Ný ríkisstjórn kynnt

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var kynnt í dag.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarflokkanna þriggja og ráðherraskipan Viðreisnar var kynnt í morgun og samþykkt, fyrst af þingflokki Viðreisnar og svo á fundi ráðgjafaráðs í Hörpu.

Formenn stjórnarflokkanna kynntu svo stjórnarsáttmálann á blaðamannafundi í Hafnarborg í Hafnarfirði áður en haldið var til Bessastaða á fyrsta ríkisráðsfund nýrrar stjórnar.

Ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar mun fækka um einn og verða 11. Ráðherrar Viðreisnar verða:

  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.
  • Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.
  • Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.

 

Atvinnuvegaráðuneyti er fyrrum matvælaráðherra en við það bætist málefni ferðaþjónustunnar, viðskipta og iðnaðar auk þess sem samkeppnis- og neytendamál færast undir ráðuneytið. Þá mun skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála færast frá félagsmálaráðuneyti til dómsmálaráðuneytis.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum mun ný ríkisstjórn ganga samstíga til verka. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið mun ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.

Í upphafi kjörtímabilsins verður óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.Þá mun þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fara fram eigi síðar árið 2027.

Hægt er að lesa allan stjórnarsáttmálann hér.