Ferðaþjónusta í forgrunni

Hanna Katrín Friðriksson Alþingiskosningar 2021 Reykjavík Suður RS 1 sæti Viðreisn

Það er við hæfi að fyrsta op­in­bera ræða mín sem at­vinnu­vegaráðherra í nýrri rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins var við opn­un ferðaþjón­ustu­vik­unn­ar 2025. Með breyt­ing­um á skipt­ingu starfa ráðherra sem fylgdu stjórn­ar­skipt­un­um voru mál­efni ferðaþjón­ust­unn­ar færð und­ir nýtt at­vinnu­vegaráðuneyti með öðrum grunn­atvinnu­veg­um þjóðar­inn­ar.

Það hef­ur verið æv­in­týra­legt að fylgj­ast með vexti og þróun ferðaþjón­ust­unn­ar, sem hef­ur á fáum árum vaxið úr nán­ast engu yfir í að vera stærsta út­flutn­ings­grein lands­ins. Síðustu miss­eri hef­ur verðbólga og hátt vaxta­stig þó haft óhag­stæð áhrif og ógnað verðsam­keppn­is­hæfni Íslands. For­gangs­mál nýrr­ar rík­is­stjórn­ar er að ná niður verðbólgu og stuðla þannig að lækk­un vaxta. Það er fátt sem skipt­ir ís­lensk fyr­ir­tæki meira máli.

Það er full ástæða til bjart­sýni fyr­ir árið fram und­an en efna­hags­horf­ur fara batn­andi og spár gefa til kynna að áfram verði hóf­leg­ur vöxt­ur í kom­um ferðamanna á næstu árum. Við stönd­um þó enn frammi fyr­ir áskor­un­um, bæði hér heima og á alþjóðasviðinu. Íslensk ferðaþjón­usta býr við krefj­andi alþjóðlegt sam­keppn­is­um­hverfi. Stjórn­völd og at­vinnu­grein­in verða að vinna sam­an að því að hér geti ferðaþjón­usta blómstrað áfram. Þar liggja mikl­ir al­manna­hags­mun­ir und­ir.

Ný rík­is­stjórn mun vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­líf­inu. Mótuð verður at­vinnu­stefnu sem stuðlar að sjálf­bær­um vexti at­vinnu­greina, auk­inni fram­leiðni og heil­brigðum vinnu­markaði. Stuðlað verður að hag­stæðum rekstr­ar­skil­yrðum fyr­ir­tækja og stutt við vöxt ný­sköp­un­ar og tækni. Það er ekki síst mik­il­vægt fyr­ir fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu, þar sem mik­il ný­sköp­un á sér stað sem er grein­inni nauðsyn­leg. Rík­is­stjórn­in hyggst jafn­framt auka skil­virkni í sam­skipt­um fyr­ir­tækja og hins op­in­bera. Fjár­fest verður kröft­ug­lega í sam­göngu­innviðum, sem eru lífæð ferðaþjón­ust­unn­ar.

Eft­ir því sem ferðamönn­um hef­ur fjölgað hér á landi hef­ur ör­yggi og álags­stýr­ing á fjöl­sótt­um ferðamanna­stöðum orðið brýnna verk­efni. Til að stuðla að sjálf­bærri nýt­ingu nátt­úruper­lna lands­ins er nauðsyn­legt að inn­leiða sann­gjarn­ar aðgerðir sem styðja við upp­bygg­ingu, vernd­un og viðhald þess­ara ein­stöku auðlinda. Í því skyni verður for­gangs­mál að móta fyr­ir­komu­lag um auðlinda­gjald fyr­ir aðgang ferðamanna að nátt­úruperl­um lands­ins. Þetta verður unnið í sam­ráði við ferðaþjón­ust­una, ekki síst til að tryggja mik­il­væg­an fyr­ir­sjá­an­leika fyr­ir fyr­ir­tæk­in í grein­inni.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að hér sé rek­in arðsöm og sam­keppn­is­hæf ferðaþjón­usta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð. Að ferðaþjón­ust­an stuðli að bætt­um lífs­kjör­um og hag­sæld á Íslandi og sé ein af grund­vall­ar­stoðum ís­lensks efna­hags­lífs. Ég hlakka til verk­efn­anna fram und­an.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. janúar 2025