08 jan Setjum tappa í flöskuna
Mér finnst frábært að sjá hvernig ný ríkisstjórn hefur störf sín. Við horfum fram á nýtt upphaf í stjórn landsins. Ferskan tón. Þar sem samheldni, festa og skýr sýn um framtíðina er leiðarstefið. Stóra verkefnið er að ná tökum á ríkisfjármálunum. Eftir sjö ár af útgjaldafylleríi fyrri ríkisstjórnar er kominn tími til að setja tappa í flöskuna og boða nýja nálgun. Takist það ekki er borin von að hægt sé að tryggja nauðsynlega innviðauppbyggingu um allt land, styrkja stoðir heilbrigðis- og velferðarkerfisins eða fjárfesta í menntakerfinu. Forsendan fyrir þessu öllu er tiltekt og forgangsröðun fjármuna í bland við aukna verðmætasköpun um allt land.
Það var ekki gott fyrir þjóðina að sitja uppi með ríkisstjórn þriggja skipstjóra sem sátu fastir um borð í sama bátnum en vildu allir róa hver í sína áttina. Niðurstaðan af slíkri tilraun blasir við. Báturinn snerist í hringi. Þjóðin kaus og skilaboðin frá henni eru skýr. Hún kallar á breytingar og breytta nálgun. Samhenta skipstjóra sem róa í sömu átt.
Mér fannst þess vegna frábært að sjá nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar: „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“ þar sem stjórnin kallar eftir umsögnum frá almenningi um hagræðingarhugmyndir til bæði skemmri og lengri tíma. Þegar þessi grein er rituð hafa yfir 2.300 umsagnir verið sendar inn. Margar stórgóðar. Það er augljóst að almenningur hefur mikinn áhuga á þessu stóra verkefni okkar – sem er að fara betur með fé og tækifæri þjóðarinnar. Útgjöld ríkisins árið 2025 eru 1.550 milljarðar króna eða 16 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það skiptir öllu máli að ný ríkisstjórn slái nýjan tón. Tón hinnar hagsýnu húsmóður sem einsetur sér að fara betur með og endurhugsa leikinn. Vera lausnamiðuð og finna leiðir. Án þess þó að drepa stemninguna á heimilinu.
Á vef stjórnarráðsins er spurt: „Myndum við verja opinberu fé í sömu verkefni og með sama hætti ef við værum að byrja frá grunni?“ Það finnst mér frábær útgangspunktur. Við hreinlega verðum að staldra við og spyrja okkur krítískra spurninga um grunnþjónustu á vegum ríkisins. Hvað er eðlilegt og æskilegt að ríkið reki – og hvað ekki?
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa stjórnað landinu nær óslitið frá lýðveldisstofnun. Þessir flokkar bera mikla ábyrgð á útblæstri báknsins og flækjustigi kerfisins. Það eru því ærin verkefni að rekja upp þá lönguvitleysu sem hér hefur ríkt. Við hlökkum til verkefnisins með traustu samráði við þjóðina. Það er ekkert sýndarsamráð. Heldur raunveruleg aðgerðastjórnun.
Þið getið treyst því.