05 júl Áfram gakk
Senn líður að lokum 156. löggjafarþings, því fyrsta undir meirihluta Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Gangur þessa þings hefur verið sá sem hann hefur verið og óþarfi að rekja frekar. Það er saga sem bíður betri tíma. Ný stjórnvöld hafa stigið ákveðið niður fæti og nokkur brýn verkefni komin áleiðis eða þeim lokið. Það er fullljóst að verkefnin eru ærin.
Í september hefst svo 157. löggjafarþing og þar með fyrsti heili þingvetur núverandi stjórnar. Fram hafa verið lögð á yfirstandandi þingi bæði fjármálaáætlun og fjármálastefna og þar birtast áherslur ríkisstjórnarinnar.
Stærsta áskorun og verkefni ríkisstjórnar og Alþingis verður að halda áfram á leið til minni verðbólgu og lækkunar vaxta. Þetta var stærsta kosningamálið í síðustu alþingiskosningum og þar hafa mikilvæg skref verið stigin. Þetta var líka aðaláhersla Viðreisnar og okkar stærsta kosningaloforð.
Ástand innviða landsins er öllum ljóst. Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafaverkfræðinga gáfu út í vetur skýrslu um innviði á Íslandi og mátu innviðaskuld landsins á 680 milljarða. Þetta er grafalvarleg staða og mikið verk fyrir höndum að ná tökum á þessu. Þetta nær til þjóðvega landsins, uppbyggingar raforkukerfis og rafmagnsframleiðslu svo fátt eitt sé nefnt.
Í vetur hafa mál barna og ungmenna með fjölþættan vanda verið áberandi og þar eru stórar áskoranir sem bíða úrlausnar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru einhuga að baki mennta- og barnamálaráðherra í því verkefni. Í sama ranni eru heilbrigðismál í heild sinni málaflokkur sem þarfnast verulegrar skoðunar. Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um heilbrigðiskerfið leiðir í ljós að mikill skortur er á hjúkrunarrýmum, mönnunarvandi kerfisins er verulegur og biðlistar allt of langir, meðal annars hjá fólki sem glímir við fíknivanda en vanmat samfélagsins á skelfilegum og víðtækum afleiðingum sjúkdómsins hefur lengi verið meinsemd í okkar samfélagi.
Ánægjulegt er að sjá að í sömu skýrslu segir að heilbrigðisráðuneytið hafi þegar varðað leiðina út úr þessum vanda. Mikilvægt er að ná utan um vanda heilbrigðiskerfisins og gera það hratt og vel. Aðgerðir þurfa að vera skýrar og fjármagnaðar.
En nú er komið sumar og lesendur vonandi margir að njóta þess með sínum nánustu. Samfélagið okkar stoppar þó ekki á sumrin. Um allt land er fólk á veiðum, í heyskap, við þjónustu við ferðamenn og öðrum störfum sem vinnast best þegar veður er hagstætt. Megi öllum ganga sem best í sínum verkum og njóta þess að slaka á þegar færi gefst. Mikilvægasta verkefni Viðreisnar og allra í stjórnmálum er að tryggja að öll þessi atriði gangi sem best fyrir sig.