Stórborgarstemning á Vestfjörðum

Það er merki­legt að fylgj­ast með mann­líf­inu á Ísaf­irði þegar skemmti­ferðaskip­in leggja að bryggju. Stræti bæj­ar­ins fyll­ast af for­vitn­um ferðalöng­um sem njóta þess besta sem fjörður­inn og ná­læg­ir firðir hafa upp á að bjóða. Til­finn­ing­in er sú að maður sé um stund stadd­ur í stór­borg­ar­stemn­ingu. Um kvöld­mat­ar­leytið fell­ur allt aft­ur í dúna­logn. Eins og það á að vera.

Það hef­ur ekki verið auðvelt að koma Vest­fjörðum á kortið hjá hefðbundn­um ferðamönn­um. Fjar­lægðin skap­ar aug­ljós­an aðstöðumun, sér­stak­lega þegar keppt er við aðrar vel rót­grón­ar ferðaperl­ur nær höfuðborg­ar­svæðinu. En skemmti­ferðaskip­in hafa und­an­farið sótt í sig veðrið, ekki síst á kald­ari svæðum. Þeim fylgja mik­il tæki­færi fyr­ir lands­byggðina.

Það eru ekki bara sveit­ar­fé­lög­in sem hagn­ast á komu skip­anna með hafn­ar­gjöld­um, held­ur hef­ur fjöldi ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja þróað fjöl­breytt úr­val dags­ferða sem henta vel þess­um hópi ferðamanna, bæði á sjó og landi. Það er gleðilegt að fylgj­ast með þess­um upp­gangi á mín­um heima­slóðum. Við öll græðum á fjöl­breytt­ari flóru kaffi­húsa, veit­ingastaða og afþrey­ing­ar. Fjöl­skyld­an mín býr í einu elsta og fal­leg­asta húsi Ísa­fjarðar við aðal­göt­una. Það er stund­um dá­lítið kó­mískt að sitja í stof­unni með rjúk­andi morg­un­bolla og fylgj­ast með ferðamönn­um prófa ýms­ar stell­ing­ar við mynda­tök­ur við húsið. Það er ekki ólík­legt að við fjöl­skyld­an séum óvart í bak­grunni fjöl­margra ljós­mynd­anna. En alla jafna er fólkið ánægt með þessa þróun og þau tæki­færi sem henni fylg­ir.

Það var afar vont þegar fyrri rík­is­stjórn ákvað fyr­ir­vara­laust að leggja á nýtt og hátt innviðagjald á skemmti­ferðaskip; 2.500 krón­ur á mann fyr­ir hverja nótt, sem er mun hærra en hefðbundið gistinátta­gjald á hót­el­her­bergj­um. Gjald­tak­an tók gildi strax um ára­mót, án grein­ing­ar á áhrif­um og án sam­ráðs. Skipa­fé­lög­in bóka ferðir sín­ar þrjú til fjög­ur ár fram í tím­ann og höfðu því ekki tök á að fella nýja gjaldið inn í verðmiðana. Í staðinn þurftu þau að taka kostnaðinn á sig – og svöruðu með því að fækka ferðum og af­bóka viðkom­ur. Það er al­var­legt fyr­ir svæði sem nú þegar búa við erfitt aðgengi. Fáir eru and­víg­ir sjálfri hug­mynd­inni um gjald­töku, en hún verður auðvitað að vera sann­gjörn og með hæfi­leg­um fyr­ir­vara.

Það er því fagnaðarefni að ný rík­is­stjórn hyggst end­ur­skoða gjaldið og lækka það, til að koma í veg fyr­ir því að þessi teg­und ferðaþjón­ustu hrynji á Íslandi. Svona ákv­arðanir skipta miklu – sér­stak­lega fyr­ir þau svæði á land­inu öllu sem stóla á það að skip leggi að bryggj­unni á sumr­in. Skyn­sem­in verður að ráða för. Svo tæki­fær­in fái áfram að blómstra á kald­ari ferðaþjón­ustu­svæðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júlí 2025