eftir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar:

,,Það kom okkur ekki á óvart að langstærsti hluta þeirra kjósenda sem við hittum setti efnahagsmálin, verðbólgu og vexti sem þau mál sem mikilvægast væri fyrir næstu ríkisstjórn að ná tökum á. Eins hefur þjóðin áhyggjur yfir versnandi andlegri heilsu þjóðarinnar og ekki hvað síst hjá unga fólkinu okkar. Þessi samhljómur um mikilvægustu málefnin fer vel saman við þá stefnu sem Viðreisn var stofnuð um. Ríkisstjórn sem Viðreisn leiðir mun halda þessu samtali við þjóðina áfram. Auk þessara lykilstefnumála okkar þá er frelsið málefni sem Viðreisn getur aldrei gefið afslátt af en sífellt er verið að þrengja að frelsi því.

Við erum þakklát fyrir öll þessi samtöl og hvetjum alla Íslendinga að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að mæta á kjörstað og kjósa, komandi laugardag.