26 júl Stórborgarstemning á Vestfjörðum
Það er merkilegt að fylgjast með mannlífinu á Ísafirði þegar skemmtiferðaskipin leggja að bryggju. Stræti bæjarins fyllast af forvitnum ferðalöngum sem njóta þess besta sem fjörðurinn og nálægir firðir hafa upp á að bjóða. Tilfinningin er sú að maður sé um stund staddur í stórborgarstemningu. Um kvöldmatarleytið fellur allt aftur í dúnalogn. Eins og það á að vera.
Það hefur ekki verið auðvelt að koma Vestfjörðum á kortið hjá hefðbundnum ferðamönnum. Fjarlægðin skapar augljósan aðstöðumun, sérstaklega þegar keppt er við aðrar vel rótgrónar ferðaperlur nær höfuðborgarsvæðinu. En skemmtiferðaskipin hafa undanfarið sótt í sig veðrið, ekki síst á kaldari svæðum. Þeim fylgja mikil tækifæri fyrir landsbyggðina.
Það eru ekki bara sveitarfélögin sem hagnast á komu skipanna með hafnargjöldum, heldur hefur fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja þróað fjölbreytt úrval dagsferða sem henta vel þessum hópi ferðamanna, bæði á sjó og landi. Það er gleðilegt að fylgjast með þessum uppgangi á mínum heimaslóðum. Við öll græðum á fjölbreyttari flóru kaffihúsa, veitingastaða og afþreyingar. Fjölskyldan mín býr í einu elsta og fallegasta húsi Ísafjarðar við aðalgötuna. Það er stundum dálítið kómískt að sitja í stofunni með rjúkandi morgunbolla og fylgjast með ferðamönnum prófa ýmsar stellingar við myndatökur við húsið. Það er ekki ólíklegt að við fjölskyldan séum óvart í bakgrunni fjölmargra ljósmyndanna. En alla jafna er fólkið ánægt með þessa þróun og þau tækifæri sem henni fylgir.
Það var afar vont þegar fyrri ríkisstjórn ákvað fyrirvaralaust að leggja á nýtt og hátt innviðagjald á skemmtiferðaskip; 2.500 krónur á mann fyrir hverja nótt, sem er mun hærra en hefðbundið gistináttagjald á hótelherbergjum. Gjaldtakan tók gildi strax um áramót, án greiningar á áhrifum og án samráðs. Skipafélögin bóka ferðir sínar þrjú til fjögur ár fram í tímann og höfðu því ekki tök á að fella nýja gjaldið inn í verðmiðana. Í staðinn þurftu þau að taka kostnaðinn á sig – og svöruðu með því að fækka ferðum og afbóka viðkomur. Það er alvarlegt fyrir svæði sem nú þegar búa við erfitt aðgengi. Fáir eru andvígir sjálfri hugmyndinni um gjaldtöku, en hún verður auðvitað að vera sanngjörn og með hæfilegum fyrirvara.
Það er því fagnaðarefni að ný ríkisstjórn hyggst endurskoða gjaldið og lækka það, til að koma í veg fyrir því að þessi tegund ferðaþjónustu hrynji á Íslandi. Svona ákvarðanir skipta miklu – sérstaklega fyrir þau svæði á landinu öllu sem stóla á það að skip leggi að bryggjunni á sumrin. Skynsemin verður að ráða för. Svo tækifærin fái áfram að blómstra á kaldari ferðaþjónustusvæðum.